Leiðin að kökuhlaðborðinu
….og heim aftur  eftir Magnús Bergsson   2. hluti

Sólin skein inn um gluggann á andlit mitt þegar ég vaknaði. Enn var töluverður vindur af suðvestri. Öll vötn og pollar voru gruggugir eftir öldurótið. Skuggar skýjanna runnu hratt eftir landslaginu. Þó mikið heyrðist í vindinum var yfir staðnum djúp þögn. Hugur minn var afslappaður og í úthvíldu sæluástandi. Ég var einn með sjálfum mér, frjáls úti í þessari yndislegu íslensku náttúru. Þvílík forréttindi að geta átt svona stundir. Þarna var ég kominn í það ástand sem mér er svo mikilvægt.  Ég hefði kannski ekki átt að fara með tvíburunum í upphafi ferðalagsins. Þó þeir séu ágætir þá er það tvenns konar upplifun; að ferðast einn í náttúrunni eða með fólki. Ég var vanur því að komast í þetta ástand á minni ástkæru Arnarvatnsheiði en það hafði eitthvað misfarist í þetta skiptið.
Framundan var mýri sem ég þurfti að fara yfir til að komast á slóð sem lá niður í Skagafjörðinn um Gilhagadal. Á þessari leið kom ég að varðaðri reiðleið, sem á gömlu landakortunum heitir Skagfirðingavegur og tengist Kjalvegi hinum forna. Var þetta fjölfarin leið milli Skagafjarðar og Suðurlands og vestur á Arnarvatnsheiði. Er leiðin vel vörðuð frá Mælifellsdal í norðri til Hvítárness í suðri. Stakar vörður hef ég svo séð á Arnarvatnsheiði.
Eftir að hafa vaðið Bugakvísl upp í klof tók ég stefnu upp á Litlasand og Háheiði þar til komið var í Vatnafellsflóa efst í Gilhagadal. Örlitlu neðar steyptist slóðin niður í þröngan, velgróin  dal sem kallaður er Írafellsdalur. Mikið var um sauðfé sem tók á rás í allar áttir.  Spói kom fljúgandi þar að og gekk í humátt á eftir mér. Hann virtist ekki vera vitund hræddur við þessa hjólandi mannófreskju því ekki gaf hann frá sér nein hljóð heldur einfaldlega hljóp á eftir og umhverfis mig.
 Ég settist niður og hlustaði á kyrrðina. Þarna í dalnum var stafalogn. Nokkrum sinnum þurfti ég að vaða lítinn læk sem rann um dalinn og heitir Flóalækur og þegar ég nálgaðist bæinn Gilhaga ákvað ég að setjast niður og bryðja nesti og drekka kaffi. Ég vissi að um leið og ég tæki stefnuna upp Vesturdal myndi ég fá mótvind. Klukkan var að verða fimm síðdegis og vonaðist ég til að vind lægði með kvöldinu. Nú tók við sterk lykt af slegnu grasi, hestum, kúm og kindum í bland við daufa olíulykt frá sumum bæjum. Þessi lykt tók svo hins vegar að dofna því ofar dró í Vesturdalnum og lykt af lyngi var orðin allsráðandi þegar komið var að Þorljótsstöðum. Sá bær er nú að mestu leyti tóftir en þar stendur lika gangnamannakofi sem er nærri of fínn og þrifalegur til að geta kallast slíkt. Að vanda sem svo oft áður á þessari leið, dró ég fram prímusinn og eldaði mér þurrmat og skar niður bjúga sem ég átti en var farið að súrna.
