Lagarfljótsormurinn




Bréf sent bæjarstjóra Egilstaðabæjar sem tillag í samkeppni um mynd af Lagarfljótsorminum.

Heiðraði bæjarstjóri,

Ég las í blöðunum um daginn að nú stæði yfir samkeppni um ljósmyndir af Lagarfljótsorminum og verðlaun væru hin rausnarlegustu. Ég svona hálfpartinn las það einnig mill línanna að þetta væri frekar gert svona í gríni en alvöru allavega tókst fréttamanninum að koma fréttinni þannig frá sér að það væri nú svona og svona með þennan orm ykkar.

Nú vill þannig til að ég á ljósmynd af Lagafljótsorminum. Sú mynd er ekki nein grínmynd heldur tekin af atvinnuljósmyndara og merkilegt nokk hún er ekki tekin á Austurlandi heldur í henni Reykjavík. Hún er einungis til í einu eintaki og mér er það hjartans mál að fá hana aftur þegar hún hefur gengt hlutverki sínu. Auðvitað er hægt að gera af henni eftirmyndir ef þurfa þykir og hugsanlegt að grafa upp negatífurnar ef mikið liggur við.

Hinsvegar er þessi ljósmynd væntanlega öðruvísi en aðrar sem til greina koma í þessa keppni vegna þess að tilurð hennar er þannig til komin að frá því verður að greina sérstaklega í frásögn þeirri sem hér á eftir rennur. Ég legg það svo í hendur dómnefndar að meta þátttökurétt þessarar ljósmyndar til samkeppni þessarar og bendi á að þó hún sé kannski ekki einsog dómnefndarmenn hafi búist við þá er hún nú óneitanlega af Lagarfljótsorminum einsog fram mun í frásögn minni.

Ég er heldur ekki viss um að mín mynd eigi heima í samkeppni sem byggist á ábyrgðarlausu spaugi því mín mynd er einsog áður sagði ekki nein grínmynd og ég vil ekki að sú upplifun henni tengist og varðar tilurð hennar sé höfð í flimtingum af vantrúuðum gárungum.

Auk þess þekki ég ekki reglur keppninnar nógu vel og veit þessvegna ekki hvort keppendur senda inn til keppninnar undir eigin nafni eða dulnefni einsog oft tíðkast í keppnum sem þessari. Til að hafa vaðið fyrir neðan mig skrifa ég sögu mína undir dulnefni og lét fylgja með nafn og aðrar persónuupplýsingar í lokuðu umslagi:

Eftirfarandi frásögn er dagsönn: Ég var staddur inn í Atlavík í Hallormstaðaskógi í blíðskaparveðri. Það mun hafa verið seinnipart sumars fyrir um áratug og ég hafði lagt af stað frá Borgarfirði eystra snemma morguns uppá Hérað til að mála í skóginum. Ég var ungur og nýútskrifaður úr myndlistarnámi og enn óráðinn hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, ef ég yrði stór. Þessvegna ákvað ég þennan ágæta sumarmorgunn að gera könnun á framtíð minni og athuga hvort ég gæti ekki orðið liðtækur landslagsmálari og jafnvel þegar fram liðu stundir fetað í fótspor meistarans; málað fjöll og firnindi í brúðkaups og afmælisgjafir austfirðinga. Ég hafði meðferðis minn pentskúf og léreftsstranga ásamt olíunni minni en olían, vel að merkja, er göfugust allra efna til að búa málverk úr.

Ég valdi Hallormstaðaskóg því bæði er þar er angan engri lík og á því vel saman með lykt af línolíu, auk þess sem ég og mín heittelskaða höfðum átt yndislegar stundir saman undir tjalddúk innanum fótlúna hátíðagesti sumarhátíðanna sælla minninga og var þessvegna auðvitað tengdur skóginum tilfinningaböndum nokkuð sterkum.

Þannig var ég staddur uppá klettasnösinni sunnan megin í víkinni. Það var sólarlaust en hlýtt og ljúfur áttlaus andvari lék um vanga og gáraði fljótið lítillega. Ég hafði strengt nokkuð stóran dúk á ramma, sett á trönur og var búinn að hræra upp svolitla úmbru saman við olíu og byrjaður að draga svona þunna útlínu á strigann. Það átti að vera gróðurinn í víkinni í forgrunni, svo kettamyndanirnar við norðurendann, sjást svo lengst út hérað og við sjóndeildarhring átti land að skiljast frá himni með ljósum þokubakka sem aðeins grillti í fjarskanum.

Svo er ég að leita að þessum undarlega gulhvíta lit sem er hvergi til nema á Lagarfljótinu við Atlavík og berandi saman litinn á palettunni rýnandi í flæðarmálið spekúlerandi hvað verður um mölina þegar hún blotnar í þessu litfagra vatni og hvernig blautir steinar hegða sér í svona jöfnu ljósi sem eiginlega kemur skuggalaust úr engri sérstakri átt heldur er bara.

