Verkefni í myndmennt fyrir sjötta bekk.
Litaplánetur í geimnum
Tveggja tíma verkefni.
 
Tími:  Tveir tvöaldir tímar (4x40mín), þar sem sá seinni fer beinlínis í þetta verkefni.  Fyrri dagurinn færi í að búa til blöð með marmaraáferð (sem er verkefni út af fyrir sig: Sjá Marmaraklæðningu), en sá seinni í að klippa út plánetur og setja í "geiminn".  Þeir nemendur sem klára á undan hinum geta auðveldlega drepið tímann með að búa til fleiri marmarablöð í lok seinni tímans, enda hafa allir endalaust gaman af því. 
 

Myndefni:  Litríkar plánetur svífandi í myrkum geimnum með stjörnur allt í kring. 

Verkfæri:  Fyrri dagur þarf venjulegan "marmarabúnað" (sjá aftur Marmaraklæðningu sem sérstakt verkefni).  Seinni dagur þarf stærri blöð (A3 eða stærra) sem verða að vera nokkuð þykk (því þau verða þakin málningu). Við þurfum  svarta og hvíta málningu og pensla auk skæra, líms og  marmarablaðanna frá fyrri tímanum. Einnig er nauðsynlegt að hafa til sýnis litmyndir af plánetum sólkerfisins. 

Tilgangur:  Að vekja athygli á fegurð hins óreglulega. Það er gert með því að rýna í marmaraáferð blaðanna og bera hana saman við yfirborð hinna risastóru gasplátena sólkerfis okkar (sér í lagi Júpíters og Satúrnusar).  Einnig þurfa nemendur  að búa til óreglulegan stjörnuhimin, með misþéttar þyrpingar og misbjartar stjörnur. Fróðleikur um himingeiminn getur vissulega fylgt með eftir því sem við á. 

Aðferð:  Kennari sýnir mynd af himingeimnum sem hann sjálfur vann.  Hann bendir nemendum á hvað þetta sé auðvelt, því þau hafa nú þegar búið til helling af blöðum með alls kyns óreglulegri marmaraáferð, sem þau þurfi bara að skoða vandlega og velja flottustu blettina til að klippa út.  Þetta skoðunarferli er mjög gefandi, því þá rýna krakkarnir af miklum áhuga í óregluleg mynstrin á blöðunum sínum og klippa býsna hreykin út flottar plánetur.  Þegar allir eru tilbúnir með lítilsháttar safn af útklipptum plánetum, fá þau stórt þykkt blað (u.þ.b. A3) og þekja það með svartri málningu.  Þetta gera allir samtímis (enda myndast mun verklegri og skemmtilegri stemning fyrir vikið).  Hér ber að gæta þess að dreifa sem jafnast úr málningunni svo hún þorni sem hraðast.  Þegar blaðið er nokkurn veginn þurrt (sem tekur aðeins um fimm mínútur, sé vel dreift úr málningunni).  Er kominn að því að líma pláneturnar á blaðið, lágmark tvær og helst ekki fleiri en fjórar (til að forðast kraðak).  Nemendur stilla plánetunum fyrst upp á blaðinu og sjá fyrir sér hvernig myndbyggingin á að vera.  Það má jafnvel fjalla svolítið um mikilvægi góðrar myndbyggingar og litasamsetningar hér.  Því næst er pláneturnar límdar á sinn stað.  Að svo búnu er aðeins eitt eftir, og það er að fylla myndflötinn með stjörnum. Til þess er notuð hvít málning, og eitthvert mjótt verkfæri (til dæmis "hinn" endinn á penslinum).  Þegar stjörnurnar eru punktaðar á himininn þarf að passa upp á að þær séu mis stórar og að þær dreifist misþétt um myndflötinn, annars er hætt við að útkoman verði gervileg (eins og á diskóteki).  Hér er kjörið fyrir kennara að benda á mismuninn á náttúrulegri óreglu og manngerðu mynstri, og hafa jafnvel sýnishorn af "gervilegum" og eðlilegum himni í höndunum.  Að lokum, ef tími gefst til, er við hæfi að stilla öllum myndunum upp til að skoða afraksturinn og vega og meta það sem vel fór. 
 
Frekari úrvinnsla: Þessi myndröð virkar mjög vel sem sería, og það er gaman að raða þeim reglulega upp með smá bili á milli sín, þannig að saman virka þær eins og gluggi, eða kirkjugluggi. 

Tilbrigði: Hægt væri að nostra svolítið meira við stjörnuhimininn og reyna að líkja eftir stjörnumerkjum himinsins.  Það krefst annað hvort frumkvæðis nemanda eða frekari umfjöllunar kennara.  Fræðslugildið væri ótvírætt mikið, enda væri hægt að gera það að markmiði hópsins að hver og einn merki sér mynd sína með eigin stjörnumerki.  Einnig væri hægt að bæta ýmsu við himininn, eins og halastjörnum.  Geimverur og geimskip væri heldur ekki fráleit úrvinnsla. 

Tenging við námsefni: Himingeimurinn, stjörnumerki, sólkerfið og mynstur náttúrunnar.