Ég var vart sestur að snæðingi þegar þungar drunur heyrðust ofan úr hlíðum Giljamúla. Kom þar niður eftir veginum heilt stóð af fokdýru, gljáfægðu jeppastóði. Andskotinn og þeir ætla að stoppa hér,  hugsaði ég um leið og ég sletti afrakstri eldamennskunnar í andlitið á mér. Bílarnir flæddu um stallinn ofan við bæinn og út streymdu öskrandi krakkar og skipandi foreldrar. Þvílikur hávaði, þetta var eins og að fá lélega flugeldasýningu hér úti í guðs grænni náttúrunni. Ég góndi á útidyrahurðina um leið og ég uppgötvaði að súr bjúgu eru ekki svo slæm ef maður notar góðan skammt af chili kryddi. Þessi hurð skellur upp eftir 6 sekúndur, hugsaði ég.  Ég heyrði að það var vandræðalegt ástand fyrir utan þegar þau sáu hjólið. 1-2-3-4-5 – og hurðin opnaðist. Úti stóð undrandi kvennmaður. ,,Góða kvöldið…,er þetta einkaeign?” ,, Góða kvöldið, já einkaeign að því leyti að þetta er gangnamannaskáli.” Nú birtust fleiri andlit. ,,Þetta er Íslendingur á hjóli. Vinnur þú ekki á hjólreiðaverkstæði?”  ,,Nei bróðir minn gerði það.” ,,Fjári eruð þið líkir en er ekki erfitt að hjóla svona?” Eftir að hafa þulið þuluna um ágæti hjólreiða og af ferðum mínum kvöddu þau og smöluðu saman hávaðasömum afkæmum og geystust því næst til byggða. 3 mínútum síðar var aftur komin á þögn. Púff, þvílik sæla.
Nú tók við mikið klifur upp á Giljamúla. Ég notaði því tækifærið og teygði á vöðvum og  sinum um leið og ég teymdi hjólið upp bratta hlíðina. Vind hafði lægt  þegar ég kom upp á brúnina og stefndi inn á Hofsafrétt. Á hægri hönd mátti heyra þungan vatnsnið og sjá tignarlega fossana í Fossá sem steyptist niður í þröng gljúfur í Vesturdal og niður í Hofsá.  En það var lika farið að skyggja svo sól átti ekki mikið eftir til að hverfa bak við ský og sjóndeildarhring. Vegurinn var lika mjög góður og geystist hjólið áfram á fremur flötu landslaginu, fram hjá tjörnum og hólum uns komið var að Austari Jökulsá. Þar áhvað ég að slá upp tjaldi í hæfilegri fjarlægð frá veginum. Ég var greinilega komin á mjög þurrt svæði því sá litli gróður og mosi sem þarna var brakaði undan fótum mínum.
Næsta morgun vaknaði ég við steikjandi sólarhitann í tjaldinu. Úti var sól og hiti. Hofsjökull var skítugur og á honum var vart hægt að sjá fannir frá síðasta vetri. Fyrir utan óþefinn af sjálfum mér angaði umhverfið af þurru grjóti. Það ríkti dauðaþögn nema heyra mátti daufan vatnsnið í flúðum Jökulsár sem var þar skammt frá. Það heyrðist ekki í einum einasta fugli og það sem hafði komið mér skemmtilega á óvart var að ekki hafði ég orðið var við bíl frá því kvöldinu áður. Þar kom skýringin á því hvers vegna vegurinn var svona góður. En mig fór að gruna að vaðið yfir Hnjúkakvísl væri hugsanlega ekki fært nema stærstu bílum. Það eina sem ég mundi af því vaði var að seinast þegar ég fór það átti ég í erfiðleikum með að vaða það vegna vatnavaxta.
Ég raðaði í mig nokkrum brauðsneiðum og hugðist elda eitthvað gott við Laugafell. Hitinn var mikill, því sem næst 20 stig í forsælu, það var því svalandi að vaða Strangarlæk. Stuttu síðar kom ég að Hnjúkakvísl. Töluvert vatn var í henni svo ég gaf mér tíma til að leita að góðu vaði. Það reyndist hins vegar skársti staðurinn að fara eftir brotinu á bílavaðinu þar sem ekki var mikið um stóra steina. Þegar komið var að Laugafelli þurfti bara að vaða Laugakvíslina og meira að segja var næstum hægt að tipla yfir hana á steinum.
