Trumbur óma og ærandi dans ærslast í kringum flöktandi miðnætureld. Kynjaverur í mannslíki og menn í kynjalíki spila saman í þessari athöfn sem virðist hvorki tilheyra þessum heimi né öðrum. Á sama tíma, kannski ekki langt í burtu, á sér stað annar mannlegur atgangur er tveimur stórum hópum manna lýstur saman í blóðrauðri baráttu, - gríðarstór einsleitur hópur sem samt skynjar sig sem tvær andstæðar heildir. 

Trúarathafnir og stríð hafa fylgt manninum svo langt aftur sem saga okkar nær. Sú spurning hlýtur því að blasa við hvort að þessi aldagömlu hegðunarmynstur spili inn á einhvert grundvallareðli mannsins og séu þar af leiðandi nátengd. Vísbendingar þess eðlis má finna í ýmsum hornum félagsvísindanna, og ætlum mín með þessum texta er að smíða úr því heildsteypta mynd.

 


 
TRÚARBRÖGР

 

"Trúarbrögð eru sprottin út frá tilraun mannsins til að gera umhverfi sínu rökleg skil" hefði Edward Tylor eflaust svarað mér hefði ég innt hann eftir uppruna trúarbragða. Þessari hugmynd var haldið hvað skýrast á lofti af þessum merka fræðimanni síðustu aldar, og gengur enn þann dag í dag sem almenn skýring á fyrirbærinu. Þessi hugmynd er hreint engin fjarstæða. Við höfum vissulega þörf fyrir öryggistilfinningu í okkar daglega lífi, nokkuð sem skortir tilfinnanlega þegar skilning okkar á umhverfinu brestur. Um leið og við höfum persónugert hin ógnarvoldugu öfl umhverfisins getum við fyrst farið að spá í spilin. Til dæmis eru óútreiknanlegar veðurfarssveiflur útskýrðar víða um heim með tilvísun í karakter goðumlíkrar veru á ferð hennar um landið. Heildsteypt mynd af rigningu, roki og þurrki byggist á sýn mannanna á þessa andlegu veru og veitir í þeim aðgengilega búningi nauðsynlegt skýringarmódel um framgang veðurfarsins. Þar hefur goðsaga útskýringargildi þegar ekkert betra fæst. Þessi hugmynd styrkist enn frekar þegar regla umhverfisins hverfur, því með hugmyndinni um andlega veru má skírskota í skaplyndi verunnar sem kann að vera jafn kyndugt og okkar mannanna. Hægt væri þar með að reyna að höfða til þessarar æðri veru, eða útskýra með andlegum skírskotunum um refsingu, umbun eða aðrar meiningar í garð mannanna. Skýringarmáttur sögunnar hefur áhrif á atferli manna, sem reyna að blíðka almættið með hvers kyns velþóknanlegu líferni. Trúarbrögð eru orðin staðreynd. Eftir það er lifað við þá öryggistilfinningu sem fylgir vitundinni um guðlega forsjón. Að vissu leyti má því segja að trúarbrögð séu leið mannsins til að búa sér til fyrirsjáanlegri og öruggari heim. Þetta leiðir okkur yfir í næsta atriði: Lífsbaráttu og þróun tegundanna. 
 

 
STRÍÐ OG SJÁLFSFÓRN 

 

Þróunarkenning Darwins er flestum kunn. Hún kveður á um að þær dýrategundir sem aðlögunarhæfastar eru umhverfi sínu, og sterkastar í baráttu sinni við skyldar tegundir um takmörkuð lífsgæði, muni lifa af - og keppinautarnir deyja út. Þannig varðveitast þeir einstaklingar sem að pössuðu í umhverfið, og þeir geta af sér afkvæmi og kynslóðir sams konar einstaklinga. Á þennan hátt eiga tegundir að taka breytingum jafnt og með tímanum verða þær sífellt sérhæfðari og margbrotnari. Þetta var kallað "þróun tegundanna". Þróunarkenning þessi hefur síðar meir víkkað út og breyst sjálf (hún hefur "þróast"). Í sinni breyttu mynd nær sjálfsbjargarviðleitnin yfir annað og meira en eigin líkama. Varðveisla genanna er þar miðpunkturinn. Nú er hægt að segja að önnur grunnþörf mannsins sé að halda eigin genum, varðveita þau í gegnum afkomendur sína. Þetta getur komið til með varðveislu eigin lífs og lima, en einnig gegnum það að stuðla að framgangi náskyldra einstaklinga, sem að stóru leyti hafa yfir sams konar genum að ráða. Það útskýrir hvers vegna menn og margar aðrar dýrategundir eru fórnfúsar í garð sinna nánustu. Þar á meðal birtist það skýrt í hvers kyns stríðsrekstri, í föðurlandsástinni og með hugmyndinni um bræðralag manna. 
 

