GAIA OG MÓÐIR JÖRÐ


Þjóðsögurnar stinga því í stúf við hugmynd Lovelocks um Gaia. Hvort tveggja er myndlíking, en á meðan önnur er líkamleg, er hin andlegs eðlis. Gaiakenningin líkir efnislegum eiginleikum Jarðar við efnislega eiginleika lífvera, og sér skýrt samræmi milli hringrásar og samvirkni aðgreindra efnisþátta. Andleg hlið lífverunnar liggur þar augsýnilega á milli hluta. Í goðsögunni um Móður Jörð er þessu hins vegar öfugt farið. Þar er lífverueiginleikum móður ekki líkt við Jörðina, heldur er það skapgerðin og tilfinningalíf (eins og umhyggja frjósemisgyðjunnar) sem skýringarmódelið byggist á. 

Þessar ólíku myndlíkingar, sem skýringar á sömu náttúrufyrirbrigðum, er vert að skoða saman í einni heildarmynd. Þar sem Gaiakenningin stendur nær þeirri heimsmynd sem vesturlandabúar búa við, og byggir á vélrænu módeli, er hægara að skoða hana fyrst og útskýra Móður Jörð síðar meir út frá þeirri heimsmynd. 

Jörðin, rétt eins og líkamar lífvera og samfélög manna, er þróttmeiri eftir því sem samvirkni innri þátta er margslungnari og sérhæfðari (Bohannan, 1993, bls. 26). Auknu lífmagni Jarðar má því líkja við heilsu lífveru (Lovelock, 1991, bls.154). Aukið líf á plánetunni gerir hana virkari og þróttmeiri, því þar sem meira samspil er á milli lífvera, þeim mun meira þurfa þær að sérhæfa sig til að komast hjá átökum í vist sinni. Fjölbreytileiki lífvera verður því meiri, sem aftur gerir "lífmassann" í heild færari um að mæta hvers kyns skakkaföllum . En einstakar tegundir hagnast einnig á þessu nána samspili, því stöðug samkeppni við aðrar tegundir, og knöpp vist, snurfusar hverjar dýrategund. Samspilið virkar því sem leiðréttingabúnaður innan tegundanna. Gott er að líta á samvirkni rándýrs og bráðar þess, þessu til stuðnings. Jafnvel í þeim tilvikum þegar um hreint afrán er að ræða má svo líta á að verið sé að tína burt lökustu einstaklinga stofnsins og þar með að snyrta hann til. Þeir sem eftir standa eru að jafnaði kjarnmeiri einstaklingar sem skila af sér sterkari kynslóð, þökk sé rándýrinu. Því meira samspil sem er á milli lífvera, því meiri samverkan verður á milli, sem verður til þess að magna upp lífsþrótt Jarðar stig af stigi, og gera plánetuna sífellt lífvænlegri og "heilsubetri". Ekki er svo að skilja að lífverur Jarðar séu allar meðvitaðar um þennan "æðri tilgang". Síður en svo. Í raun er þeirra eigin viðgangur það eina sem leiðir þær áfram kynslóð fram af kynslóð. Fuglarnir borða ekki ber í þeim tilgangi að dreifa fræjunum yfir landið, heldur vegna sætleika berjanna og næringarinnar sem af þeim hlýst. Berið þarf eitt, og fuglinn annað. Vegna þess hve hægfara allar breytingar eru, og hve stöðugt samspil og samkeppni er á milli þeirra, ná lífverur með þessum hætti að laga sig hver að annarri (Lovelock, 31-33). 

Með sama hætti og neyðin kennir nakinni konu að spinna, knýr sjálfsbjargarviðleitni tegundanna þær til að laga sig að öllum hugsanlegum aðstæðum, ef þær aðeins fá til þess tóm. Þær finnast því nánast alls staðar sem hugsast getur og laga sig jafnframt hver að annarri þannig að þörf einnar lífveru er samrýmanleg þörf annarrar. Náttúran sér því, óeiginlega, til þess að samstilla þarfir tegundanna, gera þær innbyrðis háðar, og mynda þar með hringverkan sem starfar nær sjálfstætt. Við það að ein lífverutegund stuðli að eigin velferð, stuðlar hún óbeint að framþróun (ef ekki velferð) annarrar lífverutegundar. Þetta mætti kalla samstillingaráhrif Jarðar. Ef horft er á Jörðina utan frá koma þessi samstillingaráhrif í ljós við samverkan hinna fjölmörgu vistkerfa, er líkist samspili líffæra í líkama hverrar lífveru. 

Þá erum við aftur komnir til baka til að skoða goðsöguna um "móður Jörð", því hún er afsprengi samstillingaráhrifa Jarðar er verka eins og hulin hönd og stýrir lífverum inn á lífvænlega braut (fyrir Jörðina). Fari einstaklingar út fyrir vist tegundarinnar, út úr samstilltu kerfinu, mæta þeir meira harðræði en annars. Þessu finnur maðurinn fyrir, rétt eins og aðrar skepnur Jarðar. Hann er búinn að læra á umhverfi sitt og veit hvar og hvernig nálgast skal fæðu og skjól undan veðri og vindum. Þetta er greypt í venjur (og styrkt enn frekar með goðsögum). Fari maðurinn út fyrir vist sína (sem mætti orða sem svo að hann brjóti í bága við hefðir samfélagsins og hegði sér ekki í samræmi við goðsagnirnar), til dæmis á nýjar veiðislóðir, eða fari annan göngustíg, eða ferðist um á öðrum tíma, þá er hann kominn út fyrir sitt afmarkaða umdæmi. Umhverfið verður óáreiðanlegra, og jafnvel óöruggt. 

Maðurinn í umhverfi sínu skynjar þetta sambland gnægða og óöryggis. Jörðin "verðlaunar" ríkulega þeim sem halda sig á sínum stað "í kerfinu" en refsar að jafnaði grimmilega þeim sem leita þar út fyrir. Þetta ljær því ímynd umverfisins hvort tveggja í senn góðvilja og miskunnarlausan blæ. Fyrir vikið fara tvær sögur af þeim kröftum sem ríkja í umhverfinu, því þeir sjá fyrir mat og öryggi (og líkjast því verndarhendi og hlýju móðureðlisins) en bregðast jafnframt hastarlega við (eins og föðurlegur uppalandi). Til að auðvelda komandi kynslóðum hina erfiðu lífsbaráttu er einstigi hinnar knöppu vistar mannsins fetað með hjálp goðsagna af öllum toga (Lovelock, 1991, bls.212). 
 
 
 

næsti kafli