v/Snartarstaði

67l Kópasker

Sími 465-2171

boknord@islandia.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ÞJÓÐBÚNINGAR KVENNA
Sumarsýning 2006

Íslenski kvenbúningurinn.

Saga íslenska kvenbúningsins er jafn löng og búseta á landinu. Á söguöld munu konur hafa klæðst kyrtlum sem svipar nokkuð til kyrtla þeirra sem Sigurður Guðmundsson, málari hannaði árið 1870 fyrir konur til að geta dansað í, en hann hugsaði sér að smeygja inn fornbúningnum með honum. Í grein sem Sigurður ritaði árið 1857 í Nýjum félagritum lýsir hann þróun búninga frá söguöld til þess dags og telur hann að búninginn þurfi að einfalda og færa nær því sem var á söguöld. Konur munu hafa notað höfuðdúka yfir hárið á söguöld og eins höfðu þær belti við kyrtilinn.

Lög.

Frá miðöldum hafa verið til ákveðin lög um hvaða klæði, skartgripi og jafnvel liti mætti bera og var það efnahagur fólks og staða sem ákvað það. Í Jónsbók, sem var lögbók Íslendinga til ársins 1662 og vísað til allt fram á 18.öld, voru ákvæði um skrúðklæðaburð, þar sem þeir einir máttu klæðast þeim er áttu nægilegt fé til þess og þeir sem minna höfðu undir höndum færu ekki að eiða í óþarfa. Á 16. og 17. öld voru menn dæmdir fyrir óhæfilegan og ólöglegan klæðnað.

Faldbúningur.

Það er ekki fyrr en á 16.öld að heimildir um sérkenni íslenskra kvenbúningsins finnast, en sá búningur var faldbúningurinn, en hann dró nafn sitt af faldi sem konur vöfðu um höfuðið. Á seinni hluta 16.aldar var farið að nota pípukraga og svuntur við búninginn. Einnig voru notuð sprotabelti við hann.

Peysuföt.

Það er ekki fyrr en eftir 1700 að konur fóru að nota húfubúning eða peysubúning, það var þó ekki fyrr en um 1790 að farið var að nota peysubúning sem daglegan klæðnað og varð hann algengur bæði sem hversdags- og spariklæðnaður á 19.öld. Eitt einkenni hans er skotthúfan sem þróaðist út frá karlmannshúfu, var fyrst djúp prjónahúfa, en síðan minnkaði hún og skúfurinn lengdist um leið, en húfan kom í staðin fyrir faldinn auk þess sem konur fóru að nota peysu í stað útsaumaðri treyju. Pilsið var svart, fellt að aftan með svuntu sem náði aftur fyrir mjaðmir. Upphluturinn er hluti af faldbúningi, hann var líka notaður undir peysubúningnum. Virðist notkun hans sem sjálfstæðs búnings hafa orðið til þegar konur voru léttklæddar við vinnu og fóru úr peysunni. Þegar hann varð sjálfstæður búningur urðu breytingar á honum t.d. borðar og millur. Í dag er hann algengastur íslenskra þjóðbúninga.

Skautbúningur og kyrtill.

1857 skrifaði Sigurður Guðmundsson málari grein um hátíðarbúning kvenna (faldbúninginn) sem hann taldi þurfa að breyta og laga. Í framhaldi af því hannaði hann skautbúninginn, en hann samanstendur af faldi með gagnsærri blæju, treyju sem er baldýruð á börmum, aftur fyrir háls og framan á ermum, oft baldýrað á flaueli, samfellu (pils) sem er skreytt útsaumi, oft blómstursaumi, en Sigurður teiknaði einnig munstur sem hann teldi passa við búninginn. Sigurður hannaði einnig kyrtil, eins og fram kemur hér að ofan.

Upphlutur.

Upphluturinn er hluti af faldbúningi, hann var líka notaður undir peysubúningnum. Virðist notkun hans sem sjálfstæðs búnings hafa orðið til þegar konur voru léttklæddar við vinnu og fóru úr peysunni. Þegar hann varð sjálfstæður búningur í kringum aldamótin 1900, urðu breytingar á honum t.d. borðar og millur. Í dag er hann algengastur íslenskra þjóðbúninga.

Í dag eru búningarnir ekki mikið notaðir, en þær konur sem eiga þá eða hafa aðgang að þeim klæðast þeim gjarnan við hátíðleg tækifæri.

Heimildir:
Elsa E. Guðjónsson (1969). “Íslenskir þjóðbúningar kvenna”. Bókaút. Menningarsj.
Halldóra Bjarnadóttir (1970). “Hugleiðingar um íslenska þjóðbúninginn”. Húnavaka.
Íslenski þjóðbúningurinn. Sótt 6.7.2006 á slóðina http://www.buningurinn.is
Margrét Gunnarsdóttir (1994).“Baráttan með búninginn”, Sagnir.
Sigurður Guðmundsson (1857). “Um kvenbúninga á Íslandi”, Ný félagsrit.
Æsa Sigurjónsdóttir (1983). “Klæðnaður íslendinga á fyrri öldum”, Hugur og Hönd.

Myndir frá sýningunni.

<<<.