LÍFVERUHUGTAKIÐ


Það liggur beinast við að skoða skilgreiningu lífveruhugtaksins, fremur en móðurhugtaksins, í framhaldi af afmörkun Jarðarhugtaksins því þar var þegar óhjákvæmilega ýjað að skilgreiningu lífvera. Er endimörk lífveru og upphaf plánetu voru gerð óljós var í raun opnaður sá möguleiki síðar meir að líta á plánetuna sem útvíkkun á lífveru, því efnislega er munurinn hverfandi. 

Efnasamsetning hlutanna, gerð þeirra og uppbygging, er því ekki endanlegur mælikvarði á lífverur. Kannski vorum við of upptekin af því að afmarka hugtakið "Jörð" til að taka eftir því að lífveruhugtakið er allt annars eðlis og skilgreinist best með öðrum hætti. Með afmörkun situr maður óhjákvæmilega upp með hlut, efnislegt fyrirbæri (sem á vel við um sérnafn, eitthvað einstakt og aðgreinanlegt). Þegar skilgreina skal samheiti (eins og "Lífveru" eða "móður") eiga önnur vinnubrögð betur við, því um er að ræða mynstur af einkennum sem að endurtaka sig í gegnum einstaklinga af sömu gerð. Þá er ekki hægt að afmarka, - aðeins lýsa, og í því felst eðli, dýnamík, hreyfing og athöfn fremur en staðsetning og efnagreining. Það er því auðveldara að ná tökum á viðfangsefninu ef við færum okkur lengra inn á svið lýsingarorða og sagnorða, fremur en nafnorða, og tölum um hið lífræna, fremur en lífverur, og tökum í leiðinni upp dýnamíska skilgreiningu á lífverum sem byggjast á efnaferli í stað statískrar skilgreiningar . Ég geng út frá því að lífið sé ekki svo mikið fólgið í efninu sjálfu, heldur er það eitthvað óefnislegt, ferli, sem meðhöndlar efnið , eða, með öðrum orðum, að lífið ætti að túlka með sagnorði fremur en nafnorði, eins og Lynn Margulis, náinn samstarfsmaður James Lovelock, orðaði það. 

Við verðum alls staðar vör við þetta ferli, eða skipulag, sem myndar hringrás efnisins, enda kemur í ljós að hvar sem við finnum hringferli (eða kvikt jafnvægi, í stað kyrrstæðs jafnvægis) getum við verið viss um að þar hafi lífið komið við sögu (Lovelock, 1988, bls. 18). Nákvæmlega þetta veitti Lovelock innblásturinn að Gaiakenningunni. Hann hafði tekið þátt í hönnun rannsóknarbúnaðar er kanna skyldi líf á Mars. Áður en að því kom að búnaðurinn sendi skilaboð til Jarðar var Lovelock sannfærður um að plánetan gæti ekki borið líf. Þaðan sem hann virti plánetuna fyrir sér af Jörðinni virtist hún honum ekki lifandi með sama hætti og Jörðin. 