Ég skellti mér í laugina enda ekki vanþörf á. Skrokkurinn angaði af eitruðum vessum hinnar stressuðu Sódómu og var því ekki seinna vænna en að skola burtu þeim skít. Ekki vildi ég nota sápu eða sampó þarna úti í náttúrunni svo það var lítið annað að gera en að nudda skrokk og höfuð undir vatnsyfirborðinu við útfallið á lauginni.
Þegar ég  ætlaði að fara elda mat heyrði ég að hjólreiðamaður sem kom þar að talaði íslensku við Ingu landvörð. Var þar kominn maður úr Reykjavík sem hafði lent í ýmsum hrakningum á Suðurlandi, ausandi rigningu og hávaða roki og hafði hann komið frá Nýjadal þennan mánudag. Það mátti sjá í svip hans að hann var þreyttur og var hann skömmu síðar búinn að tjalda og koma sér fyrir norðan við landvarðarkofann. Ég eldaði þurrmat. Ég gat gert mér veislu því ég hugðist fara til Akureyrar þennan dag og versla í matinn næsta morgun. Á matseðlinum var kjúklingakássa í karrí, hrísgrjónum og núðlum. Í eftirrétt var rótsterkt kaffi með súkkulaðikexi og síðan meira kaffi.
Klukkan var orðin fjögur þegar ég ákvaðað leggja í hann norður og niður í Eyjafjörð. Vindur var nú lika orðin ákveðinn af  suðri og fékk ég meðvind upp á Geldingaárdrög. Vegurinn var fremur slæmur og sums staðar hristu þvottabrettin af manni allar flær. En þegar komið var að drögum Eyjafarðarár þá blasti við manni efsti og innsti hluti Eyjafjarðar. Þetta er stórkostlegur staður. Mikið um stórgrýti og af þeim sökum er allt umhverfið stórbrotið. Það sem helst sker í augun og skemmir þá upplifun er bílvegurinn sem hannaður er af jarðýtu sem farið hefur hamförum um svæðið og svo leiðinda ísmælingastaurar sem eru þarna á vegum Landsvirkjunar eða RARIK. Að þessu undanskildu þá hefur þessi leið alla tíð verið sú besta og skemmtilegasta til og frá  Akureyri. Þarna við veginn er fjöldinn allur af tærum uppsprettum með því besta vatni sem ég fundið á landi hér. Þarna er vel þess virði að fylla á alla brúsa og teyga vatn sem mest maður má. Sumar brekkurnar eru brattar  og getur því verð varasamt að láta þyngdaraflið eitt setja manni hraðamörk. Það er heldur ekki gáfulegt að láta þennan þrönga og djúpa dal fram hjá sér fara með einhverri gandreið. Við skulum láta bílapakkið eitt um það.
Það var einkar athyglisvert að finna lyktina sem breyttist úr sterkri grjótlykt efst í drögum Eyjafjarðar yfir í lynglykt, síðan lykt af slegnu og óslegnu grasi sem síðar blandast lykt af húsdýrum og óþef af bílum og malbiki. Töluvert var um jeppa sem geystust þarna upp og niður og var því erfitt að njóta ferðarinar eins og ég vonaðist til. Ég tók eftir því að eitthvað minna var í lækjum og gat ég sem dæmi tiplað á steinum yfir læki sem ég hafði á árum áður þurft að vaða. Það var því ljóst  þurrkur hafði verið á þessu svæði.