 
 
FERÐ FRÁ TRÚ YFIR Í FÉLAGSFRÆÐI 

 

Er goðsöguleg útskýring á heiminum ósamrýmanleg stríðsrekstri (sem birtingarmynd um varðveislu genanna)? Í fljótu bragði virðist það svo. Það sem til þarf er hugmyndaleg stökkbreyting (svo að við notum orðafar þróunarsinna) og hún kom með félagsfræðingnum Emile Durkheim. Durkheim beindi sjónum sínum að frumbyggjum Ástralíu og helgiathöfnum þeirra. Þær byggðust upp í kringum eina lífveru, sem var miðpunktur dýrkunarinnar. Sú lífvera var nátengd ættflokknum sem hana dýrkaði. Hún var eins konar forfaðir ættbálksins og henni rann því sama blóð í æðum og fólkinu. Sögur af hegðun hennar voru jafnframt siðareglur þjóðfélagsins. Skepnuna mátti enginn meiða, særa né deyða því hún var þeim heilög. 

Ekki var eitthvert eitt dýr sem drottnaði yfir öllum ættbálkum, heldur hafði hver hópur sína útgáfu. Þetta þótti vestrænum spekúlöntum benda til frumstæðra trúarhugmynda þeirra, og víðs fjarri "þróuðum" hugmyndum okkar um alnálægan guð, eða algild lögmál sem ganga jafn á alla, trúaða sem vantrúaða. Mikil útbreiðsla trúarbragðanna þótti þeim einnig benda til þess að hér væri um eitthvert óhjákvæmilegt frumstig trúarbragða að ræða. Durkheim veitti okkur nýja sýn inn í þessar trúarathafnir. Hann veitti athygli ýmsum smærri þáttum þeirra. Það sem hann staðnæmdist við var eðli dýrsins sem dýrkunin beindist að. Þar tók hann eftir því að ekki var um að ræða ógnardýr sem skaut mönnum skelk í bringu heldur dýr af öllum toga, allt niður í lítilfjörleg smádýr. Og hann spurði sjálfan sig "Ef skepnan sjálf var dýrkuð, hvað var það í eðli hennar sem varð vali hennar valdandi? Hvernig stóð á því að engir tveir ættbálkar voru sammála um það hver guðdómurinn væri?" Niðurstaða hans var einföld, - lífveran sjálf var ekki dýrkuð

Durkheim acutely observed that the totemic creatures are not in any sense worshipped...nor...had they been selected for their imposing appearance. Moreover, it is not the creatures themselves which are of first importance - they are sacred, it is true, but only secondarily so... 
(Evans-Pritchard, bls. 58)
Þetta var býsna sleip athugasemd, og blasir ekki beinlínis við. Í augum Durkheim var fólkið ekki að dýrka lífveruna sjálfa, enda hún lítið til að óttast, heldur var hún dýrkuð sem táknmynd fyrir eitthvað annað. Þannig útskýrði hann fjölbreytt val ættflokka á tótemdýri. Dýrið sjálft skipti ekki máli, - hvort um var að ræða stórt dýr eða lítið, dularfullt eða hversdagslegt, - heldur var aðalatriðið að hafa eitthvert dýr til að beina dýrkun sinni að. Sú staðreynd að engir tveir hópar fólks dýrkuðu sama dýrið beinlínis styrkti hugmynd Durkheims enn frekar og var skilyrði fyrir næsta atriði í kenningu hans: Dýrin urðu að vera ólík á milli hópa vegna þess að þær stóðu sem táknmynd fyrir hópana sjálfa. Með öðrum orðum: dýrkun manna beindist aðeins með óbeinum hætti að dýrinu sjálfu. Dýrið var sem spegill, og raunveruleg dýrkun var sjálfhverf og beindist að þjóðfélaginu í kringum táknið. Fjölbreytni dýranna var beinlínis skilyrði, því að hvert þeirra stóð sem tákn fyrir þann hóp sem helgaði sig að því og það greindi hann þannig frá öðrum hópum sem höfðu önnur tákn. Þessu sameiningartákni mátti líkja við þjóðarfána, íþróttakapplið eða stjórnmálaflokka sem þjóðir keppast um að hylla gegnum tilfinningalega geðshræringu múgsins (og undir niðri blundar tilfinning samkenndar og aðgreiningar samtímis: "saman stöndum við allt af okkur"). 

