Blaðið þriðjudaginn 9. maí 2006

Samgöngutæki 21. aldarinnar

Það ætti að vera hverjum manni ljóst sem kynnir sér staðreyndir, að einkabíllinn getur ekki orðið samgöngutæki 21. aldar. Hann er þvert á móti stór hluti af þeim alþjóðlega vanda sem tengist útblæstri koltvísýrings en fjórðungur útblásturs á heimsvísu er af völdum bifreiða. Á Íslandi er þetta hlutfall hærra þrátt fyrir að stjórnvöld hafi kostað kapps um að auka mengun á öðrum sviðum, t.d. vegna stóriðju. En mengun er ekki aðeins hnattrænt vandamál heldur snertir hún líf okkar í borginni með beinum hætti. Þeim fjölgar stöðugt dögunum sem svifryksmengun í Reykjavík er yfir leyfilegum mörkum, þ.e. yfir mörkum sem heilsufar einstaklinga er talið þola. Það er því ljóst að við verðum að grípa til einhverra aðgerða.

Ein leið til að draga úr svifryksmenguninni og auka loftgæði allra borgarbúa er að fjölga hjólandi vegfarendum í umferðinni. Besta leiðin til þess er að opna leiðir fyrir hjólreiðafólk svo hægt sé að nota hjólið sem samgöngutæki en ekki einvörðungu sem útivistartæki eins og nú er. Reykjavíkurborg og sveitarfélögin hér í nágrenninu hafa lagt útivistarstíga þar sem fólk hjólar sér til heilsubótar en þeir eru ekki hugsaðir sem samgönguæðar. Net hjólreiðastíga er iðulega í úthverfum eða útjaðri sveitarfélaganna en ekki samhliða umferðaræðum. Ef við eigum að gera hjólreiðafólki það kleift að nýta samgöngutækið sem það kýs sér á eins skilvirkan hátt og mögulegt er verðum við að heimila fólki að fara stystu leiðir á milli staða. Ef stjórnvöld meina eitthvað með þeim yfirlýsingum sem fram koma í gildandi samgönguáætlun um það að auka beri hlut sjálfbærra samgangna verðum við að gera hér bragarbót. Sú bragarbót felst í því að leggja hjólreiðabrautir meðfram meginleiðum. Í Reykjavík er á hverju ári bætt við umferðarmannvirkjum sem ekki eru til þess fallin að hleypa hjólreiðafólki um. Mislæg gatnamót eru eingöngu hönnuð til að greiða fyrir bílaumferð, þau eru beinlínis hættuleg hjóleirðafólki.

Við Íslendingar erum eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Norðurlandaþjóðirnar hafa staðið sig mjög vel í því að gera hjólið að fullgildu samgöngutæki. Þær hafa skapað samfelld grunnkerfi fyrir hjólreiðar sem ætti að vera auvelt fyrir okkur að hafa til eftirbreytni.

Vinstrihreyfingin-grænt framboð hefur barist fyrir því að gera hjólreiðar að raunhæfum valkosti í samgöngumálum. Þingsályktunartillaga Kolbrúnar Halldórsdóttir um að gera reiðhjólabrautir að hluta stofnbrautkerfisins hefur verið svæfð í nefnd á alþingi árum saman. Hér í borginni hefur Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi Vinstrigrænna, barist fyrir því að hjólreiðabrautir séu samhliða meginleiðum og má t.d. sjá mjóan vísi að því á Laugavegi, milli Snorrabrautar og Barónsstígs og framundan eru endurbætur á Lönguhlíð þar sem verður sérstök hjólreiðabraut.

Ef við Vinstrigræn fáum liðsinni kjósenda til þess er markmið okkar að leggja í talsverðar framkvæmdir á næsta kjörtímabili svo hjólreiðafólk eigi greiðari leið um borgina. Fyrir árið 2010 viljum við sjá hjólreiðabrautir meðfram stofnleiðunum Miklubraut, Kringlumýrarbraut, Suðurgötu, Snorrabraut og Sæbraut þannig að hjólreiðafólk komist greiðlega til vinnu innan borgarinnar allan ársins hring. Þar að euki viljum við tryggja hjólreiðafólki úr Grafarvogi og Grafarholti greiða leið yfir Elliðaárósa inn á stígakerfi borgarinnar og inn á meginumferðaræðar. Í samgöngumálum lítum við á þessar úrbætur sem forgangsverkefni. Þær koma að gagni fyrir íbúa borgarinnar á sama tíma og þær hafa hnattræn áhrif með tiilliti til minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Þannig er pólitík okkar Vinstrigrænna. Pólitík 21. aldarinnar.

Svandís Svavarsdóttir
skipar 1. sæti á V-listanum í Reykjavík

Sjá hugmynd VG um stofnbrautir hjólreiða í Reykjavík (pdf 1,56Mb)