Hafskipsmálið


Click here for English version

Grein eftir Örnólf Árnason úr bókinni Ísland í aldanna rás 1900-2000

 

Mesta hitamál ársins á vettvangi fjölmiðla og opinberrar umræðu var líklega gjaldþrot Hafskips, sem sagt var stærsta gjaldþrotamál í sögu lýðveldisins. Útvegsbankinn varð fyrir áfalli sem hann mátti ekki við, en það og sú staðreynd að Albert Guðmundsson ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði á árum áður gegnt formennsku samtímis í stjórn Hafskips og bankastjórn Útvegsbankans var notað til að gera Hafskipsmálið að pólitísku hneykslismáli. Gróusögur í blöðum um stjórnendur Hafskips fengu byr undir báða vængi og áður en varði var Hafskipsmálið orðið að umfangsmiklu sakamáli, sem nú hlýtur að teljast eitthvert smánarlegasta frumhlaup íslensks réttarfars á síðari árum. Sautján menn, stjórnendur Hafskips, bankastjórar og aðstoðarbankastjóri Útvegsbankans ásamt bankaráðsmönnum og endurskoðendum beggja fyrirtækjanna, voru ákærðir fyrir hegningarlagabrot og sex þeirra meira að segja hnepptir í gæsluvarðhald vikum saman. Þegar dómar gengu, fyrst í undirrétti 1990 og loks í Hæstarétti 1991, voru mennirnir sýknaðir að fullu, utan fjórir sem hlutu vægan dóm og fyrir heldur smávægilegar yfirsjónir miðað við sakargiftir. Ofan á bættist að þegar þrotabú Hafskips hafði loks verið gert upp árið 1993 kom í ljós að yfir 50% fengust greidd upp í almennar kröfur þegar veðkröfur og forgangskröfur höfðu verið greiddar að fullu. Það er fátítt í gjaldþrotamálum að svo mikið fáist greitt af almennum kröfum enda voru margir orðnir þeirrar skoðunar þegar hér var komið sögu að Hafskip hefði í raun aldrei verið gjaldþrota heldur verið knúið í þrot. En þá var afrakstur þeirra sem högnuðust á gjaldþroti Hafskips löngu kominn í höfn. Eimskipafélag Íslands hafði losnað við skæðasta keppinaut sinn og fengið eigur hans, viðskipti og hafnaraðstöðu á silfurfati. Og „vinur litla mannsins“, Albert Guðmundsson, var fyrir fullt og allt horfinn út úr íslenskum stjórnmálum. 

            Á ýmsu hafði gengið í sögu þessa skipafélags, sem stofnað var af meðlimum Verslanasambandsins árið 1958. Hafskip var tæpum 20 árum síðar að undangengnu nokkru uppgangsskeiði illa statt fjárhagslega, meðal annars eftir kaup á fimm nýjum skipum fyrir erlend lán með ábyrgðum frá Útvegsbankanum sem var um það bil að loka fyrir áframhaldandi viðskipti. Í árslok 1977 var það svo fyrir tilhlutan bankans að Björgólfur Guðmundsson, maður sem sannað hafði ótvíræða hæfileika á sviði viðskiptalífsins og naut mikils álits og trausts, réðst til starfa hjá félaginu sem framkvæmdastjóri þess. Nýtt hlutafé safnaðist og á aðalfundi Hafskips 11. maí 1978 var kosin stjórn undir formennsku Alberts Guðmundssonar alþingismanns og stórkaupmanns, sem í fyrirsögn DV var lýst svo: „Ný breiðsíða hjá Hafskipi, hópur öflugra inn- og útflytjenda gengur til liðs við félagið og gæti valdið miklu umróti í farmflutningum.“ Þar reyndist Dagblaðið sannspátt. Skömmu síðar fékk Björgólfur til liðs við sig annan framkvæmdastjóra, Ragnar Kjartansson, sem fór úr starfi aðstoðarforstjóra Skeljungs til að hjálpa til við að koma Hafskipi á réttan kjöl. Næstu árin voru stöðugur uppgangstími hjá Hafskipi og skilaði reksturinn vaxandi hagnaði allt fram á árið 1983. Hafskip sigldi hraðbyri upp að hlið Eimskips, stærsta skipafélags landsins, „óskabarns íslensku þjóðarinnar“. Er ekki að efa að margir hafa þá verið farnir að sjá ofsjónum yfir vexti Hafskips. Til marks um umfang starfseminnar má nefna að félagið var komið með um 370 fasta starfsmenn á Íslandi. Félagið hafði 8-12 skip í förum, að meðtöldum leiguskipum. Á árinu 1984 komu skip félagsins 556 sinnum til yfir 30 hafna erlendis og 199 sinnum til 20 hafna innanlands. Vörugeymslusvæði Hafskips undir þaki í Reykjavík nam 23 þúsund fermetrum og útisvæði 53 þúsund fermetrum. Fyrirtækið rak fimm svæðisskrifstofur erlendis, í Kaupmannahöfn, Varberg, Hamborg, Rotterdam, Ipswich og New York.

