Skálaverðirnir við Álftavatn vöknuðu frekar seint þó ekki væri kannski hægt að kalla það embættisglöp. Didda hafði fengið snert af hálsbólgu auk þess sem hún hafði nær hengt sig í ermunum á bolnum sem hún hafði sett utanum koddann sinn.

Túristarnir tíndust útúr skálanum og allir voru farnir um klukkan hálf ellefu og Davíð skálavörður ekki enn kominn. Við náðum klukkutíma alein í skálanum og ekki sála nokkursstaðar. Svo kom Davíð og við yfirgáfum þennan yndislega stað. Tjaldstæðiskaupandinn hafði sagt okkur kvöldið áður frá Klámbrekkuleiðinni, sem er einskonar útúrdúr frá hefðbundinni næstu dagleið. Í stað þess að fara um Hvanngil er gengið í suðvestur frá skálanum, sunnan megin á vatnsbakkanum meðfram Álftavatni og Torfavatni og stefnt á Stóra Grænafjall sem gnæfir einsog pýramídi yfir söndunum. Þegar komið er framhjá Klámbrekkum er beygt yfir kambinn við endann á Stígsveri og þá sést yfir á Stórusúlu og í suðvestri sést á Hattfell sem á eftir að vera traustur fylginautur það sem eftir er ferðarinnar og hættir raunar ekki að sjást fyrr en niður við Hvolsvöll. Af kambinum má sjá Kaldaklofskvísl liðast meðfram brekkunum og yfir hana þarf að vaða. Við höfðum sagt íslenskum hóp frá þessari leið og ofan af kambinum sáum við þau hjá vaðinu þarsem þau höfðu farið yfir.

Þegar við komum að vaðinu var áin töluvert breið, straumhörð og náði töluvert uppfyrir hné. Við héldum hvort í annað og studdum göngustöfunum í árbotninn og komumst yfir heilu og höldnu. Þá er stefnan tekin á skarðið milli Stórusúlu og Súluhryggja.

Það er svolítið uppávið eftir sandöldum uppað Stórusúlu og í skarðinu er allt skorið með djúpum giljum sem þarf að passa uppá að fara ofan við. Þegar komið er gegnum skarðið blasa sandarnir við töluvert neðan við Hvanngil.

Fljótlega lentum við á ökuleiðinni í Emstrur og við gengum eftir henni að brúnni yfir Innri Emstruá. Hún er kolmórauð brennisteinslyktandi jökulá sem fellur með hávaða og látum undir brúna og niður eftir farvegi sínum þartil hún sameinast Markarfljóti nokkru vestar.

Fljótlega eftir að komið er yfir brúna er farið af akveginum til vinstri og stefnt á Stórkonufell og Útigönguhöfða. Í skarðinu hjá Stórusúlu höfðum við farið fram úr íslenska gönguhópnum en þegar við áðum milli Útigönguhöfða og Hattfells fóru þau aftur frammúr okkur. Við sátum góða stund og meðan við sátum svifu Svissurnar framhjá.

Þær voru tvær ungar svissneskar vinkonur sem ferðuðust saman og voru okkur samferða all leiðina. Þarna fóru íslensku fjölskyldurnar líka fram úr okkur. Svo æddum við af stað framhjá Hattfelli yfir sandana í átt að skálanum í Emstrum. Við sáum yfir á Tindfjallajökul og hann reif af sér skýjahuluna rétt í svip til að sýna okkur tindana. Það kom á okkur annar síðdegisskúr og í þetta sinn góð demba. Við náðum skálanum í Emstrum eftir um það bil sex tíma göngu.

Í skálanum elduðum við íslenska kjötsúpu úr pakka þrátt fyrir að við vorum alveg úrbrædd. Það verður sosum ekki á kjötsúpuna logið því hún hressti okkur nægilega mikið til að við gátum farið í smágönguferð inní Markarfljótsgljúfur ásamt annarri Svissunni, þeirri sem var ekki hálfdauð úr þreytu. Það var ferð sem enginn ætti að sleppa. 200 metra hyldýpi beint niður og maður kemst alveg útá blábrún og getur horft beint niður í gljúfrið. Á leiðinni til baka gekk ég upp á nálægan klett og virti fyrir mér jöklana í ljósaskiptunum. Þaðan sést vel uppá Fimmvörðuháls, gönguleiðina frá Skógum ofaní Þórsmörk. Þetta kvöld var farið seint í koju...