Žegar ég kom aš innsta bę Eyjafjaršar, Hólsgerši, var klukkan aš verša 21:00. Hugšist ég koma viš aš Steinhólaskįla žar sem ég hafši áður sest nišur og fengiš mér kaffisopa og annað smáræði. Ég einfaldlega hentist út dalinn því það var nánast hávaðarok af suðri. Ég staldraði við Hóla af gömlum vana. Þessi staður var sífellt að grotna meira og meira niður og var torfbærin því sem næst að verða að engu og önnur hús virtust líka bíða þess að verða jöfnuð við jörðu. Þarna var búið að gera gríðarstórt bílaplan og virtist það vera það eina sem gert hafði verið við þennan stað, fyrir utan kirkjuna sem að vanda veður ætíð í peningum. Ég gat ekki annað en verið hneykslaður og hélt því áfram.
Skömmu sķšar kom ég aš Steinhólaskįla en þar var búið að negla fyrir glugga og setja upp skilti sem á stóð TIL SÖLU. Árans  ástand,  hugsaði ég. Eftir því sem vegirnir batna og umferðin eykst þá  loka þessir staðir. Ef þessi staður hefði auglýst “Drive Inn Sjoppu” og bílapakkið gæti verslað í sinni vélrænu alsælu án þess að yfirgefa bílinn, þá væri líklegt að þessi staður væri enn í rekstri. Það er líka önnur hlið á þessu. Steinhólaskįli stendur ekki vestanmegin við Eyjafjarðará þar sem umferðin er meiri. En það var einmitt þess vegna sem ég var vanur að hjóla austanmegin þegar ég fer þessa leið. Ég fæ því að syrgja þennan griðarstað sem svo marga aðra sem þjónað hafa hjólafólki fram að þessu. Þeim fækkar óðfluga með bílvæðingunni.
Nú var lítið annað en að reyna að ná Söluskálanum að Hrafnagili sem hugsanlega lokaði    kl. 22:00 og það stóð heima, þegar ég geystist á hlaðið þá var búið að loka þremur mínútum áður. Ég bölvaði í hljóði og ákvað að tjalda á tjaldsvæðinu við Hrafnagilsskóla. Tjaldsvæði Akureyrar er til háborinnar skammar vegna hávaða. Það hlaut því að vera góð lausn að tjalda svona rétt utan við bæinn. En þetta tjaldsvæði var lítið skárra. Það var eins og bílastæði yfir að líta og reyndi ég að finna mér stað bak við manngerðan hól og sem lengst frá akvegum til að eiga það ekki á hættu að keyrt yrði yfir mig. Þarna losnaði ég lika við háreysti tjaldbúa og fór því snemma að sofa.
Upp var risinn þriðjudagur 25. júlí, steikjandi sólarhiti og blanka logn. Ég skellti í mig restinni af brauðinu og kom mér af stað. Ég hafði ekki sofið vel um nóttina því umferð bíla hélt fyrir mér vöku meira og minna alla nóttina. En morguninn var stilltur og hljóður og reyndar einkennilega rólegur að mér fannst því lítil bílaumferð var á leið minni til Akureyrar, það var meira að segja rólegt á Akureyri. Kannski voru norðlenskir unglingar ekki alveg samvaxnir bílunum eins og í Sódómu Reykjavík?
Ég byrjaði á því að fara í Hagkaup og kaupa mér morgunmat og fylla töskur. Loksins gat ég étið eins og mig lysti. Ég kjagaði því næst niður í bæ og heimsótti Netkaffi til að athuga og senda póst og heimsótti svo Ferðafélag Akureyrar til að fá upplýsingar um skálann í Dyngjufjalladal. Ég vildi helst ekki vera þar á sama tíma og einhver hópur.
Um hádegi var hitinn ofboðslegur og átti ég í erfiðleikum með að halda af stað. Ég fékk mér því smá blund á bekk við Strandgötu milli þess sem ég virti fyrir mér bílfíklana á gljáfægðum bíltíkum sem keyrðu fram og til baka eins og þeir hefðu það að atvinnu. Nú, þegar liðið var að hádegi var þetta bílalið greinilega vaknað. Umferðin hafði aukist eða þá þarna fóru alltaf sömu bílarnir.  Strandgata var greinilega einhver spyrnugata og keyrðu sumir eins og hálvitar um þessa götu með spóli, ískri og reyk. Mér var farið að leiðast þessi lélegu sýningaratriði og ákvað ég því að fara og fá mér að  borða.
