Verkefni fyrir sjöunda bekk
Afmynduð andlit
Tími: Hentar vel í tvo samfellda tíma (2x40mín).  Þeir sem klára á undan geta alltaf gert fleiri andlit, eða klippt sitt út og sett á svartan bakgrunn og fullunnið þannig mynd sína. 

Myndefni: Andlit með fantasíutilbrigðum, grettum og ýktum svipbrigðum. 

Verkfæri: Kol og pappír (fremur þykkur), auk fyrirmynda af frjálslegum fantasíuandlitum (sem gott er að teikna eftir og búa til sína útgáfu af). 

Tilgangur: Notkun kola og túlkun svipbrigða. Með því teikna afmynduð og grettin andlit þjálfast nemendur í að túlka svipbrigði án þess að hafa áhyggjur af raunsæi eða hlutföllum höfuðsins.  Verkefnið býður því upp á býsna frjálsa sköpun og túlkun.  Einnig þjálfast upp markviss notkun kola, en áhersla skal lögð á að nudda kolin og ná þannig upp eins miklum grátónum og hægt er, svo að teikningin öðlist dýpt. 
 

 
Aðferð: Nemendur fá lítið myndasafn af grettnum andlitum, teiknuðum skrýmslum eða einhverju þess háttar.  Þau fá þau fyrirmæli að teikna slíkt andlit með kolum, en vera óhrædd við að breyta út frá, bæta við þriðja auganu, setja horn á höfuðið, skekkja munninn, bæta við vörtum og svo framvegis.  Við það eykst sköpunarkrafturinn, og krakkarnir verða í leiðinni síður skeptísk á smátriði sem ekki skipta máli hér (eins og hlutföll andlits eða takmarkandi hugmyndir um raunsæi þess).  Aðalatriðið er að nemandinn hafi gaman af að skálda andlit og sjái það fæðast smám saman á blaðinu.  Eitt þarf hann þó að vanda sig við, og það er beiting kolanna.  Nudda þarf með kolunum til að fá grátóna á milli andstæðunnar í hvíta blaðsinu og svörtu kolalínunni. Til að höfuðið verði trúverðugt þarf að búa til einhvers konar áferð á húðina, láta til dæmis djúpa skugga í skorur og augntóftir, myrkur inni í munni, og að yfirborðið gefi hnattform til kynna með glampa og skuggum á réttum stöðum.   Kolavinnan þarf að vera markviss, en vinnuferlið er að öðru leyti skapandi og afslappað. 
 
 
 

Frekari úrvinnsla: Tilvalið er að klippa andlitið út og festa á svartan pappír, þannig að frjálslegar og lifandi útlínur höfuðsins fái að njóta sín. Það er því æskilegt að myndin sé unnin á fremur þykkan pappír. 

Tilbrigði: Gaman væri, ef nemendur ná góðu valdi á þessu verkefni, að setja þau síðar meir gegnt hvert öðru til að vinna með andlit hvers annars í sama anda. Þar væri nóg að draga fram einhver sérkenni úr andlitinu, en breyta öllu öðru verulega svo að sköpunargáfan takmarkist ekki við að fá svo raunverulega fyrirmynd.  Það væri góð þjálfun í að "meðhöndla" raunveruleikann, og gott tækifæri fyrir kennarann til að benda á hlutverk myndlistarmannsins sem "túlks" fremur en "eftirhermu".