Tölvupóstur sendur á eftirtalda aðila (+Word skjal í viðhengi):

Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Kennarasamband Íslands, Fréttastofu RÚV Morgunvakt RUV, Spegillinn RUV, Sjónvarp RUV, Útrás RUV, Umferðarútvarp US, Ísland í dag, Stöð2. MBL, Féttablaðið, DV og Visir.is

 

Reykjavík 13. október 2004
 


Landsamtök hjólreiðamanna harma ummæli háttvirts menntamálaráðherra, Þorgeðar Katrínar Gunnarsdóttur, í þættinum Ísland í bítið á Stöð 2 þann 12. október s.l. Þar talar hún um óskir og kröfur íbúa sem dragbít á að hægt verði að uppfylla kröfur í kjaradeilu kennara. Þar á meðal að almenningur krefjist malbikaðra hjólreiðabrauta.


Í þættinum segir hún hafa verið á íbúaþingi í Hafnarfirði þar sem íbúar hafi verið með ýmsar kröfur og hugmyndir. Segir hún svo: “Hvað þýðir það þegar sveitarfélög láta undan svona kröfum, malbikaðir hjólreiðastígar, ókeypis í strætó? Það þýðir að það er minna eftir í önnur mál, t.d. það að veita grunnskólakennurum hærri laun.”


Hjólreiðamenn hafa óskað eftir almennilegum samgöngum í mörg ár og nú þegar ráðamenn eru farnir að sýna því skilning þá lætur háttvirtur menntamálaráðherra líta svo út að hjólreiðabrautir séu einn af stærstu kosnaðarliðum sveitarfélaga, sem svo komi í veg fyrir að kennarar geti fengið sín mannsæmandi laun.


Háttvirtur menntamálaráðherra mætti kynna sér málið betur því þegar betur er að gáð þá skila hjólreiðabrautir í raun arði. Þetta vita ráðamenn Kaupmannahafnar sem hafa það að markmiði að auka hjólreiðar úr 33% upp í 40% í heildarhlutfalli samgangna í borginni. http://www.vejpark.kk.dk/byenstrafik/cyklernesby/index.htm
Norðmenn búa við svipaðar aðstæður og við á Íslandi Þeir hafa komist að því að arðsemi hjólreiðabrauta er margföld samanborið við akvegi og einnig þegar litið sé til heilsufarsþátta. http://www.toi.no/program/program.asp?id=35830
Rannsókn Níelsar Einars Reynissonar á landsþörf samgöngumannvirkja í Reykjavík leiðir m.a. í ljós að nærri helmingur alls lands innan borgarinnar, eða 48%, fer undir akvegakerfrið. Það er því full þörf á fyrirferðarminni samgöngumannvirkjum í borginni eins og hjólreiðabrautum.


Það er nokkuð ljóst að malbikaðar hjólreiðabrautir koma menntamálum lítið við, nema kannski til þess að minnka bílaumferð við skólana, því ef öruggar hjólreiðabrautir væru til staðar á höfuðborgarsvæðinu myndi umferð vélknúinna ökutækja minnka til muna sem þýðir að börn gætu farið til og frá skóla með heilsusamlegum hætti.

Fyrir hönd LHM

Elvar Örn Reynisson