Þá verð ég var við einhverja hreyfingu í vatninu svolítinn spöl útá fljótinu. Það er svona fyrst einsog einhver ólga eða straumur komi upp í vatnsskorpuna og síðan svolítið einsog risastórt barn snúi sér kollhnís undir yfirborðinu og passi sig að reka ekki rassinn uppúr. Góða stund sést ekkert nema þessi umbrot undir vatnsfletinum og þau færast nær landi eftir því sem líður á. Þegar ólga þessi er komin töluvert nálægt landi rekst uppúr vatninu svolítil þúst og heyrist einsog hvisshljóð og vatnsgusur frussast í allar áttir. Síðan róast vatnið í kringum þústina smástund og þá sést að hún er ljósrauðbrún og gljáandi með tveimur um það bil hnefastórum götum sem líkjast nösum á sel að því leyti að þau virðast geta opnast og lokast að vild. Svo kemur uppúr kafinu önnur þúst rétt hjá og á henni heljarstórar glyrnurnar sem rannsaka ströndina vandlega og greinilegt er að kvikindið leitar eftir einhverri hreyfingu í víkinni. Ég giska á að milli trýnis og augna sé hálfur til einn metri og tíu til tuttugu sentimetra bil milli augnanna sem sneru fram en lágu ekki á hliðinni einsog á fiskum eða slöngum. Skepnan rak hausinn uppúr vatninu og þá sá ég að langt trýnið var í fellingum sem lágu saman við augnaumbúnaðinn. Nasirnar voru fremst og lágu beinar fyrir og gat dýrið lokað þeim einsog fyrr sagði þegar það kafaði. Ég sá glitta í geysistórar hvítar vígtennur sem lágu utanvið skoltinn en þrátt fyrir hræðilegar tennurnar sem virtust geta bitið sundur mann í einum bita var dýrið ekki mjög grimmdarlegt á að líta og var það einkum að þakka augnsvipnum sem var óvenjulega góðlegur og að því er virtist dreyminn og dáleiðandi. Það var einhver undarleg sorg í augnaráðinu sem gerði það að verkum að í stað þess að fyllast skelfingu við þessa hræðilegu sjón langaði mann til að ganga til dýrsins og taka utanum höfuð þess og hugga það. Það var einsog í augum þess byggi óendanleg óhamingja.

Góða stund maraði hausinn í hálfu kafi og augun blíndu uppá ströndina vökul og bíðandi, svo stygg að það fylgdist vandlega með hreyfingu hvers fugls í skóginum tilbúið að hverfa aftur ofaní djúpið ef eitthvað sæist til mannaferða. Aldrei leit samt dýrið nógu hátt upp til að koma auga á mig þarsem ég stóð hálffalinn bakvið tré einsog steingerður með gulhvítan lit fljótsins á penslinum og glápti á þetta furðuverk sem þarna hafði birst mér úr óradjúpi þessa dulafulla fljóts.

Þegar dýrið hafði skoðað og rannsakað nægju sína og að því er virtist fullvissað sig um að enginn lifandi sála væri nálæg þá reisti það höfuðið uppúr vatninu og lagði af stað til lands. Það skreið uppí malarfjöruna í allri sinni lengd sem var örugglega hátt í tuttugu metra og lagðist í grófa mölina og vissi hausinn í suður. Búkurinn hlykkjaðist í ótal hlykkjum eftir endilangri fjörunni og náði endanna á milli í Atlavíkinni. Ormurinn lygndi aftur augunum og lá grafkyrr sem dauður væri langa stund. Samt sá ég að hann var á varðbergi og fylgdist með umhverfi sínu því það glitti hvít augun undan hálfluktum augnlokunum.

Ég hugsaði með mér að nú var skaðinn skeður að vera ekki með ljósmyndavél meðferðis því ormurinn lá þarna grafkyrr einsog tískufyrirsæta og beið þess að vera myndaður. Þetta var í raun heimsviðburður því ég hef aldrei heyrt til þess að vatnaskrímsli af þessu tagi sýndu sig svona algerlega og flestir sem séð hafa svona fyrirbæri hafa aðeins séð þau rétt í svip. Þetta voru því mjög óvanalegar aðstæður sem ég var þarna lentur í því skrímslið hafði ekki grun um nærveru mína þarna og fjandakornið enn og aftur engin myndavél.

En þá mundi ég eftir olíunni. Ég stóð þarna hálffalinn bakvið tré með strengt léreft á ramma og lit á palettu og í pensli svo ég gerði það sem ég varð að gera og var það eina sem hægt var að gera í stöðunni; mála helvítið. Og það gerði ég.

Ég breytti teikningunni í snarhasti og dró hann upp eins nákvæmlega og ég hafði kunnáttu til. Ég setti orminn horna á milli á fletinum til að geta haft hann sem stærstan og breytti fjarvíddinni lítillega til að geta sagt frá bæði umhverfi hans, skógarjaðrinum, mölinni og fljótinu. Litinn á honum lagði ég sérstaka vinnu í til að reyna að ná honum sem líkustum fyrirmyndinni. Ég vann einsog berserkur,fór hamförum í málverkinu, gleymdi gjörsamlega stund og stað og vissi ekki af mér fyrr en farið var að rökkva og ég var farinn að sjá illa til við vinnuna. Þá var ég búinn með orminn allann og mölina undir honum. Skógurinn var kominn að mestu leyti en ég átti ennþá eftir töluverða vinnu í litnum á fljótinu sjálfu og skilum vatns og lands.

