SAMANTEKT

Gaiakenningin og goðsagan um móður jörð hafa meiri dýpt þegar staldrað er við og skyggnst að baki hugmyndunum tveimur. Þær eru ekki samheiti, því Jörð er líkt á ólíkan hátt við lífveru og við móður. Myndhverfing og póstmódernismi eru lykilhugtök ritgerðarinnar. Póstmódernisminn gerir okkur kleift að líta á hvert orð sem hyldýpi af merkingarlegum blæbrigðum sem aðeins er hægt að ákvarða út frá samhengi hverju sinni, og með hjálp myndhverfinga gerum við okkur jafnframt grein fyrir því að sú merking sem um ræðir hverju sinni er aðeins yfirfærð að hluta til yfir á næsta hugtak. Óneitanlega lítum við því tengslin milli Gaiahugmyndar-innar og goðsögunnar öðrum augum en þegar gengið er út frá því sem sjálfgefnu að hvert orð innihaldi aðeins eina merkingu og að sú merking sé yfirfærð í heilu lagi upp á næsta hugtak. Það sem við sitjum uppi með er Jarðarhugtak sem er ólíkt milli hugmyndanna tveggja. Þar að auki á lífveruhugtakið fátt skylt með því móðurhugtaki sem yfirfært er á þessi annars ólíku Jarðarhugtök. Þessi gerólíka niðurstaða er afsprengi þeirrar djúpu gjár sem liggur á milli módernískrar trúar á mátt tungumálsins og póstmódernismans er beinir sjónum okkar að skilningnum handan og milli orðanna.