            En árið 1983 mátti sjá blikur á lofti í kaupskipaútgerð. Skipaverð fór lækkandi jafnframt því sem erlendar skuldir hækkuðu sífellt í íslenskum krónum talið vegna óhagstæðrar gengisþróunar. Á þessum tíma lagði Hafskip út í ævintýri ásamt Eimskipafélagi Íslands. Félögin stofnuðu sameiginlegt hlutafélag, Farskip, um rekstur pólsks leiguskips, bílaferju sem hlaut nafnið Edda og var í siglingum milli Íslands, Bretlands og Þýskalands í 16 vikur sumarið 1983. Á þessari starfsemi varð 40 milljón króna tap sem skiptist til helminga milli eigendanna tveggja. Það var alvarlegt áfall fyrir Hafskip því bókfært eigið fé þess var í árslok aðeins rúmlega 13 milljónir króna. Hafskip varð líka í auknum mæli fyrir barðinu á harðri samkeppni af hálfu hinna skipafélaganna, einkum Eimskips sem öfugt við Hafskip hafði sterka eiginfjárstöðu og var því betur í stakk búið til að mæta tímabundnum mótbyr. Verðstríðið milli félaganna, sem að vísu hófst nokkru fyrr, tók mjög að harðna og tilkynnti Eimskip til dæmis í desember 1983 lækkun á stykkjavörutöxtum og þegar kom fram á árið 1984 má segja að verðstríð hafi geisað á þessum markaði. Bæði Hafskip og Eimskip misstu árið 1984 flutningana fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sem gefið höfðu félögunum drjúgar og tryggar tekjur. Hafskip sigldi inn í taprekstur í fyrsta sinn í allmörg ár og nú voru góð ráð dýr.

            Í stjórn Hafskips hf. voru eftir aðalfund 1984 Ragnar Kjartansson formaður, Ólafur B. Ólafsson varaformaður, Bjarni Magnússon, Davíð Sch. Thorsteinsson, Guðlaugur Bergmann, Gunnar Þ. Ólafsson, Hilmar Fenger, Jón Helgi Guðmundsson, Jón Snorrason, Jónatan Einarsson, Páll G. Jónsson, Pétur Björnsson, Sveinn R. Eyjólfsson og Víðir Finnbogason, allt þekktir athafnamenn úr viðskiptalífi þjóðarinnar.

Svar Hafskipsmanna var að hefja Atlantshafssiglingar, það er flutninga á vörum milli Norður-Ameríku og Evrópulanda án viðkomu á Íslandi. Björgólfur gerði úttekt á erlendu starfsskipulagi Hafskips, safnaði upplýsingum og hugmyndum sem meðal annars mætti nýta til að félagið gæti haslað sér völl í alþjóðlegum siglingum. Í kjölfar þessa voru settar á fót umboðsskrifstofur félagsins beggja vegna Atlantshafsins. Stórhugur stjórnenda Hafskips var af mörgum litinn hornauga árið 1985 en sá andi hefði líklega ekki þótt eiga illa við 10­-15 árum síðar. Ragnar var fyrsti formaður Sambands íslenskra kaupskipaútgerða sem stofnað var 1982. Í lok þess árs skrifaði hann grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: „Íslensk alþjóðasinnun – öflug útrás“. Árið 1983 var hann einn aðalræðumanna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og fjallaði þar um nýjar leiðir og möguleika í atvinnulífi Íslendinga. Þegar erfiðleikarnir hrönnuðust upp árið 1984 ákváðu stjórnendur Hafskips að bregðast við með nýrri sókn, „öflugri útrás“.

