CARLOS CASTANEDA: 

THE POWER OF SILENCE - (bls. 148-150) 

 
 
 

Dag einn var ég svo kaldhæðinn að spyrja Don Juan hreint út í það hvað hann fengi út úr samskiptum okkar tveggja. Mér var það gersamlega hulið.

"Þú myndir aldrei skilja það" svaraði hann.

Svarið pirraði mig. Ég lét hann nú vita, nokkuð ergilega, að ég væri enginn heimskingi. Hann gæti allavegana reynt.

"Jæja, segjum þá frekar að þó þú kannski skiljir það þá viltu ábyggilega ekki heyra sannleikann", sagði hann og brosti stríðnislega, "skilurðu? Ég vil hlífa þér".

Það var ekki aftur snúið og ég varð enn ákveðnari í að fá svar.

"Ertu viss um að þú viljir vita það?" spurði hann vitandi vel að ég myndi fórna öllu.

"Auðvitað vil ég fá að vita hvað það er sem dinglar fyrir framan mig, hvað heldurðu?" svaraði ég ákveðið.

Þá byrjaði hann að hlæja að einhverjum ósýnilegum brandara, og því meira sem hann hló því meira truflaði það mig.

"Ég sé nú ekki hvað er svona fyndið" sagði ég.

"Stundum á maður ekki að fikta við raunveruleikann" sagði hann, "sannleikurinn undir niðri er eins og undirstaða fyrir hrúgu af alls kyns drasli. Ef við rýnum í gegnum hrúgaldið þá sjáum við undirstöðuna sjálfa. Niðurstaðan getur verið mjög óþægileg. Ég vildi heldur komast hjá því."

Þá hló hann aftur. Augun glömpuðu af stríðni. Hann beinlínis tældi mig til að fylgja máli mínu enn fastar eftir. Ég hélt því mínu fram sem fyrr og sagði, ákveðið en yfirvegað, að hér gæti ég ekki numið staðar.

"Jæja, fyrst þú endilega vilt," sagði hann og lét sem pressan hefði knúið hann til svars. "'Í fyrsta lagi þá vil ég að þú vitir að allt sem ég hef gert þér er ókeypis. Þú þarft ekki að endurgjalda mér neitt. Eins og þú veist þá hef ég borið mig óaðfinnanlega. Og þú veist líka að óaðfinnanleikinn er alls engin fjárfesting. Ég er ekki að tryggja mér umönnun þegar ég verð orðinn of veikburða í ellinni. En ég fæ samt óendanlega mikið út úr samskiptum okkar engu að síður, eins konar verðlaun fyrir óaðfinnanlega meðhöndlun á hinum djúpu sannindum sem ég minntist á áðan. Verðlaunin eru einmitt það sem þú kemur til með að eiga bágt með að skilja, og enn síður vilja viðurkenna." 

Við svo búið gerði Don Juan hlé á máli sínu og gaumgæfði mig rækilega, púkinn atarna!

"'Áfram með þig!" sagði ég óþolinmóður.

"Ég vil ekki að þú gleymir að það ert þú sem vildir þetta!" sagði hann, og brosti enn.

Hann þagði stundarkorn, og ég var alveg að ærast.

"Ef þú kæmir til með að fella dóm um mig" sagði hann loks, "þá hlýturðu að vera sammála því að þolinmæði mín og jafnaðargeð hafa verið hreint óhnekkjanleg. En þú hefur hins vegar ekki hugmynd um hvað það hefur tekið mikið á. Ég hef þurft að berjast fyrir jafnvægi mínu meira en nokkru sinni fyrr. Til að mega eyða degi með þér hef ég orðið að taka sjálfan mig algerlega í gegn og halda aftur af mér með öllum mætti."

Don Juan vissi nákvæmlega hvað hann söng. Mér mislíkaði hvert einasta orð. En í stað þess að láta slá mig út af laginu reyndi ég að hylma yfir með kaldhæðnislegri athugasemd.

"'Ég er nú ekki svona slæmur?"

Rödd mín var furðulega ósannfærandi.

"'Ó jú, svo sannarlega!" sagði hann, alvörugefinn. "Þú ert ómerkileg, þröngsýn, þrá, skapstygg og sjálfumglöð orkusuga. Þú ert stöðugt fýldulegur, þungur og vanþakklátur, og veltir þér upp úr eigin volæði í þokkabót. En það sem er verst eru þínar háleitu hugmyndir um sjálfan þig, sem eru gjörsamlega byggðar á loftinu einu saman."
"'Í fullri einlægni, þá langar mig helst til að æla þegar ég sé þig."

Mig langaði að bregðast reiður við. Ég vildi segja eitthvað á móti, láta hann vita að svona nokkuð kæmist hann ekki upp með. En ég gat það ekki. Ég gat ekki komið upp orði. Ég var dofinn inn að beini.

Ég hlýt að hafa verið skrýtinn í framan við að heyra hin þungu sannindi því Don Juan byrjaði skyndilega að hneggja af hlátri. Ég hélt hann ætlaði að kafna.

"Hvað sagði ég þér? Þetta er ekki gaman að meðtaka!" sagði hann. "Ástæðurnar fyrir því sem stríðsmaðurinn gerir eru mjög einfaldar, en sjálft fágunin er geysimikil. Það er ekki oft sem stríðsmaður fær tækifæri til að sýna fágun sína þrátt fyrir vilja innst inni allt annað. Þú gafst mér einstakt tækifæri til þess. Þessi sífellda og óaðfinnanlega fórn af minni hálfu endurnýjar mig og eykur á lífsþrótt minn. Það sem ég fæ frá þér er mér því ótrúlega mikils virði. Það er ég sem ætti að þakka þér."

Hann horfði fast á mig, og í glampa augnanna sá ég að stríðnin var horfin. Hann meinti hvert orð. 
 

(Þýðing: Þorsteinn Berghreinsson)