Einstaklingurinn fór ekki meðvitað í trúarathafnir til þess að dýrka sjálfan sig. (Ekki frekar en handboltaunnandinn sem fór að hylla sitt lið, en endaði með mikilmennskuglampa í augum yfir velgengni sinna manna, og þandist allur út). Hann kom inn á öðrum forsendum. Hann tók þátt í helgiathöfnum, sem byggðust á goðsögum er tengja saman menn og tótemdýr. Í múgæsingu hópsins skynjaði einstaklingurinn síðan kraft sem var stærri og magnaðri en hann sjálfur og veitti honum sannfæringu um gildi goðsögunnar. Þessi trúarreynsla fannst honum styðja goðsöguna, sem lá að baki trúarathöfninni sem aftur orsakaði reynsluna. Hér myndast lokaður hringur sem engum dettur í hug að stíga út fyrir. Þannig var Durkheim búinn að snúa upp á ríkjandi hugmyndir um trúarbrögð og gera þau að þjóðfélagsfræðum. Þörf mannsins til að taka þátt í trúarathöfnum var einfaldlega sprottin af þörf mannsins til að taka þátt í mannlegu samfélagi. 

 
 
SKILGREINING Á "ÞJÓÐ" 

 

Áður en ég held lengra vil ég skilgreina hugtakið þjóðerniskennd og byrja á því að skilgreina hugtakið þjóð, því þaðan kemur hitt af sjálfu sér. Mikilvægast er að gera sér grein fyrir mismuninum á þjóð og ríki. Þetta er ekki það sama. Eitt ríki getur innihaldið margar þjóðir (Sovétríkin fyrrverandi). Einnig getur sama þjóðin verið til innan margra ríkja (Kúrdar í m.a. í Tyrklandi, Írak og Íran). Ríki er til sem alþjóðleg samþykkt um tilverurétt hóps fólks á vissu afmörkuðu svæði sem hefur að geyma laga- og réttarkerfi sem þeir verða að beygja sig undir ef þeir kjósa að vera hluti samfélagsins. Þjóð þarf hins vegar alls ekki að vera landfræðilega aðgreind frá öðrum þjóðum, og leyfir ekki sama valfrelsi og ríki vegna óhjákvæmilegra minninga um sömu sögu og uppruna. Ef ríki er til sem rýmiseining, þá er þjóð söguleg tímaeining (enda mynda ríki gjarnan þjóðir með tíma.) Og aftur: ef ríki er hlutlæg eining, þá er þjóð huglæg og aðeins til í hugum fólks sem sameiginleg minning eða hugmynd. Þetta er grundvallarskilgreining því að þjóð er til í gegnum sameiginlega arfleifð og minningar, hvort sem um er að ræða sagnfræði eða hreinustu goðsögur. Þjóð sprettur upp úr sameiginlegum skáldskap fólks þar sem öllum þeim sem þátt taka er fundinn staður í sögunni.

 
 
FERÐ FRÁ FÉLAGSFRÆÐI YFIR Í TRÚ 

Við sáum áðan hvernig Durkheim smíðaði brú á milli trúarbragða og félagsþarfar mannsins. Þar gekk hann út frá trúarbrögðum. Nú ætla ég að skoða stríð, eina áhrifamestu félagshegðun mannsins (þar sem sumir láta lífið fyrir heildina), og beintengja það trúarbrögðum og nálgast sömu niðustöðu úr hinni áttinni. 

Ef lífið hefur einhvern tilgang, þá er augljóslega ekki nóg að vera til. Tilgangur felur í sér dýnamík, athöfn, - hreyfingu - einhvers konar stefnu í átt að markmiði. Kyrrstaða getur ekki fullnægt þörfum tilgangs. Það er því alls ekki nóg að vera til. Við þurfum líka að starfa. Athafnamöguleikar tilverunnar er óendanlega margir, eins og við vitum. Hvaða breytni skal fylgja? Einfaldasta hugsunin að baki allri heimspeki er þessi "líf mitt þjónar einhverjum tilgangi ef að heimurinn er betri mín vegna þegar ég yfirgef lífið, hversu lítið sem það er". En betri fyrir hvern!? Breyting á heiminum þjónar ekki neinum tilgangi nema sú breyting hafi áhrif á einhvern sem hana skynjar. Tilgangur okkar með lífinu hlýtur því að taka mið af því að hafa áhrif á skynjendur umhverfisins, og þá eru menn nærtækastir. Þess vegna finnum við til tilgangsleysis ef við erum utanveltu í mannlegu samfélagi. 