Atlantshafssiglingarnar hófust 15. nóvember 1984. Skömmu áður hafði eitt ólánið enn dunið yfir, verkfall BSRB, sem olli því að siglingar lágu niðri allan októbermánuð. Snemma í þeim mánuði skrúfaði bankastjórn Útvegsbankans fyrir allar frekari lánveitingar til Hafskips. Þrátt fyrir þetta ástand er auðséð að Hafskipsmenn höfðu trú á því að ágóðinn af hinum nýju siglingum myndi rétta við fjárhaginn. Í blaðafréttum og viðtölum lýstu forsvarsmenn því samt yfir að Hafskip berðist fyrir lífi sínu. Jafnframt baráttunni voru uppi þreifingar um hugsanlegan samruna félagsins við Eimskip sem ekki gekk eftir, enda töldu Eimskipafélagsmenn að ekkert lægi á. Hafist var handa um öflun nýs hlutafjár og tókst að ná saman 80 milljónum króna fyrir mikinn baráttufund hluthafa sem haldinn var í febrúar 1985 undir merkinu „Á krossgötum“. Eining virðist hafa verið á fundinum um að blása til nýrrar sóknar.

            Er leið að vori 1985 gerðist það tvennt að í ljós kom að afkoma félagsins árið 1984 reyndist verri en áætlað hafði verið, svo að hlutafjáraukningin nægði ekki til að koma Hafskipi á sléttan sjó, og að Atlantshafssiglingarnar skiluðu ekki ágóða, að minnsta kosti enn sem komið var. Svo er að sjá sem markaðssetning þessara siglinga hafi heppnast því tekjuáætlanir Hafskips um reksturinn stóðust að mestu leyti en kostnaðurinn var miklu flóknara dæmi og fór hann talsvert fram úr áætlun. Hinn 6. júní, daginn fyrir aðalfund Hafskips, upphófst svo í vikublaðinu Helgarpóstinum fádæma hatrömm ófrægingarherferð gegn fyrirtækinu og stjórnendum þess sem fékk smám saman byr undir báða vængi um allt þjóðfélagið, enda sáu keppinautar í viðskiptalífinu, pólitískir mótherjar og aðrir andstæðingar forvígismanna Hafskips sér fljótt leik á borði að færa sér þessar aðstæður í nyt. Stjórnarmenn og stjórnendur Hafskips voru flestir þekktir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum, til dæmis var Björgólfur Guðmundsson formaður Varðar, stærsta sjálfstæðisfélags Íslands og Ragnar Kjartansson framkvæmdastjóri fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna.

            Helgarpósturinn hélt því fram að Hafskipsmenn hefðu fyrir löngu vitað hvert stefndi og falsað áætlanir og uppgjör til að plata lánsfé út úr Útvegsbankanum og aukið hlutafé af félagsmönnum. Þótt þessar alvarlegu ásakanir og aðrar um óráðsíu Hafskipsmanna og misferli með fé fyrirtækisins væru einungis studdar sögusögnum, að nokkru frá brottreknum starfsmönnum, krydduðum ævintýralegu bulli um lifnað Hafskipsmanna erlendis, bergmáluðu þær í öðrum blöðum og voru síðan endurteknar og út af þeim lagt með dramatískum tilþrifum í ræðustóli á Alþingi. Umræðan var orðin svo neikvæð að Hafskip átti sér aldrei viðreisnar von eftir að hún komst á skrið. Of margt var fyrirtækinu andstætt til að á það fengi að reyna hvort Hafskipsmönnum heppnaðist að ná tökum á Atlantshafssiglingunum, en fullyrða má að olíuverðshækkunin í árslok hefði létt róðurinn til muna.

            Bitastæðasta hneykslunarefnið í ádeilu og umræðu um málefni Hafskips á þessu stigi var að Albert Guðmundsson fyrrverandi fjármálaráðherra og þáverandi iðnaðarráðherra hafði frá ársbyrjun 1981 og fram í  júní 1983 samtímis gegnt formennsku í stjórn Hafskips og bankastjórn Útvegsbankans, helsta lánadrottins skipafélagsins, sem hafði mjög nauma eiginfjárstöðu og mátti ekki við áföllum. Albert var einn umdeildasti stjórnmálamaður síns tíma en jafnframt feiknavinsæll enda hafði  hann um árabil verið ein skærasta knattspyrnustjarna Evrópu. Hann rakst afar illa í flokki og var mörgum þyrnir í augum, ekki síst í herbúðum gamla og virðulega valdakjarnans í Sjálfstæðisflokknum, enda skaut Albert þeim mönnum einatt ref fyrir rass í prófkjörum sem flokksforystan hafði mesta velþóknun á. Forkólfar Hafskips voru flestir handgengnir Albert og höfðu sumir í þokkabót gert sig seka um að styðja Gunnar Thoroddsen í innanflokksátökum. Annað af þessu tvennu hefði nægt til að girða fyrir að  Sjálfstæðisflokkurinn kastaði björgunarhring til hins sökkvandi Hafskips. Eftir nokkrar tilraunir til að selja Eimskipi eignir Hafskips eða ganga til sameiningar við Samskip var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 6. desember, fimm dögum eftir að Útvegsbankinn hafði selt Eimskipafélagi Íslands allar eignir þessa stærsta keppinautar þess fyrir verð sem margir hafa síðar kallað gjöf. Enginn fulltrúi Hafskips kom nálægt þessari sölu þótt hún varðaði hagsmuni margra annarra en Útvegsbankans. Hins vegar sat aðalbankastjóri Seðlabankans, Jóhannes Nordal, sölufundinn í stjórnarstofu Eimskips aðfaranótt sunnudagsins 1. desember 1985 ásamt formanni og varaformanni þess félags, Halldóri H. Jónssyni og Indriða Pálssyni, og forstjóranum, Herði Sigurgestssyni. Frá Útvegsbankanum voru mættir bankastjórarnir þrír og einn aðstoðarbankastjóri.