Þegar ég geng eitt skref afturábak til að virða fyrir mér verkið þá stíg ég í ógáti á þurra trjágrein sem brakar ofurlágt í en nógu hátt til þess að ormurinn galopnaði augun og leit á mig þar sem ég stóð með palettuna í annarri hendi og pensil í hinni.

Við horfðumst í augu góða stund og það var ásökun í augnaráði hans. Mér fannst einsog ég hefði verið staðinn að verki við eitthvað ósiðlegt athæfi. Ég stirðnaði allur upp og kólnaði undan þessu djúpa sorgmædda augnaráði og gat mig hvergi hreyft. Ormurinn horfði einhvernveginn beint inní mig, lengst inní sál mína og augu hans voru hyldjúp einsog óendanleg jökulsprunga. Hann yfirtók á einhvern undarlegan hátt vitund mína og ég vissi ekki af neinu nema þessu undarlega skrímsli sem ég, eini maðurinn í öllum heiminum, hafði grandskoðað hvern lófastóran blett á. Við sameinuðumst einhvernveginn og urðum að einni veru, einstakri, ólíku öllu öðru. Ormurinn er sálin, ósýnileg öllum mönnum en án hennar er maður bara hylki, rennandi vatn á endalausri leið til sjávar, án nokkurs þekkts tilgangs. Á sama augnabliki vissi ég að þetta málverk var mitt síðasta málverk. Héðan í frá myndi ég aldrei mála aðra mynd. Þetta var hið eina málverk og það var ekki málverk af skrímsli austan af landi sem menn eru ekki einusinni sammála um hvort er til eða ekki heldur er þetta eina skiptið í veröldinni sem hin raunverulega sál hefur verið fest á léreft og það verður heldur aldrei gert aftur. Þegar þessi eina mynd hefur verið gerð þarf ekki að gera fleiri myndir. Allar aðrar myndir eru einungis spegilmyndir og tálsýnir sem hafa ekkert hlutverk og engan tilgang. Allt annað en þessi mynd er hjóm og blekking, hún ein er til.

Svo reisti ormurinn hausinn, sneri frá og renndi sér hljóðlaust ofaní fljótið og hvarf í djúpið. Og ég sat eftir og mér leið einsog ég hefði sjálfur horfið ofaní þetta mjólkurhvíta vatn sem enginn veit yfir hverju býr. Það hvarf hluti af sjálfum mér þetta kvöld og afgangurinn af mér sat galtómur fyrir framan ógnarstórt málverk á trönum og vissi ekki í þennan heim né annan langa stund. Það var orðið niðadimmt þegar ég loksins tók saman litina mína og gekk með þá ofaní víkina, festi málverkið á toppgrindina á bílnum og ók niðurá Borgarfjörð þarsem ég hafði aðsetur. Hann hafði rifið af sér og fullt tunglið fylgdi mér alla leið niðureftir og ég man ekki til þess að ég hafi mætt nokkurri lifandi sálu alla leiðina. Það var bókstaflega einsog tíminn hefði stansað og ég væri aleinn í öllum heiminum og ekkert væri til nema ég, ormurinn sem hafði dregið sál mína niður í ískalt djúpið og spegilmynd hans; málverkið.

Daginn eftir sýndi ég tengdaföður mínum verkið og sagði honum frá viðskiptum mínum við orminn. Hann hafði, einsog svo margir Austfirðingar, séð orminn sjálfur og tjáði mér að þarna væri nákvæm eftirmynd hans einsog hann hefði séð hann og tiltók sérstaklega hvað liturinn á honum væri nákvæmlega eins og á fyrirmyndinni.

Síðan þetta gerðist er ég tengdur Austurlandi óslítanlegum böndum. Ef ég kemst ekki austur að minnsta kosti einu sinni á ári þá finn ég hvernig ég þorna allur upp innanum mig og öll frjó hugsun fjarar smátt og smátt út. Þegar lendingarhjól flugvélarinnar snerta flugvöllinn, þegar bíllinn skríður upp efstu brekkurnar uppúr Breiðdalnum eða þegar Dyrfjöllin sjást ofan af Jökuldalsheiði, þá hríslast um mig einhver undarlega heit tilfinning sem líkist helst því þegar ég sá konuna mína fyrst við stöðumælinn fyrir framan Hótel Borg í denn. Það er ekki einsog að vera kominn heim heldur meira einsog að hitta elskuna sína óvænt eftir langan aðskilnað.

Frásögn þessi er niður skrifuð af sannleiksást og hreinu hjarta og hvert orð í henni er sannleikanum samkvæmt og ritað eins nákvæmlega eftir atburðum og minnið leyfir og ekkert undan dregið svo hjálpi mér almættið.

Þiðrandabani