MISTÚLKUN GAIAKENNINGARINNAR.


Eins og ljóst er að ofan gerðu kenningafrömuðir félagsvísindanna sér fyllilega grein fyrir því að samfélagið væri ekki lífvera, heldur einungis að vissir eiginleikar samfélagsins væru líkir eiginleikum lífvera, og að notast mætti við þessa samlíkingu sem skýringarmódel. Slík módel voru hjálplegt hugargagn, því oft var glímt við óljós og óhlutbundin fyrirbæri. Losaralegur hugtakaheimur hefur því alltaf verið landlægur innan félagsvísindanna, og menn því vanir að takast á við myndlíkingar og huglæg orð. Vettvangur Gaia kenningarinnar, vísindaheimurinn, er hins vegar mun "ferkantaðri". Það skýrir líklega hvers vegna henni var tekið nokkuð bókstaflega, sem kenningu. Plánetan þurfti einfaldlega að gangast undir próf hinna skilgreinandi þátta, og féll á því prófi. Einblínt var á þau atriði sem myndlíkingin skýrði ekki út, og hún þar með "afsönnuð" með vísindalegum hætti. Vissulega spanna vísindamenn allan skala þess að taka mark á henni eða hafna henni alveg, en það fer allt eftir því hversu reiðubúnir þeir eru til að notast við myndlíkingar sér til hjálpar. 

Á meðan Gaiahugmyndinni var ýmist hafnað af vísindamönnum sem kenningu, eða tekið sem myndlíkingu og þannig fagnað, tók meginþorri almennings öðruvísi við hugmyndinni: Henni var fagnað, sem kenningu. Ástæðuna má rekja til stöðu vísindanna innan samfélagsins þar sem þau eru ráðandi kennivald. Það sem þaðan berst er túlkað sem sannleikur. Þegar auðskiljanlegar kenningar eru settar fram breiðast þær fljótt út meðal leikmanna vegna þess trausts sem borið er til vísindanna. Gaiakenningin er einföld kenning að því leyti að auðvelt er að skilja út á hvað hún gengur í grófum dráttum án þess að farið sé út í flókin smáatriði. Einmitt þetta veldur þeirri útbreiddu rangtúlkun að "Jörðin sem lífvera" sé kenning, því aðeins á dýpri og flóknari stigum hugmyndarinnar kemur í ljós að hér getur aðeins verið um myndhverfingu að ræða. En einfalda útgáfan breiðist vitaskuld hraðar út en útskýringin, svo að erfitt er að hindra frekari útbreiðslu ranghugmyndarinnar. 

Þessi fljótfærni, eða grunnhyggni, segir þó aðeins hálfa söguna. Mest áberandi málsvarar Gaiahugmyndarinnar á almennum vettvangi eru þeir aðilar sem beinlínis er akkur í að túlka myndlíkinguna sem kenningu (óháð því hvort þeir trúi því sjálfir), því myndhverfingin fellur vel að hugmyndaheimi þeirra og lífsskoðun. Ef þeir ná að bendla hugmyndir sínar við vísindi veitir það þeim visst kennivald því þá tala þeir undir fána vísindanna, mælikvarða allra helstu sanninda. Viðkomandi hagsmunaaðilar Gaiahugmyndarinnar fyrirfinnast í öllum hornum þjóðfélagsins, og ekki endilega sem afmarkaðir hópar heldur sem fólk með tilteknar hugmyndir og skoðanir. Til einföldunar vil ég hins vegar skipta þeim í tvo hópa: Nýaldarsinna og náttúruverndarsinna. 

Nýaldarsinnar telja sig hafa séð í gegnum velmegunarkapphlaup, efnalegt strið og firringu samfélagsins, og leita að raunverulegum lífsgæðum óháð efnalegri velmegun. Þeir boða fegurðina í einfaldleika lífsins, að hamingjan sé hér og nú. Virðingin gagnvart hinu smáa er jafnframt virðingin gagnvart hinu stóra, því allt er þetta af sama meiði. Lífsins sannindi felast ekki í magninu heldur fyrst og fremst gæðunum, eðli hlutanna sem endurtekur sig á öllum þrepum stærðarskalans. Virðingin fyrir lífinu allt í kring, er jafnframt virðing gagnvart okkur sjálfum, því af umhverfi okkar erum við sem endurómur (Capra, 1975, bls.131). Augljóslega passar Gaiakenningin vel inn í heimsmynd viðkomandi fólks því með henni er einfaldlega verið að undirstrika hvernig hið smáa endurtekur sig í hinu stóra (Lovelock, 1979, bls. 40), og að umhverfi okkar sé heilagt vegna þess að það eigi sér heildræna tilvist, og ætti ekki að vera bútað sundur ómaklega, hvorki í hugsun né verki. (Schumacher, 1973, bls. 90). 

Gaiakenningin nýtist náttúruverndarsinnum með áþekkum hætti og hún varð hugsjónum nýaldasinna stuðningur. Í náttúruvernd er sú kenning að Jörðin sé lífvera sem vopn, því í henni er fólginn siðferðislegur máttur . Með henni er hægt að gagnrýna tillitslausa spillingu mannkyns á umhverfi sínu á þeim sömu forsendum og móta atferli okkar hvert við annað, vegna þess að Jörðin, sem lífvera, er vitundarvera. Sú ályktun stenst óhjákvæmilega, því í heimsmynd okkar er vaxandi vitundarlíf samfara aukinni stærð og margbreytileika. Gaiakenningin gefur baráttu þeirra því hvassan siðferðislegan brodd. Hægt er, með öðrum orðum, að höfða til mun sterkari kennda almennings, til tilfinninga þeirra og réttlætiskenndar, í stað abstrakt skilnings á vistfræðilegu samspili lífríkisins (Roszak, 1992, bls.38). 

Í samfélaginu endurómar því Gaiahugmyndin sem kenning í ýmsum myndum og fær því á sig ýmsar hliðarmerkingar (tilfinningarsemi, nýaldardraumórar) sem eru hörðum vísindum ósamboðin. Hugsanlega verður þetta til þess að sveigja vísindamönnum í afstöðu sinni gegn Gaiahugmyndinni, fremur en hið gagnstæða. 
 
 
 

næsti kafli