Merkúr
(nakta plánetan)

Merkúr er minnst innri plánetnanna, og hún er jafnframt næst sólinni.  Hægt er að kalla hana "nöktu plánetuna" vegna þess að hún er eina plánetan sem við þekkjum sem ekki er með neinn lofthjúp.  Kannski er það vegna þess hve hún er lítil, því litlar plánetur eins og Merkúr hafa lítið þyngdarafl og geta ekki haldið almennilega í loftið í kringum sig.  Það bara gufar upp og hverfur út í geim.  Merkúr er nefnilega ekki mikið stærri en tunglið okkar. Þvermál hennar er um það bil einn þriðji af þvermáli Jarðar. Þennan dverg skortir því tilfinnanlega lofthjúp, og það sést á yfirborði plánetunnar, sem er alsett gígum.  Án lofthjúps er Merkúr varnarlaus gagnvart loftsteinum.

Skortur á lofthjúpi hefur víðtækari áhrif á plánetuna, því eitt hlutverk lofthjúpa er að jafna út hitastig (með blásandi vindum).  Fyrir vikið verður hitastigið á Merkúr mjög öfgakennt.  Sólarmegin á verður gífurlegur hiti (allt upp í 400 gráður) en skuggamegin er beinlínis kalt (jafnvel undir frostmarki).  Það er því gjörsamlega útilokað að nokkur lífvera í þeirri mynd sem við þekkjum þær geti þrifist á Merkúr.
 

Nálægð við sólina veldur því líka að Merkúr þarf ekki að fara eins stóran hringu kringum sólina og hinar pláneturnar.  Það tekur Merkúr aðeins 88 daga að fara í kringum sólina.  Hún fer því rúmlega fjórum sinnum í kringum sólina á meðan Jörðin fer einu sinni.  Það undarlegasta er þó að Merkúr snýst í kringum sjálfa sig einu sinni á 59 "Jarðdögum".  Árið á Merkúr er því ekki nema einn og hálfur dagur, ef við mælum þetta í Merkúrdögum!

Merkúr er lítil pláneta, sem hefur ekki einu sinni lofthjúp.  Það segir sig því sjálft að það fara engin fylgitungl kringum hana.  Hún er hrjóstrug, nakin og ein í nánd við brennandi sólina.
 
 
Til upprifjunar:
1. Að hvaða leyti er Merkúr lík tunglinu?
2. Hvað er Merkúr stór?
3. Hvað tekur það Merkúr langan tíma að fara í kringum sólina?
4. Hvað er dagurinn langur á Merkúr?
5. Hvað er heitt á Merkúr, og af hverju einkennist hitastigið?
6. Af hverju er ekki lofthjúpur á Merkúr?



Til baka á aðalsíðu