STOFNFUNDUR HJÓLREIÐAFÉLAGS FIMMTUDAGINN 11. NÓVEMBER

 

 

Fimmtudaginn 11 nóvember kl. 20.00 verður haldinn stofnfundur nýs hjólreiðafélags í miðsalnum í húsakynnum ÍSÍ. Þetta er salurinn sem er fyrir endanum á ganginum inn af kaffiteríu ÍSÍ. Reyndar er búið að rífa niður kaffiteríuna en allir ættu þó að ramba á þetta. Þar verður lögð fram tillaga að lögum hins nýja félags og kosið í stjórn og nefndir í samræmi við fyrrnefnd lög. Einnig þarf að ákveða nafn á. Annars er hér smá hugleiðing varðandi ástæður þess að við höfum tekið upp á þessu:

 

 

 - Mismunandi einstaklingar hafa sjálfsagt ýmsar ástæður, en það er hægt að segja að það sem hjólreiðaíþróttinni á Íslandi skortir mest séu fleiri félög. Þekkja menn til dæmis einhverja aðra íþrótt, sem aðeins er eitt íþróttafélag á gjörvöllu landinu er um. Auk þess er nauðsynlegt að auka fjölbreytnina í íslensku hjólalífi þannig að fleiri aðilar vinni að framgangi íþróttarinnar.

- Það má segja að það sé mikilvægt að fleiri en einn aðili vaki yfir íþróttinni, þannig að þegar eðlilegar sveiflur verða í starfsemi félaga þá er einhver sem ber fánann. Annars er hætt við að íþróttin staðni eða jafnvel sofni við og við. Þetta hefur einmitt gerst með ca. 10 ára millibili í hjólreiðaíþróttinni og er etv. ástæðan fyrir smæð þessarar greinar, þrátt fyrir að fyrsta félagið í hjólreiðum hafi verið stofnað 1896.  Var það annað íþóttafélagið sem var stofnað í landinu næst á eftir Skotfélagi Reykjavíkur. Þetta félag hét Hjólamannafélag Reykjavíkur og var stofnað af sendisveinum í bænum sem einskonar verkalýðsfélag. Það var reyndar lagt niður skömmu eftir aldamótin en Hjólreiðafélagið sem við þekkjum stofnað nokkru seinna. Hjólreiðafélagið lá svo í dvala við og við á 20 öldinni og hjólreiðaíþróttin með því. Nú síðast var það endurreist veturinn 1997-1998.

- Þar fyrir utan er hjólreiðaíþróttin skemmtileg blanda af liðaíþrótt og einstaklingsíþrótt, eins og allir sem fylgjast með erlendum keppnum í sjónvarpinu vita. Lance Armstrong færi ekki langt í Túrnum nema með hjálp sinna góðu liðsfélaga. Þetta hefur alveg skort hér hjá okkur, og er eins og okkur vanti ákveðna vídd í keppnirnar af þessum sökum. Fleiri félög munu með tímanum leiðrétta þetta og samkeppni milli þeirra vafalaust hækka “standardinn” á íslenskum hjólreiðum.

- Auk þessa er erfitt að byggja upp eðlilegan strúktúr í íþróttinni, svipaðan því sem tíðkast í öðrum íþróttum hérlendis, með aðeins eitt félag. Íþróttasambandið leyfir okkur ekki að stofna Hjólreiðasamband fyrr en þrjú héraðssambönd sem hafa hjólreiðafélög innan sinna vébanda biðja um það. Í framtíðinni gætu það orðið Íþróttabandalag Akureyrar (eða hvað sem héraðssambandið þar heitir), ÍBR og UMSK, þar sem ætlunin er að hafa hið nýja félag. Hjólreiðanefnd ÍSÍ sem stjórnar íþróttinni í dag er pínulítið "skringileg" þar sem hún er yfir aðeins einu félagi og hætt við að menn setji spurningamerki við nauðsyn hennar og vald. Þegar fleiri félög koma inn í myndina er hún alveg eðlileg, og auðvitað er hún nauðsynleg hvort eð er, þó ekki sé nema bara til að íslendingar séu gjaldgengir í hvaða keppni sem er erlendis, og vegna samskipta við hjólreiðayfirvöld bæði erlend og innlend.

 

 Nefndin