INNGANGUR

Í þessari ritgerð fjalla ég um tvær hugmyndir manna um umhverfið. Þetta eru hugmyndirnar "Móðir Jörð" og "Gaia" (sem jafnan er talað um sem Gaiakenninguna). Gaiakenningin fjallar um Jörðina sem lífveru (og ég fjalla um hana sem "lífveruna Jörð" jöfnum höndum) á meðan móðir Jörð fjallar (augljóslega) um Jörðina sem móður. Ég ber þessar tvær hugmyndir saman og reyni að átta mig á tengslum milli þeirra. Sumt er augljóst strax í upphafi. Tilurð þeirra, til að mynda, er ólík. Móðir Jörð fyrirfinnst sem arfsögn vítt og breitt um heiminn og hefur þannig gengið mann fram af manni lengst aftan úr myrkri fortíðarinnar (Neumann, 1955, bls. 94). Hún á sér engan þekktan höfund eða upphafspunkt. Gaiakenninguna er hins vegar hægt að rekja til einnar manneskju öðrum fremur, James Lovelock, og tímasetja því sem næst nákvæmlega við framsetningu hennar á áttunda áratugnum (Lovelock, 1979, vii-viii). Félagslegt samhengi þessara tveggja hugmynda er einnig ólíkt. Vettvangurinn sem Gaiakenningin höfðar til er vísindasamfélag "geimaldar" og kemur þar inn sem ögrandi hugmynd. Í gjörólíkum samfélögum, og jafnan "frumstæðari", er arfsögnin um Móður Jörð hins vegar partur af sjálfsögðum og hversdagslegum skilningi manna á umhverfi sínu.  

Ef gengið er út frá að LJ (Lífveran Jörð) sé sama hugmyndin og MJ (Móðir Jörð), þá væri freistandi að reyna að nota mismunandi "viðbrögð" samfélaganna við henni (sem sama áreiti) sem innsýn eða mælistiku á ólíkan hugarheim þeirra. Með öðrum orðum, hægt væri að spyrja sjálfan sig hvað það er í samfélaginu sem gerir það að verkum að hugmyndin blómstrar á einum stað en ekki öðrum? Í raun er mjög auðvelt að halda á þessa braut og álykta sem svo að MJ og LJ séu sama hugmyndin svo lengi sem menn einblína á þá staðreynd að allar mæður eru óumflýjanlega lífverur (og að Jörð vísi í báðum tilvikum í sömu merkingu). Þessi þægilega og hreinlega nálgun gengur út frá hinni módernísku trú að orðin innihaldi merkingu og að hægt sé að flokka og skilgreina alla tilveruna með tungumálinu. Að baki hverju orði sé skýr og ótvírætt skilgeinanleg merking, og þannig feli hugmyndin Móðir Jörð skýrt og greinilega í sér Lífveruna Jörð. Út frá þessu er væri síðan hægt að álykta röklega að um allan heim á öllum tímum hafi menn vitað innst inni, af innsæinu einu saman, það sem við í dag erum að komast að eftir langa vísindalega þrautagöngu. Hér er sem sé haldið fram að forverar okkar á Jörðinni hafi hugsað sér jörðina sem lífveru með sama hætti og gert er í Gaiakenningunni.  

Þessa ályktun gagnrýni ég í ritgerðinni og til þess tek ég upp póstmóderníska nálgun. Ólíkt módernismanum gengur póstmódernisminn út á vantraust á færni tungumálsins til að gera raunveruleikanum skil, vegna þess að heimurinn er í eðli sínu samfella, en orðin afmörkuð og aðgreind. Samsvörunin milli raunveruleikans og tungumálsins er því ekki ótvíræð og skýr, og hver og einn verður að lesa inn í merkingu orðsins að einhverju leyti sjálfur án þess að geta nokkurn tímann verið viss um að næsti maður leggi nákvæmlega sömu merkingu í viðkomandi orð . Orðin sjálf endurspegla því ekki skýrt merkinguna að baki og þvi ekki hægt að ganga að því vísu að sama orðið hafi sömu merkingu í hvert skipti sem það er notað. Merkingin er breytilegri en orðið sjálft, og lesum við út úr henni eftir samhenginu hverju sinni.  
Hugmyndir á borð við LJ og MJ eru því ekki hlutlægur veruleiki sem samfélagið bregst við, heldur verða þær til innan samfélagsins sjálfs og eru afrakstur þess, og því huglægur veruleiki. Þær eru einungis merkingarbærar í samhengi hugmyndaheims samfélagsins.  

Öfugt við módernisma, sem tók því sem gefnu að um sömu hugmynd væri að ræða og að hægt væri að líta á hana sem hlutlægan veruleika, utanaðkomandi "áreiti" sem samfélagið bregst við með þeim hætti sem lýsandi væri fyrir eðli samfélagsins, þá lít ég á samfélögin sem uppsprettu merkingar hugtakanna. Samfélagið er samhengið sem gefur orðunum "Lífvera", "Jörð" og "Móðir" merkingu, og hún er mismunandi eftir því í hvaða samhengi (samfélag, hugmyndaheimur, tími) orðin birtast. Ég skoða því orðin út frá samfélaginu, en ekki öfugt, og sýni í leiðinni fram á að MJ og LJ séu í raun mjög ólíkar hugmyndir að mörgu leyti þó svo þær sannarlega skarist töluvert við fyrstu sýn.  

Hér á eftir verður því hvert hugtak (Jörð, móðir og lífvera) skoðað ásamt mismunandi merkingarmöguleikum þeirra (eftir félagslegu og sögulegu samhengi) og hvernig þeir hafa áhrif á samanburð hugtakanna MJ og LJ.  
  

næsti kafli
yfirlit yfir kaflana