Það var skelfing gott að setjast þarna inn í skuggann og lesa blöðin. Þar var mikið fjallað um að átak gegn umferðarslysum og að landsmenn ættu að taka sér tak og gera næstu verslunarmannahelgi að slysalausri helgi. Alltaf sama kjaftæðið og það stendur ekki  til að gera neitt róttækt, fólk á bara brosa í umferðini, hugsaði ég. Nær væri að segja: Í bíl skalt þú smæla framan í heiminn og þá mun dauðinn smæla framan í þig.
Með þessa hugsun í farteskinu ákvað ég  að þvælast ekki um hraðbraut nr.1 en þess í stað fara yfir Vaðlaheiði. Vindur var nú farinn að blása af hafi og því var hitamollan orðin bærilegri. En þegar upp í hlíðar Vaðlaheiðar var komið lægði aftur vind svo vart bærðist hár á höfði. Það var því kæfandi ástand sem skapaðist á klifrinu og ekki bæti úr skák að ég mætti bílum sem þyrluðu svo upp rykinu að maður varð að stoppa og færa sig út af veginum. Svona sérkennilegt veður hafði ég ekki upplifað síðan í hitabylgjunni í Svíþjóð og þetta var veður sem þeir hér fyrir norðan höfðu haft í nærri tvo mánuði. Fyrir mér klingdi viðvörunarbjöllum.
Á leiðinni upp sá ég velriðgað tundurdufl í vegkantinum. Velti ég því fyrir mér hvort ég hefði ekki séð það áður og hugðist taka mynd af því en þá kom bíll aðvífandi og kæfði allt í reyk og ryki.* Ég hélt því áfram upp brekkuna. Efst á heiðnni er mikið útsýni og ákvað ég að ganga örlítið hærra á heiðina og skoða mig um. Ekki hélst ég lengi við á göngunni því  flugan herjaði óspart á öll mín vit. Því næst var tekið á rás og geyst niður í Fnjóskadal. Þar hefur vegagerðin stundað mikil umhverfisspjöll með uppbyggingu hraðbrauta. Staðurinn er ekki eins skemmtilegur og þegar ég kom þar fyrst fyrir 15 árum. Þetta er svæði sem maður ekur aðeins í gegn um og það hratt.
Það var farið að halla að kvöldi þegar ég kom að Fosshól við Goðafoss. Ég fór á tjaldsvæðið og hitti þar hjólreiðafólk frá Kanada. Spjölluðum við saman um allt milli himins og jarðar. Hún var að fara til Akureyrar til að  taka flug suður og þaðan áfran vestur því fríið hennar var búið. Hann átti rúma viku eftir og hvatti ég hann til að fara suður um Kjöl í stað þess að fara þessa stórhættulegu vegómynd sem þjóðvegur nr. 1 er orðinn. Hann gæti þá séð Gullfoss og Geysi. Um kvöldið baðaði sólin himinn og ský með alls kyns litum og var sólarlagið einstaklega rautt yfir Kinnafjöllum. Nóttin var róleg og varð ég ekki mikið var við umferð nema þá nokkurra flutningabíla.
Næsta dag tók ég snemma. Úti var steikjandi hiti, sól og logn. Ég ætlaði að hefja daginn á morgunverðarhlaðborðinu á Fosshóli. Dæmigert íslenskt morgunverðarhlaðborð. Hálfþurrt Millu svampbrauð (óætt), sem ekki var hægt að smyrja nema með bráðnu smjöri. Ostur, skinka og spægipylsa, kornflex og seríós, mjólk, súrmjólk, djús, kaffi og te. Það var ekki einu sinni boðið upp á hafragraut og lýsi, líklega vegna þess að þá hefði þurft að hræra í potti. Það var því ljóst að mér yrði óglatt áður en ég yrði saddur. Sú ógleði myndi kosta mig 700 kr. En ég lét mig hafa það, enda var ég búinn að ganga frá öllu í töskurnar til að dvelja á hálendinu í nokkra daga. Ég gæti svo endanlega fyllt belginn í Kaupfélaginu áður en ég legði af stað.
