Vísir, Mið. 5. mars 15:04
Sorgardagur, segja umhverfissinnar
,,Við hættum aldrei að mótmæla" heyrðist í einum andstæðingi Kárahnjúkavirkjunar um leið og hann gekk út úr Alþingishúsinu eftir að ljóst var að tillaga Vinstri grænna um þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun var felld. ,,Bananalýðveldi" muldraði annar.

Í dag voru samþykkt lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Mótmælendur fjölmenntu á þingpalla Alþingis og púuðu og klöppuðu til skiptis. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, þurfti að berja bjölluna nokkrum sinnum og minna áhorfendur á að sýna Alþingi virðingu.

Tugir mótmælenda söfnuðust saman á Austurvelli eftir að lögin voru samþykkt þar sem sorgarlög voru spiluð. Í samtölum við blaðamanna Vísis sögðu nokkrir mótmælendur að þeir myndu aldrei hætta að berjast gegn fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum. Engu máli skipti hvað Alþingi samþykkti.

Vísir, Mið. 5. mars 14:00
Tugir manna söfnuðust saman við Alþingishúsið um eittleytið í dag og kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun, en í dag voru greidd atkvæði um frumvarp um byggingu álvers á Reyðarfirði. Mótmælendur virkjunarinnar fjölmenntu á þingpalla og fylgdust með þegar frumvarpið var samþykkt. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra gerði grein fyrir atkvæði sínu og sagði hún að þetta væri stór dagur í íslenskri atvinnusögu. Valgerður sagðist stolt af þessari framkvæmd og að langþráður draumur Austfirðinga væri nú að rætast, en að framkvæmdin styrki einnig atvinnulífið á landinu öllu.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna, var á meðal þeirra sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu og sagði hann óforsvaranlegt að afgreiða þetta þingmál sem Vinstri-grænir hefðu varað við að gera að hornsteini íslensks atvinnulífs, en einnig við því að þetta væru mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar.

Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Samfylkingin styðji frumvarpið í meginatriðum en að skiptar skoðanir væru í flokknum. Því greiddu tveir þingmenn flokksins atkvæði gegn frumvarpinu, af umhverfisástæðum.

Breytingatillaga Vinstri-grænna um að afgreiðslu frumvarpsins verði frestað þar til þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram um Kárahnjúkavirkjun var felld. Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um tillöguna að enn væri hægt að sjá að sér í þessu máli og koma í veg fyrir mesta umhverfisslys Íslandssögunnar. Enginn annar en þjóðin geti tekið að sér æðsta dómsvald í þessu máli. Samfylkingin sat hjá við afgreiðslu breytingartillögunnar.

Meira frá Vísi:  http://visir.is/ifx/?MIval=frettir_btm&vefur=2&nr=134006&TF=1

Frétt MBL: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1020646

 

Til baka á á hjólafréttir

Til baka á náttúrufréttir