MBL Innlent | 21.05.2001 | 16:36

http://www2.mbl.is/mm/frettir/show_framed_news?cid=1&nid=711873


Hjólreiðakappi leggur af stað í langferð 

Sigursteinn Baldursson hjólreiðamaður heldur síðdegis af landi brott til að hefja háfjallaleiðangur sinn á fjallahjóli frá nyrstu strönd Alaska að syðsta odda Argentínu. Fyrirhuguð leið er 33 þúsund km löng, þar af 400 km á vegum og mun hjólaferðalagið vera hið lengsta sinnar tegundar í heiminum. 

Leið Sigursteins liggur um 15 þjóðlönd eftir torfærum stígum og slóðum. Hyggst hann ennfremur klífa hæsta fjall hvers lands á leiðinni, m.a. tvo af Hátindunum sjö, annars vegar hæsta fjall Norður-Ameríku, McKinley sem er 6.194 m hátt og hins vegar hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua 6.595 m. Leið Sigursteins liggur eftir tveimur fjallgörðum, Klettafjöllunum og Andesfjöllunum en alls áætlar hann að vera tvö ár á leiðinni suður til Argentínu. 

Sigursteinn sagði á blaðamannafundi í dag að kvíðvænlegasti þáttur ferðarinnar væri sjálfur brottfarardagurinn þegar komið væri að kveðjustund. Sagði hann að þótt kílómetrarnir væru margir væri ekki aðalmarkmiðið að safna þeim sem slíkum, heldur minningum á fjölbreyttri leið. 

Vegna leiðangursins hafa Skólavefurinn ehf. og nokkrir valdir skólar á landinu ákveðið að nýta tækifærið og búa til námsefni sem tekur mið af því svæði sem Sigursteinn fer yfir á ferð sinni. Námsefnið verður unnið af nemendum í samvinnu við Sigursteinn og vistað á Netinu. Bakvarðasveit Sigursteins er skipuð Herði Gunnarssyni markaðsstjóra, Þorkatli Þorkelssyni ljósmyndara og Þorsteini G. Gunnarssyni fjölmiðla- og upplýsingafulltrúa.

Sigursteinn Baldursson, fyrir miðju, ætlar að hjóla á milli póla næstu tvö ár. mbl.is/Jón Svavarsson

Til baka