Innlent | Morgunblaðið | 18/2´01 10:51


Útlendingum kenndar hjólreiðar
Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.


Borgarráð Kaupmannahafnar hefur samþykkt að leggja fé í að kenna innflytjendum að hjóla. 

Það er tyrkneski borgarráðsmeðlimurinn Taner Yilmaz, sem lagði tillöguna fram og féll hún í góðan jarðveg hjá öðrum sem sæti eiga í ráðinu. Óvíst er hve mikill kostnaðurinn verður við kennsluna en hún er einkum ætluð erlendum konum. 

Innflytjendur og flóttamenn sjást ekki oft á hjólum í Danmörku þar sem rík hefð er fyrir þessum fararmáta. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir kunna ekki að hjóla, að sögn Yilmaz. "Innflytjendur í Danmörku eru heillaðir af hjólamenningu Dana, einkum eldra fólki sem fer allra sinna ferða á hjóli. En þeir kunna ekki sjálfir að hjóla. Í Tyrklandi er ekki litið á hjól sem farartæki," segir Yilmaz. 

Yfirmaður byggingar- og tæknideildar Kaupmannahafnar segir það gott og blessað að kenna fleirum að hjóla en leggur áherslu á að hinum nýju hjólreiðamönnum verði einnig kenndar umferðarreglurnar, nokkuð sem virðist hafa gleymst hjá hjólreiðamönnum almennt á götum borgarinnar. 

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.