Heimasíða Vigdísar

 

 


  Forsíða
  Fréttir frá Cardiff
  Greinar
  Fjölskylda
  Hver er Vigdís?
  English
  Erfðaráðgjöf
  Skóli
  Myndir
  Heilsutengdar heimsfréttir
  Hlekkir

Velkomin á heimasíðu mína. Hún hefur breyst nokkuð eins og sjá má og allar upplýsingar um sjaldgæfa sjúkdóma og annað sem þeim tengist er nú á www.gen.is. Mig langar til að benda þeim sem vilja fá orðskýringar í erfðafræði og þeim sem vilja fræðast meira um erfðafræði og arfgenga sjúkdóma að skoða Gen.is og Lífvísi. Á Gen.is, bæði undir hlekknum Orðalisti og arfgengir sjúkdómar, er að finna miklar upplýsingar. Sömu upplýsingar eru á kennslu- og upplýsingavefnum Lífvísi. myndir

Það er þó hugsanlegt að eitthvað slæðist hér inn af upplýsingum einnig en þær verða þá líka á Gen.is.

Á þennan vef ætla ég mér að setja inn ýmislegt, segja frá skólanum mínum í Cardiff þar sem ég ætla að læra erfðaráðgjöf næstu tvö árin, halda áfram að hlekkja inn á heilsutengdar heimsfréttir og svo allt annað sem mér dettur í hug. Þetta verður sem sagt e.k. blogg síða án bloggsins.

Lífið er bútasaumur

Mér finnst oft að lífið sé eins og bútasaumur. Tilveran eitt gríðarstórt bútasaumsteppi sem Guð er að sauma og við, hvert og eitt hluti af því. Hver bútur í teppinu er ein manneskja og allir bútarnir tengjast svo saman í risastórt teppi.

Bútarnir eru misjafnir. Sumir eru litlir, sumir stórir. Sumir eru óhemju fallegir, búnir til úr flaueli, með útsaumuðum fjólum og rósum úr gulli og silfri á meðan aðrir eru skítugir og ljótir, götóttir, oft gerðir úr ódýru efni, stundum lánuðu efni eða jafnvel stolnu.

Hver hluti lífs einnar manneskju er enn minni bútur sem er hluti af bútnum hennar. Einn slíkur bútur getur náð yfir langt tímabil eða bara eitt atvik. Stuttan stans í tímanum, atvik sem hefur nógu mikil áhrif til að úr verði einn lítill bútur.

Í gegn um lífið eru bútarnir svo saumaðir saman með skrefunum sem við tökum. Hvert skref er eins og eitt saumspor. Þegar maður horfir í kring um sig og til baka - sér maður sporin sem maður hefur sjálfur saumað en líka spor annarra, þeirra sem nálægt manni eru.

Það má sjá lítil og jöfn spor sem gefa til kynna að lífið hafi verið reglulegt, því hafi ekki fylgt mikið af óvæntum uppákomum eða vandamálum og allt hafi verið undir góðri stjórn. Tvinninn passar við efnið og þegar teppinu lauk, var vandlega gengið frá því með litlum hnút og spottinn falinn.

Það má líka sjá stór og klunnaleg spor sem segja að viðkomandi hafi verið að flýta sér og vonast til þess að teppabúturinn hans tylldi saman, þó svo að hann hefði raunverulega ekki tíma eða þolinmæði til að vanda sig við að sauma það. Nálinni var bara stungið inn og út einhvers staðar og ekkert verið að spá í það hvernig útkoman var.

Svo má sjá skrítnu sporin sem saumuð eru af þeim sem reyna allt hvað þeir geta til að vinna vel en ná því aldrei almennilega. Sporin fara út og suður, allt í kring um bútinn og hitta bara einstöku sinnum á réttan stað. Þráðurinn er af öllum litum og gerðum en passar sjaldnast við efnið.

Og svo eru það slitnu sporin, sporin þar sem allt fór úrskeiðis þegar lífið var ekki þess virði að lifa því en samt sem áður tekst manneskjunni einhvern veginn að taka upp þráðinn og halda áfram að lifa.

Síðast en ekki síst má sjá spor sem búin eru til úr gulli, búin eru til úr sólskini og ást. Þau eru svo létt, glöð og falleg og geisla frá sér gleði og ánægju. Þetta eru sporin sem þeir sauma sem gefa af sjálfum sér, veita án þess að óska eftir endurgjaldi.

Þegar Guð horfir niður til okkar, sér hann alla bútana sem tengjast í eitt stórt teppi. Hann veit að suma þeirra þarf að laga og að sumum verður aldrei fulllokið. Hann veit líka að það eru göt á milli bútanna, göt sem kaldur vindur getur komist inn í gegn um. Þessum götum má oft loka með góðsemi, með ást og skilningi milli fólks og við ættum að gera allt sem við getum til að sjá til þess að teppið haldist heilt.

Vigdís Stefánsdóttir - blaðamaður, vefstjóri og verðandi erfðaráðgjafi.