            Með gjaldþrotinu var þó einungis lokið fyrsta kafla Hafskipsmálsins. Í kjölfar þess tók málið stefnu sem kom mörgum í opna skjöldu, þrátt fyrir þær alvarlegu ávirðingar sem bornar höfðu verið á stjórnendur Hafskips í blöðum og á Alþingi. Í utandagskrárumræðu veittust ýmsir þingmenn hart Útvegsbankanum og stjórnendum Hafskips og gekk þar einna lengst Ólafur Ragnar Grímsson. Forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, lýsti því yfir að hann hefði verið í sambandi við skiptaráðanda og málið yrði rannsakað ítarlega og með hraði. Hafskipsmálið var þar með orðið að sakamáli. Svo vildi til að flestir helstu embættismenn réttvísinnar voru  framsóknarmenn, til dæmis ríkissaksóknari, rannsóknarlögreglustjóri og borgarfógetinn í Reykjavík. Sá síðastnefndi, Jón Skaftason, skipaði tvo unga starfsmenn sína skiptaráðendur, Markús Sigurbjörnsson og Ragnar Hall. Þrotabú Hafskips var feitasti göltur sem fleginn hafði verið á vegum fógetans svo að til þess ábatasama verks réð hann sem bústjóra son sinn, Gest Jónsson, og tvo aðra lögmenn. Skiptaráðendur kölluðu til endurskoðendur frá N. Mancher undir forystu Valdimars Guðnasonar að rannsaka bókhaldsgögn Hafskips. Skelfilegt ámæli Valdimars í garð stjórnenda og endurskoðanda félagsins, einkum vegna áætlanagerðar og reikningsskila, þar sem öll vafaatriði voru lögð út á sem verstan veg og gerð tortryggileg var aðalpúðrið í skýrslu skiptaráðenda sem send var saksóknara ríkisins 6. maí 1986. Þar segir meðal annars að sjö fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags „kunni að hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi“. Þórður Björnsson ríkissaksóknari sendi málið samstundis áfram til RLR og að morgni 25. maí voru sex menn handteknir og látnir sæta gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsinu næstu vikurnar. Þetta voru þeir Björgólfur forstjóri, Ragnar stjórnarformaður, Páll Bragi Kristjónsson viðskiptafræðingur, sem verið hafði framkvæmdastjóri fjármálasviðs Hafskips til ársloka 1984 en þá gerst forstjóri Skrifstofuvéla hf., Helgi Magnússon viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi Hafskips, Sigurþór Charles Guðmundsson viðskiptafræðingur, aðalbókari Hafskips, og Þórður H. Hilmarsson rekstrarhagfræðingur, forstöðumaður hagdeildar Hafskips. Til stóð að handtaka einn mann til viðbótar, Árna Árnason viðskiptafræðing, fjármálastjóra Hafskips frá 1985, en hann var staddur erlendis. Meðan á gæsluvarðhaldi sexmenninganna stóð loguðu fjölmiðlar af æsifréttum, meðal annars að nú væru þeir farnir að játa á sig hin ýmsu afbrot, sem sjá má af réttarskjölum að eru hrein ósannindi. Yfirmaður RLR var nú kominn í sviðsljósið og fór meðal annars í sjónvarpsviðtal þar sem hann tíundaði afbrotin sem föngunum voru  borin á brýn. Þjóðviljinn hefur eftir honum 23. maí: „Auðgunarbrot sem forráðamenn Hafskips eru grunaðir um nema hundruðum milljóna króna“. Og 5. júní segir  Helgarpósturinn: „Hallvarður Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóri staðfesti í samtali við HP á miðvikudag að rannsókn málsins hefði styrkt enn frekar þær sakargiftir sem ríkissaksóknari óskaði rannsóknar á.“