Við verðum að fylgja normum þess samfélags sem við lifum í, annars erum við hundsuð úr því. Svo einfalt er það. Með þátttöku í mannlegu samfélagi fullnægjum við tvenns konar grunndvallarþörf mannsins: að öðlast sess í tilverunni (með því að skilgreina sig sem part af hópi) og að öðlast tilgang (leika hlutverk innan leiktjalda hópsins). Tilganginn fáum með því að treysta hegunarmynstrinu sem á okkur er klínt. Þar með losnum við við örvæntinguna sem fylgir því að taka eigin ákvarðanir í öllum málum. 

Ölll samfélög, stór sem smá, fylgja eftir normum sínum, en aðhaldið er mismikið. Í raun er um að ræða tvenns konar aðhald eftir því hverrar gerðar samfélagið er. Durkheim fjallaði um þetta og skipti samfélögum manna í tvær megingerði:: lífræn og vélræn. Vélræn samfélög voru lítil samfélög. Þau voru einsleitari og höfðu því mun meiri og strangari eftirfylgni með normunum. Auðvelt var að fylgjast með, og fylgja þar með eftir, frávikum frá normum samfélagsins. Þetta átti við um samfélög sem við tölum daglega um sem frumstæð. Það afl sem heldur fólki saman í slíku samfélagi er samkennd sú sem fólkið skynjar gegnum líka reynslu, uppruna og hugmyndaheim. Lífræn samfélög voru nánast andstæða alls þessa, og þau einkenna nútímasamfélög. Þau eru margbrotnari, stærri og flóknari. Eftirlit með hegðun, og refsingar, eru vægari og uppbrot á normunum því algengara. Samstaða fólks í slíkum samfélögum hér fæst gegnum ósjálfstæði einstaklinganna. Þeir eru það sérhæfðir að þeir ná því ekki lengur að vera sjálfum sér nógir. Einingar þessa þjóðfélags eru innbyrðis háðar. Hvernig Durkheim fjallaði mikið um sjálfsmorð í tengslum við þessar samfélagsgerðir. Sjálfsmorð tengjast spurningunni um tilgang lífsins með beinum hætti. Þau eiga sér stað í báðum þessum þjóðfélagsgerðum, annars vegar vegna skorts á tilgangi og hins vegar spretta þau við vissar aðstæður upp úr þrúgandi tilgangi lífsins (fórnardauði). Í lífrænu samfélagi er einstaklingshyggja mikil og ráðandi, og getur valdið því að einstaklingurinn einangrist. Við það missir hann tilgang lífsins, eins og áður sagði. Í vélrænum samfélögum er einstaklingurinn svo vel samrunninn við samfélagið að hann skynjar sig ekki lengur sem aðgreinda einingu. Hagsmunir samfélagsins eru orðnir hagsmunir hans. Þetta hugarfar getur orðið svo yfirgnæfandi að hann fórnar lífi sínu í þágu "sín stærra sjálfs". Þjóðfélagsleg þörf mannsins, sem getur leitt hann út í sjálfsfórn í öfgakenndum dæmum, er sprottin af trúarlegri leit hans tilgangi með lífi sínu. Hér hefur bilið milli trúarbragðaa og stríðsrekstrar verið brúað aftur. Orð P.Alter fyllast allt í einu merkingu: 

In nationalism, the religious is secularized, and the national sanctified.  
(P. Alter, bls.10) 
 
 
LOKAORР

Hvernig birtist þetta okkur svo úti í hinum stóra, grimma, ólgandi heimi. Í nafni trúarinnar sjáum við þjóðarmorð. Ofsafengnir öfgatrúarmenn leggja hatur á "hina" sem hafa aðra guði, rétt eins og guð væri bandamaður þeirra eða konungur, en ekki alnálægur, - jafnt yfir öllum mönnum. Þar blasir hann við eins og tákn hópsins, rétt eins og hvert annað blaktandi flagg. Á sama hátt fylkja gyðingar heimsins liði að heimalandi sínu sem staðið hefur sem tákn þeirrar þjóðar um sameiginlegan áfangastað og takmark. Trúin bæði sameinar fólk og sundrar

