v/Snartarstaði

67l Kópasker

Sími 465-2171

boknord@islandia.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að koma ull í fat...


Ullin.

Í bók sinni, Horfnir starfshættir telur Guðmundur Þorsteinsson að líklega sé það tvennt sem hafi gert fólki mögulegt að lifa af hér á landi, það fyrra hafi verið torfhúsin og það síðara sé íslenska ullin.

Lengi var talið nægilegur lærdómur fyrir kvenfólk að koma ulli í fat og mjólk í mat. Þó svo þessi menntun dugi nútímakonunni ekki er spurning hvort þetta sé ekki enn jafngóður lærdómur og áður fyrr.

Ullin hefur ekki verið metin sem skildi á undanförnum árum, en hagnýting hennar í okkar misviðrasama landi hefur verið ómetanleg í gegnum aldirnar. Eitt helsta vetrastarf Íslendinga fram á 20. öld var ullarvinna.

Hér á landi var ullin ekki klippt af sauðfé heldur er talið að bændur hafi rifið ullina af sauðfénu með höndunum áður en hún datt alveg af og er þaðan komin sögnin að rýja. Sauðfé var ekki rúið hér á landi með klippum eða skærum fyrr en á 19. öld.

Eftir rúningu er ullin þvegin upp úr keytu í potti úti við læk en keyta er geymt hland sem notað var til þvotta fyrr á öldum. Síðan var ullin skoluð í læknum og lögð á þurrkvöll, sem þurfti helst að vera grasbrekka á móti suðri, til þurrkunar.

Ullarvinnsla eftir þvott og þurrk.

Byrjað var á að taka ofan en það var að draga togið úr þelinu en þel er fínt undirlag ullarinnar en tog gróft yfirborð. Síðan var ullin kembd, þelið í þelkömbum en togið í togkömbum. Ullin var síðan dregin úr kömbunum í kembu og var það undirbúningur fyrir spuna sem einmitt var næsta verk. Úr þelinu var spunninn fínn þráður en úr toginu grófur.

Fyrr á tímum var spunnið á halasnældu sem var ævafornt áhald en halasnældan var ómissandi í tóvinnu fyrri alda, bæði við að spinna úr ullinni svo og að tvinna þráð. Halasnældan er sett saman úr þremur hlutum, hala, snúð og hnokka. Halasnældan hefur verið mjög algeng hér á landi því að margir snældusnúðar hafa fundist við fornleifauppgröft. Hrosshár í reipi var spunnið á halasnældu og til að tvinna stórgert band fram á 20. öld.

Spunarokkar urðu ekki algengir á Íslandi fyrr en á 19. öld, en þeim kynntust Íslendingar fyrst með Innréttingunum. Rokkar voru bæði innfluttir og innlendir og þóttu þeir innlendu betri en hinir útlendu.

Hvað var unnið úr þeli og togi?

Íslenska þjóðin klæddist heimaunnum vaðmálsfötum og prjónuðum flíkum sem unnin höfðu verið með sama hætti í margar aldir. Ullin var þjóðinni sjálfri því mikilvæg en ullin var ekki eingöngu notuð til þess að klæða okkur sjálf heldur var hún líka flutt út og notuð sem gjaldeyrir í viðskiptum og skattagreiðslum.

Þelið var notað í nærföt og innri sokka enda mjög mjúkt viðkomu. Tog var notað í ytri sokka og engjaföt, reiðsokka o.fl. slíkt. Togið var einnig notað í ýmiskonar listiðnað, í sokkabönd, axlabönd, útsaum og saumgarn sem þurfti að vera sterkt.

Lopaprjón.

Orðið lopi táknaði ull sem hafði verið kembd í kömbum og teygð út í lausan streng til undirbúnings því að spinna ullina í halasnældu og rokk þar til ullarverksmiðjur urðu til. Eftir það var einnig farið að nota orðið lopi um ullarstrengi sem voru á vinnslustingi á milli vélkembingar og vélspuna. Í fyrstu var lopinn annaðhvort spunninn í verksmiðjunum eða endursendur heim á bæi þar sem hann var spunninn á rokk eða í litlum spunavélum. Árið 1920 gerði Elín Guðjónsdóttir Snæhólm tilraunir með að vinna beint úr lopaplötu í stað þess að spinna ullina fyrst. (Hlín 1923). ´

Handprjón úr lopa hófst þó ekki fyrr en um 1930. Á árunum eftir 1940 urðu handprjónaðar lopapeysur vinsælar. Voru þær prjónaðar í hringprjón. Það var um 1950 að hringlaga axlarbekkir – upprunninn í Svíþjóð – voru teknir upp og aðlagaðir lopaprjóni, en þetta varð höfuðeinkenni íslenskra lopapeysa. Munstur lopapeysanna eiga sér margvíslegan uppruna. Sum eru hefðbundnir íslenskir munsturbekkir fengnir úr gömlum sjónabókum eða af eldra prjóni, vefnaði eða útsaumi.
Hér um slóðir var orðið lopi ekki notaður heldur kemba um ull sem kom úr kömbum.

Prjón á Íslandi.

Úr ullinni var aðallega ofið og prjónað. Vefnaður fylgdi landnámsmönnum til landsins en prjón er talið hafa borist til Íslands með þýskum kaupmönnum á fyrri hluta 16. aldar, og segja má að eftir það hafi þjóðin varla lagt frá sér prjónana nema um blánóttina í meira en þrjú hundruð ár.

Elstu ritheimildir um prjón hér á landi segja frá því að 1582 og 1583 hafi landskuldir að hluta verið greiddar í prjóna-saumi, efalítið sokkum. Prjón virðist fljótt hafa náð mikilli útbreiðslu á Íslandi. Líklega var ástæðan sú að það var miklu fljótlegra og auðveldara fyrir landsmenn að framleiða ullarvarning með þeim hætti heldur en með vefnaði.

Flest virðist hafa verið prjónað t.d. voru prjónaðir sokkar, illeppar, belgvettlingar, fingravettlingar, handstúkur( smokkar ), treflar, peysur og húfur auk nærfatnaðar. Einnig voru prjónaðar buxur, brjótadúkar, hettur, skór, axlarbönd, sokkabönd, sjöl, pyngjur, koddaver og jafnvel tjöld í útilegu.

Prjónar.

Fram til ársins 1920 voru prjónar einungis úr stáli og var fólk oft illa haldið af handadofa við notkun á þeim, en eftir það komu á markað prjónar úr öðru efni, en hollastir fyrir hendurnar voru tréprjónar.

Hringprjónavélar og flatprjónavélar koma líklega fyrst til landsins á árunum 1900-1910.

Hringprjónar voru teknir í notkun kringum 1940.

Sýningin.

Á sýningunni eru vettlingar og sokkar sem við höfum fengið að láni hjá ýmsum aðilum við Öxarfjörð auk þess sem við drögum fram vettlinga og sokka í eigu safnsins.

Það sem er á sýningunni eru frá hinum ýmsu tímum, það elsta rúmlega 100 ára en það yngsta óklárað.

Við vonum að allir geti haft gaman af þessu, og fólki er velkomið að taka myndir af munstrum ef áhugi er á að prjóna eftir þeim.

Heimildir:

Guðmundur Þorsteinsson.(1990). Horfnir starfshættir. Örn og Örlygur.
Elsa E. Guðjónsson.( 1985.) ”Um prjón á Íslandi”. Hugur og Hönd. s. 8-12.
http://www.idan.is/sagan/fyrstu-skrefin/ullarvinnsla//nr/21, sótt 17.6.2005

<<<.