Eftir að hafa gengið niður að fossinum og skoðað minjagripi skellti ég í mig jógúrti og bönunum áður en ég þeyttist af stað suður Bárðardal að austanverðu. Hitinn var ótrúlegur og sólin skein á skýlausum himni. Þegar ég kom að brúnni yfir Skjálfandafljót ákvað ég að koma við í félagsheimilinu Kiðagili, komast í skugga og teyga eitthvað meira svalandi en volgt vatn úr brúsa.  Ég hafði nú svolitla hafgolu af norðri sem fylgdi mér langt inn á hálendið. Í Svartárkoti þurfti ég að spyrjast til vegar því valið stóð þar um tvo slóða. Rétti slóðinn lá fram hjá útihúsunum og þaðan út í auðnina.
Loksins var ég aftur komin í sælureit. Um stund hjólaði ég í lausum sandi sem var fremur erfitt vegna þurrka. Allur gróður var ákaflega kyrkingslegur og það brakaði undan fæti þegar gengið var á honum. Nú tók við lykt af grjóti og það breyttist lítið þó slóðin lægi um velgróna grasbala meðfram Suðurá. En nú tóku við skemmtilegar hjólreiðar eftir moldarstígum. Hjólið hentist létt og óþvingað upp og niður bungur og skorninga eins og í rússíbana. Ég mjakaðist í átt til Dyngjufjalla en þar átti ég að geta verið einsamall í skála næstu nótt samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafði fengið hjá Ferðafélagi Akureyrar. Veðrið var líka einstakt og engin þörf á að stoppa fyrr en orku þryti eða eitthvað annað. Ég staldraði við í gangnamannaskála sem stóð við Suðurá og eldaði mat því það var ljóst að ég átti eftir að príla í gegnum erfitt hraunið í Útbruna og teyma hjólið eftir þurrum söndum áður en ég næði til Dyngjufjalla. Ég beið eftir því að sól lækkaði á lofti og þegar hitin var komin í 17 stig um kvöldmataleytið fannst mér tímabært að halda af stað. Fljótlega kom ég í Suðurárbotna og þar tók við kræklóttur slóði að skála FFA og áfram inn í hraunið. Þá tóku við sandar þar sem erfitt var að hjóla og þurfti ég að teyma hjólið u.þ.b. 4 km. Þegar sólin settist með miklu litskrúði gat ég ekki staðist það að hlaupa upp á næstu hæð og njóta útsýnisins. Dalalæða sást æða upp á milli Sellandafjalls og Bláfells. Einum tíma síðar kom ég í Dyngjufjalladal að skála FFA. Hann var greinilega troðfullur af fólk í hólf og gólf og það sem meira var, ég þurfti líka að horfa upp á bílbeyglu sem plantað hafði sér við skálann. Það var því greinilega ekki hægt að stóla á bullið í starfsmanni Ferðafélags Akureyrar frekar en sitt eigið hyggjuvit. Ég fór því rétt upp fyrir skálann, fann þar þokkalega sléttan flöt, breiddi þar út dýnu og poka og fór að sofa. Síðar um nóttina kom dalalæðan arkandi í gegnum dalinn, bleytti svefnpokann sem aftur þornaði í geislum morgunsólarinnar u.þ.b. klukkutíma síðar.

* Tundurdufliš varš tveimur mįnušum sķšar fréttamatur þar sem það var virkt.

Næsti kafli


 

Til baka ķ yfirlit feršasagna