Layers
 
Samsetning margra mynda
með hjálp "glæranna" (layers) í Photoshop



 
Áður en þú smellir á myndina hér að ofan til að sjá hana í fullri stærð vil ég birta hér efnivið myndarinnar til hliðsjónar.  Þar tek ég fram helstu tækniatriði sem ég þurfti að glíma við í myndinni hér að ofan. 

Athugið að myndirnar hér fyrir neðan eru í minni upplausn en upphaflegu myndirnar sem ég hafði úr að moða enda eru þær hér aðeins til stuðnings og mega því ekki vera of "hleðsluþungar". 

 

  


  Fyrsta myndin sem mig langaði að nota var þessi goðumlíka vera.  Mér fannst spennandi reyna að láta hana renna saman við ljósmynd.  Ég klippti hana því fyrst til (burt með vængina sem sjást hvort eð er ekki) og litaði hana með Hue & Saturation.  Liturinn var rauður og ég dró aðeins úr honum svo hann yrði ekki of æpandi.  Að endingu valdi ég höfuðið og sneri valinu við (inverse) svo að allt nema höfuðið yrði fyrir valinu og tók síðan úr fókus.Fyrir vikið verður andlitið í brennidepli (til að ekki komi skörp skil þurfti valið að hafa þó nokkra Feather stillingu á).  Til að auka dýpt myndarinnar (og ljósmyndaáhrif) tók ég hægri hönd verunnar (sem teygir sig til áhorfandans) enn frekar úr fókus.  Að sjálfsögðu staðsetti ég myndina niðri í vinstra horninu þar sem hún á best heima.
 

 

Þetta er ágætis bakgrunnur fyrir allt sem ég kynni að finna.  En flugvélarnar voru þó fyrir.  Þeim eyddi ég auðveldlega með "Rubber Stamp" og stimplaði þannig himininn yfir vélarnar.  Að öðru leyti breytti ég bakgrunninum ekki neitt (enda sést hann lítið) að öðru leyti en því að ég setti adjustment layer yfir hann og bjó til negatífa útgáfu af honum (með Curves).  Hins vegar afritaði ég rauða skýið niðri og setti á sér lag yfir "adjustment layer"-inum til að viðhalda þeim hluta bakgrunnsins óskertum.  Rauði liturinn niðri gefur myndinni óneitanlega mikinn og drungalegan blæ (sem minnir á blóðrautt sólarlag) í andstöðu við myrkur og þoku himinsins.
 

  Til að halda heildrænum svip á myndinni vildi ég láta samskonar fyrirbæri vera í hinu horni myndarinnar.  Þetta er ljósmynd ofan af kirkju í mið-Evrópu.  Ég skerpti skuggana á þessari mynd (Contrast) og klippti út himininn allan og borgina vinstra megin.  Síðan dundaði ég mér við að stimpla (Rubber stamp) borgina yfir á vinstra svæðið og teikna hana sjálfur (með Smudge-áhaldinu, pennum og strokleðri).  Endimörk borgarinnar strokaði ég út til að búa til flotta útlínu.
 

Að sjálfsögðu varð að setja ljósmynd af mannesku inn í myndina.  Þetta er lítil frænka mín sem ákveður að ryðjast inn í borgina og gramsa þar og horfir svo skyndilega til hliðar á fyrrgreinda veru sem athafnar sig í vinstra horninu.  Til að virka á bak við var hún sett undir "borgarlagið" og borgin fjarlægð með strokleðri til að rýma fyrir höndunum.  En til að þessi mynd passi saman við teiknuðu myndina sem hún horfir á tók ég til þess bragðs að búa til afrit af henni og búa til útlínumynd af afritinu (Filter/  Stylize/ Find Edges) og setti afritið síðan yfir ljósmyndina sjálfa (hálfgegnsætt).  Til að leggja áherslu á svip barnsins lýsti ég andlitið upp sérstaklega með hálp flass-ljóss í Photoshop (Filter/ Render/ Lighting Effects/ Flash). Undunarsvipurinn verður því meira áberandi fyrir vikið og greinilegt hvað dregur athyglina frá borginni sem verið er að gramsa í.

 

  Mér fannst vera franskt yfirbragð á borginni og skúlptúrunum.  Til að undirstrika tengslin við Notre Dame hafði ég upp á mynd af Eiffel-turninum úr eigin ferðamyndasafni.  Hins vegar var þetta upphaflega mynd af fólki með turninn í baksýn og fyrir vikið sést hann ekki allur (ég málaði hvítt yfir andlitin sam þar skyggðu á).  Hins vegar sést turninn allur á endanlegu myndinni sem ég bjó til.  Til að redda þessu valdi ég (með ferningslaga Selection-valtóli) allt svæðið hægra megin sem samsvarar því sem vantar hinum megin, afritaði það, speglaði um lóðrétta ásinn (Layer/ Transform/ Rotate) og límdi í myndina sem vinstri stoðir turnsins. Við það lét ég þessi tvö lög renna saman í eitt (hafði þau tvö sýnileg og fór í Merge Visible Layers í uppi í hægra horni layer-spjaldsins).  Síðan lagaði ég skilin milli afrits og undirlags með "Rubber Stamp"-áhaldinu og "Smudge" eftir því sem við átti.  Skýin í kringum turninn langaði mig að nota jafnframt og stimplaði afrit af skýjunum út fyrir ramma turnsins (bæði til að eyða rammanum og til að ná fram þokublæ á stærra svæði heildamyndarinnar).

  Þessi handteiknaða kolamynd af tunglinu fannst mér tilvalin sem bakgrunnur (ljósmyndir og teiknaðar myndir blandast saman stöðugt).  Ég klippti burt svarta myndflötinn og setti tunglið inn í skýjahulu turnsins og gaf turninum þar með dulúðugri blæ.  Skýin sem máluð voru á lagi Eiffel-turnsins þurfti ég að stroka út þar sem tunglið þurfti að sjást í gegn.
 
 

Að endingu var ég með málaða andlitsmynd sem mig langað að koma fyrir.  Mér fannst það of "troðið" að setja það sem draugalegan svip í himininn svo ég ákvað að láta andlitið renna saman við Tunglið.  Ég setti það á bak við glæruna af tunglinu og smellti á milli glæranna (í glærubunkanum) með Alt-takkanum.  Þar með varð Tunglið að eins konar síu fyrir neðri myndina (andlitið) og það sást aðeins innan ramma tunglsins.  Hins vegar stillti ég andlitið á hálfgegnsætt svo að andlitið yrði ekki áberandi.  Það er mun smekklegra sem óljós keimur - rétt eins og raunverulegir svipir sem maður sér út úr náttúrufyrirbrigðum.

 



Síðasta handbragðið var glæra sem ég setti yfir allt saman og málaði svarta (efst uppi til vinstri) og punktaði með hvítri málninu nokkrar daufar stjörnur og stjörnumerki. Það leggur að sjálfsögðu aukna áherslu á goðsögukenndan stíl myndarinnar.
 
 
Smelltu hér ef þú vilt sjá
heildarmyndina (ca.400k)