Trúin er vafalaust einn stærsti þáttur í mótun þjóðernisvitundar manna og stendur þar sem kjarni sem fólk hópast utan um. Skýrasta dæmið um þetta kemur með "hinum útvöldu þjóðum" (til dæmis Serbum), þar sem trúarbrögðin kveða beinlínis á um myndun þjóðar og hlutverk hennar. Hérna eru tengsl trúarbragða og þjóðernis mjög skýr. Og hvað um hugmyndafræði þjóða? Er hægt að líkja hreinsun hvíta stofnsins í Þýskalandi nasismans við trúarbrögð, þar sem þeir eru að byggja sína eigin Paradís á jörðu eftir "köllun" náðaforingjans Hitler. Þar byggir sú trú upp þjóðareiningu gegnum sams konar múgæsingu og Durkheim tilgreindi í rannsókn sinni. Múgæsing þessi er liður í sama hringferli og fannst í tótemtrúarathöfninni hans Durkheims sem hann heimfærði upp á trúarbrögð almennt. Hvergi birtist þessi formúla Durkheims skýrar en í goðsagnakenndum fjöldafundum nasismans. 

Þessi þjóðareining, í kringum náðarhöfðingjann og hugmyndafræðina að baki, er einnig skýrt dæmi um hvernig afmörkun eins hóps skilur óhjákvæmilega aðra útundan (eru greindir frá). Hér er dæmið mjög svæsið, algjör þjóðareyðing milljóna gyðinga sem þóttu falla illa undir skilgreininguna um kjörmannveruna. Svo að ég vitni í orð Louis Antoine Saint-Just: 

 

There is something terrible in the sacred love of the fatherland. It is so exclusive as to sacrifice everything to the public interest, without pity, without fear, without respect for humanity.  
(P.Alter, bls. 39) 
 
En eins og ég var að ýja að rétt áðan, þá er eðli þjóðernisstefnu tvískipt. Um getur verið að ræða löngun til að skilja sig frá, ráða yfir eða hreinlega eyða öðrum, en einnig getur hún verið "forleikur að vori nýs tíma þjóðarinnar" (P.Alter, bls.26). Hvora afstöðuna við tökum til þjóðernishyggju veltur algerlega á því hver staða okkar er, innangarðs eða utan. Jákvæð og neikvæð hlið þjóðernishyggjunnar vinna saman, því eins og við vitum finnst hvergi samhentari hópur en sá sem þarf að mæta miklu andstreymi. Í gegnum allan hrylling þann sem getur fylgt ættjarðarstolti leynist þessi undursamlega fegurð sem veldur því að eftir aldalanga píslargöngu tínast gyðingar til baka úr öllum heimshornum til fyrirheitna landsins, sameinaðir, gegnum sameiginlega sögu og trú. Ég ætla því að enda þennan texta á jákvæðari nótunum og vitna í minningarorð S.Zweig um aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar: 

 

"Satt best að segja verð ég að viðurkenna, að það var eitthvað stórbrotið og heillandi við þessa fjöldahrifningu og erfitt að standa hana af sér. Þrátt fyrir hatur mitt og óbeit á stríðinu hefði ég ekki viljað fara á mis við endurminninguna um þessa fyrstu daga þess. Þúsundirnar fundu nú betur en nokkru sinni fyrr, það sem þær hefðu heldur átt að finna á friðartímum, að þær voru ein hjörð".  
(Stefan Zweig, bls. 112)
 

 

Þorsteinn Guðni Bergreinsson 
(17.des. 1994 - Rvk.- Endurskrifað fyrir heimasíðu 21..mars 1999, Hellu)
 
 
 
HEIMILDASKRÁ
 
  • Alter, Peter: "Nationalism"; Stuart McKinnon (þýð.); London; E. Arnold; 1989.
  • Doe, John: "Speak Into The Mirror - A Story of Linguistic Anthropology"; University Press of America, 1988.
  • Evans-Pritchard, E.E.: "Theories of Primitive Religions"; Oxford University Press; 1965.
  • Hatch, Elvin.: "Theories of Man and Culture"; New York; Columbia University Press; 1973.
  • Jón Ormur Halldórsson: "Átakasvæði í heiminum"; Mál og menning; 1994.
  • Lehmann, Arthur C. & James E. Myers; "Magic, Witchcraft and Religion"; 3rd ed;Mayfield Publishing Company; 1993.
  • Nelson, Harry & Rober Jurmain: "Introduction to Physical Anthropology"; 5th ed; West Publishing Company; 1991.
  • Smith, Anthony; "National Identity"; Rino; University of Nevada Press; 1991.
 
(Síðast breytt des. 2000)