Til að sjá pláneturnar með augum Lovelocks þurfum við að bera lofhjúp þeirra saman. Á systkinaplánetum Jarðar, Venusi og Mars, er lofthjúpurinn efnafræðilega kyrrstæður, "dauður" (Lovelock, 1988, bls. 5-6) . Þar fyrirfinnast ekki hringrásir efnisins á borð við þær sem við þekkjum úr eigin veðrahvolfi. Hringrásirnar (eða skortur á þeim) er jafnframt lykillinn að öðrum meginmun á lofthjúpi Jarðar og systkinaplánetanna tveggja, því efnasamsetning lofthjúps þeirra verður fyrir beinum áhrifum af hinum ólíku efnaskiptum. Á Venusi og Mars eru súrefnisatóm læst í efnasamband við kolefni, og myndar þar með koltvísýring (CO2). Hann er meginuppistaða lofthjúps plánetanna beggja, sem 95% allra efnasambanda er þar fyrirfinnast. Súrefni er því lítill hluti alls loftmassans, og er reyndar aðeins sem snefilefni í báðum tilfellum (undir einu prósenti). Vægi þessara tveggja lofttegunda er hins vegar nokkurn veginn öfugt á Jörðinni. Súrefni er ríkulegur hluti lofthjúps Jarðar (í hlutföllunum 21 á móti 100), en koltvísýringur er hins vegar orðið snefilefni. Ef tekið er tillit til þess hve hvarfgjarnt súrefni er (og hefur því sterka innbyggða tilhneigingu til að bindast öðrum frumefnum og mynda efnasambönd á borð við CO2) hljótum við að sjá lofthjúp Venusar og Mars sem eðlilega framvindu efnisins. Súrefni er eðlilegt að leita að samfloti við önnur frumefni og helst í því ástandi nema til komi einhver utanaðkomandi kraftur er slítur það úr sinni "kyrrstæðu ró". Þessi utanaðkomandi kraftur, sem er efninu sjálfu óeiginlegur, er það sem við leitumst við að skýra út er við virðum fyrir okkur kraftmikinn lofthjúp Jarðar. Krafturinn sem "ræðst á" súrefnisatóm þar sem þau hafa komið sér "makindalega" fyrir í "félagi" við önnur atóm, og "fleygir" þeim "út á götuna", og skilur þau eftir "villuráfandi" í leita að leiðinni aftur "heim", er það sem gerir Jörðina svo síkvika og ólgandi sem hún er í dag . 

Lífið gefur hverjum efnismassa sérstöðu gagnvart dauðum efnismassa. Líkamar lífvera greinast því jafn skýrt frá dauðum efnismassa og Jörðin frá systkinaplánetum sínum. "Sérhver lífvana eða dauður hlutur á jörðinni leysist fyrr eða síðar sundur og verður að dufti fyrir tímans tönn. En lifandi verur komast hjá þessum örlögum með efnaskiptum og sjálfsviðhaldi....lifandi efni, þótt lint sé og mjúkt viðkomu, er raunar sterkara hinu sterkasta stáli, mun endingarbetra en harðasta berg" (Weisz, 1961, bls. 23).  

Lífverur vinna því gegn hverfulleik sínum með stöðugum efnaskiptum. Það krefst viss atferlis af þeim sem þykir einkenna þær öðru fremur. Þær þurfa að stunda næringarnám, til að fá orku til að hreyfast, en hreyfing er bæði afrakstur næringarnáms og skilyrði fyrir frekara næringarnámi. Í næringarnámi er að sama skapi fólgið efnisnám sem nýtist til endurnýjunar á gömlum vefjum líkamans, eða til vaxtar. Við endurnýjun gamalla vefja er öðrum úrsérgengnum ýtt úr vegi, og lýsir það sér í úrgangsskilun. Enginn lokapunktur eða upphafspunktur fyrirfinnst í þessu ferli því allt er þetta orsök og afleiðing hvers annars og teygir sig handan við líf einstaklingsins, því við dauða hans flyst hringrásin áfram er einstaklingurinn getur af sér annan í sömu mynd. Það ferli, æxlun (kynæxlun eða kynlaus) er jafnframt eitt af helstu einkennum lífvera (Roberts, 1981, bls.6-8: P.B.Weisz, 1973, bls.19-24). 

Þegar leita skal lífs á öðrum plánetum (eða einfaldlega skilgreina lífverur, eins og hér) er því rétt að beina sjónum sínum frá því "formi" lífvera sem við erum vön, eða efnasamsetningu, og leita þess í stað að efnaskiptum og sjálfsviðhaldi, yngingarmættinum sem kemur í veg fyrir að orkan fjari úr efninu (Lovelock, 1979, bls. 2; Weisz, 1961, bls. 24). Um þetta hefur Lovelock haft að orði að "það sem helst einkennir líf er færni þess til að vinna gegn tímans tönn"
 
 
 

næsti kafli