Laugardaginn 9. október, 2004 - Forsíða

Samgöngumannvirki taka helming landsins

RANNSÓKN Níelsar Einars Reynissonar á landþörf samgöngumannvirkja í Reykjavík leiðir m.a. í ljós að nærri helmingur alls lands innan borgarinnar, eða 48%, fer undir samgöngukerfi.


RANNSÓKN Níelsar Einars Reynissonar á landþörf samgöngumannvirkja í Reykjavík leiðir m.a. í ljós að nærri helmingur alls lands innan borgarinnar, eða 48%, fer undir samgöngukerfi. Níels er styrkþegi Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og kynnti verkefni sitt í gær. Rannsóknin sýnir að 42% lands fara undir byggð svæði og 10% undir opin svæði. Þá fara 17% lands undir umferðargötur, 16% undir innri götur og15% undir bílastæði.

Rannsóknin sýnir að betri nýting er á samgöngukerfinu eftir því sem þéttleiki byggðar er meiri. Níels bendir á að þéttleiki byggðar fari minnkandi í nýrri hverfum borgarinnar og þar séu mun fleiri fermetrar gatnakerfis á hverja íbúðareiningu. 322 fm af samgöngumannvirkjum séu á hverja íbúð í Staðahverfi í Grafarvogi en aðeins 41 fm á hverja íbúð á Grettisgötu.

Komst Níels að því að íbúar í þéttum fjölbýlishúsahverfum virðast greiða hlutfallslega meira til gatnagerðar en þeir sem búa í gisnari hverfum.

"Ég tel að nýta megi niðurstöðurnar sem innlegg í umræðu um stefnu í Aðalskipulagi og mótun á samgöngustefnu," segir Níels. "Einnig ættu þær að nýtast við þróun á aðferðum við mat á skipulagstillögum og til að endurskoða álagningu gatnagerðargjalda."

Níels er 3. árs nemi í landafræði við HÍ og hafði Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur umsjón með verkefninu.


Slóð: http://www.mbl.is//mm/gagnasafn/grein.html?radnr=784335

© mbl.is/Árvakur hf, 2004

Sjónvarpsfréttir um þetta efni á RUV 9 október og 10 október