Katrín Fjeldsted

Hjólreiðar í Reykjavík og öryggi vegfarenda

Þegar litið er yfir farinn veg er margs að minnast. Mig langar til að rifja upp árið 1994 og hvernig staðið var að undirbúningi þess að auka öryggi hjólreiðamanna í umferðinni í Reykjavík. Það ár var haldinn fundur evrópskra borga undir heitinu Car free cities ( bíllausar borgir) með það í huga að draga úr mengun frá bílum og fækka slysum. Tillaga um að stofna hjólanefnd var lögð fram í borgarráði af 3 borgarráðsmönnum Sjálfstæðisflokksins, Katrínu Fjeldsted, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Árna Sigfússyni og samþykkti borgarráð samhljóða 21. desember 1993 að tilnefna þrjá kjörna fulltrúa í nefnd er gera skyldi tillögur til úrbóta fyrir hjólreiðamenn í Reykjavík. Nefndin átti að hafa samráð við samtök hjólreiðamanna. Hinn 4. janúar 1994 samþykkti borgarráð að tilnefna Katrínu, Vilhjálm og Þór Jakobsson til setu í nefnd til að gera tillögur til úrbóta fyrir hjólreiðamenn. Nefndin lauk störfum með bréfi til borgarráðs dags. 29. mars 1994. Tillögur nefndarinnar voru fjölþættar og vil ég nefna þær helstu hér:

Stofnbrautakerfi hjólreiða

  1. Lagt var til að búið yrði til stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar innan þriggja ára og með því tryggt að hægt yrði að komast á milli hverfa, innan hverfa og að stórum vinnustöðum á hjóli. Nefndin lagði auk þess til að Reykjavíkurborg hæfi þegar samstarf við nágrannabæjarfélög um skipulagningu stofnbrautakerfis fyrir hjólreiðar.
  2. Í framhaldi af gerð stofnbrautakerfis skyldi sett upp samræmt vegvísunarkerfi fyrir hjólreiða- og göngustíga og gefið út sérstakt hjólreiðakort og leiðabók fyrir hjólreiðamenn á íslensku, Norðurlandamáli og ensku.
  3. Lagt var til að á næstu þremur árum yrðu sett upp sérstök umferðarljós fyrir hjólreiðafólk.
  4. Lagt var til að séð yrði fyrir þörfum hjólandi við skipulag og hönnun nýrra borgarhluta og hverfa í landi Reykjavíkur.

Gamli bærinn
Líta átti sérstaklega á Gamla bæinn og fundnar leiðir til þess að auðvelda notkun hjóla þar, t.d. með því að útbúa og merkja sérstakar reinar fyrir hjólreiðamenn í götustæðinu eftir því sem því verður við komið. Bent var á að athuga þyrfti skiptingu umferðar í hjólreiðar/gangandi, hjólreiðar/akandi. Athuga þyrfti hvort sumstaðar mætti fækka bílastæðum fyrir hjólreiðabrautir og fyrir hjólagrindur og þar með ýta undir aukna notkun bílgeymsluhúsa.

Framkvæmdir/ frágangur
Nefndin kom með tillögur um nánari útfærslu í 9 liðum.

Kortlagning

  1. Nefndin lagði til að gert yrði slysakort þar sem fram kæmi hvar hjólreiðamenn hefðu orðið fyrir slysi síðustu fimm árin og hve alvarleg þau hefðu verið.
  2. Þá var lagt til að gerð yrði könnun á hjólaeign skólabarna, notkun þeirra á hjólum og kortlagðar þær leiðir sem þau hjóla um.

Aðrar tillögur og tilmæli
- þar á meðal að settar verði grindur fyrir hjól við fjölförnustu biðstöðvar SVR og á strætisvagna

Þessu til viðbótar lagði nefndin til að haldinn yrði hjóladagur fjölskyldunnar og var það gert 15. maí 1994. Þátttaka varð geysigóð og ánægjulegt var hve margir notuðu hlífðarhjálma, bæði börn og fullorðnir. Fróðlegt væri að kanna hverjar af þessum tillögum hafa síðan komið til framkvæmda og hvaða árangri þær hafa skilað. Það hlýtur að vera eitt af forgangsmálum í umferðinni að koma í veg fyrir slys svo og að draga úr mengun frá bílum. Hjólreiðar eru heilsubót og flesta daga ársins ætti að vera auðvelt að komast leiðar sinnar innan borgarmarka Reykjavíkur á hjóli. Svo þarf hjálmurinn að vera á sínum stað, kyrfilega festur á kollinn!