            Útvegsbankinn varð fyrir allmiklu tjóni þegar klippt var á starfsemi Hafskips og hluti lána tapaðist. Því hefur síðar verið haldið fram að afdrif Hafskips hafi komið sér einkar vel fyrir ýmsa þegar verið var að stokka upp bankakerfið og stofna hinn nýja einkabanka. Alþingi skipaði nefnd undir forsæti Jóns Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns til að fara í saumana á viðskiptum Hafskips og Útvegsbankans. Sú nefnd skilaði í nóvember 1986 skýrslu sem felldi þunga dóma yfir forsvarsmönnum Útvegsbankans. Bankastjórarnir brugðust hart við skýrslunni og bentu meðal annars á að mestallar lántökur Hafskips hefðu farið fram fyrir þeirra tíð í bankanum en gengisþróun og verðfall skipa búið til vandann að verulegu leyti. En allt kom fyrir ekki, þeir voru næstu blórabögglarnir. Hallvarður Einvarðsson, sem skipaður hafði verið ríkissaksóknari árið 1986, gaf út ákærur á hendur 11 mönnum í apríl 1987. Þeir voru forstjóri Hafskips, stjórnarformaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs ásamt endurskoðanda félagsins og auk þess voru ákærðir allir þrír bankastjórar Útvegsbankans, þrír fyrrverandi bankastjórar hans og einn aðstoðarbankastjóri. Örlög þessara ákæra urðu þau að þær voru ómerktar í Hæstarétti í júlí 1987 um leið og Hallvarður var dæmdur vanhæfur sem saksóknari, ekki þó vegna þess að hann hafði áður stýrt rannsókn málsins, eins og hinir ákærðu höfðu bent á, heldur vegna ættartengsla við bankaráðsmann í Útvegsbankanum. Málið dróst því enn á langinn.

            Ákæruvaldið lagði þó ekki upp laupana. Prófessor í refsirétti, Jónatan Þórmundsson, var skipaður sérstakur ríkissaksóknari og gaf hann sér tíma fram í nóvember 1988 til að gefa út ákærur. Nú var mál höfðað gegn sex fyrrverandi starfsmönnum Hafskips og endurskoðanda félagsins en auk þess þremur bankastjórum Útvegsbankans, einum aðstoðarbankastjóra, bankaráðsmönnum og endurskoðanda bankans. Gömlu bankastjórunum var sem sé hlíft en bankaráðsmenn voru settir á sakamannabekk í staðinn. Dómur Sakadóms Reykjavíkur gekk í júlí 1990 og sýknaði 14 af hinum 17 ákærðu, en þrír hlutu dóma; Björgólfur hlaut fimm mánaða fangelsi skilorðsbundið, Páll Bragi tvo mánuði skilorðsbundið og Helgi 100 þúsund króna sekt. Um þessa sýknudóma segir Guðmundur Ingi Sigurðsson hæstaréttarlögmaður 1996: „[Dómarnir] sýna og sanna að þeir sem að ákærunum stóðu voru smitaðir af umræðurótinu um Hafskipsmálið, létu það glepja sér sýn og lentu í lögfræðilegum hafvillum með ákærurnar.”

            Jónatan sagði af sér eftir dóm sakadóms. Ákæruvaldið áfrýjaði dóminum varðandi þá þrjá menn sem dóm hlutu og sýknudóminum yfir Ragnari Kjartanssyni. Páll Arnór Pálsson flutti málið fyrir Hæstarétti sem kvað upp dóm 5. júní 1991, nokkuð þyngri en dóm undirréttar. Þrír hlutu skilorðbundna fangelsisdóma, Björgólfur 12 mánuði, Ragnar fimm mánuði og Páll Bragi tvo mánuði. Sekt Helga var hækkuð í 500 þúsund krónur. Einn hæstaréttardómari skilaði sératkvæði. Hann taldi Björgólf eiga að fá sjö mánuði og að hæfileg refsing Ragnars væri 200 þúsund króna sekt. Þannig urðu lyktir þessa máls. Af sakargiftunum 450 sem ríkissaksóknari lagði af stað með í fyrstu ákærum var aðeins sakfellt fyrir í fimm atriðum í undirrétti og 20 í Hæstarétti. Gamalt, latneskt máltæki segir: „Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús.“