Kvikmyndasýning: Virkjanir og þjóðgarð í Austurbæjarbíói

Þriðjudaginn 14. janúar klukkan 21:00 í Austurbæjarbíói mun Hugmyndaflug ehf (fyrirtæki Ómars Ragnarssonar), standa fyrir sýningu á myndefni Ómars Ragnarssonar, sem unnið hefur verið undir vinnuheitinu “Á meðan land byggist”. Sýningin verður  í Austurbæ við Snorrabraut í Reykjavík (sem hét Austurbæjarbíó í gamla daga og síðar Bíóborgin).

Í þessari kvikmyndasýningu felst grunnur að sjónvarpsþáttum um virkjanir og þjóðgarða sem væntanlega verða sýndur mjög fljótlega.

Myndefnið byggist annars vegar á ferðum um virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar og hugsanlegt þjóðgarðssvæði norðan Vatnajökuls, og hins vegar á ferðum um tuttugu þjóðgarða og tólf virkjanir í Kanada, Bandaríkjunum og Noregi, auk fleiri áhugaverðra staða. Meðal þeirra var virkjunarstaður við Coloradofljót, þar sem hætt var við að virkja fyrir rúmum þrjátíu árum.  Sjá nánar á heimasíðu www.landvernd.is/landvernd.

 

Fundur og skemmtun: Leggjum ekki landið undir - björgum þjóðarverðmætum

Miðvikudaginn 15. janúar kl. 20.30 verður haldinn baráttufundur í Borgarleikhúsinu Á fundinum verða sýndar ljósmyndir frá Kárahnjúkasvæðinu eftir Jóhann Ísberg. Fram koma Sigurrós, Diddú,  Hilmar Örn Hilmarsson, Þjóðkórinn. Erindi flytja Pétur Gunnarsson rithöfundur, Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur og Sigurður Jóhannesson hagfræðingur.

 

Málstofa: Þjórsárver og mat á umhverfisáhrifum
Hvaða lærdóm má af málinu draga?

Málstofa í Norrænahúsinu í Reykjavík fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 16.30-18.00 Undanfarið hefur farið fram víðtæk fjölmiðlaumræða um stöðu vísinda og vísindamanna í vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda í kjölfar þess að   nokkrir vísindamenn gagnrýndu með hvaða hætti niðurstöður vísindarannsókna voru notaðar í samantekt um áhrif áformaðra framkvæmda vegna Norðlingaölduveitu. 

Þeir sem hafa fylgst með umræðunni standa frammi fyrir áleitnum spurningum. Var réttu máli hallað og var mikilvægum upplýsingum haldið til hliðar? Hefði niðurstaða úrskurðar Skipulagsstofnunar hugsanlega geta orðið önnur ef öll gögn hefðu komið fram með þeim hætti sem gagnrýnendur telja þau hefðu átt að gera? Var gagnrýni vísindamanna byggð á gildismati þeirra á verndargildi Þjórsárvera og andstöðu við allar framkvæmdir á þessu svæði? Eru þessar deilur tilkomnar vegna þess að sá lagarammi sem starfað er eftir er ófullkominn?

Landvernd og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands boða til málstofu í Norrænahúsinu í Reykjavík fimmtudaginn 23. janúar n.k. kl. 16.00. til að ræða málin og hvaða lærdóm megi af þessu draga. Frummælendur verða þau Aðalheiður Jóhannsdóttir lögfræðingur, Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og Þorvarður Árnason náttúrufræðingur og heimspekingur.