Ljós í myrkri með ljósdíóðum
Það er alltaf spennandi að sjá framþróun á tæknisviði. Sífellt minni orku þarf til að framleiða hluti, sem gera sama gagn og eldri gerðir. Sparneytni verður einnig meiri, bæði vegna nýrra efna og nýrrar hugsunar. Skýrasta dæmið um þetta eru líklega tölvur. Þetta á líka við í framleiðslu ljósabúnaðar. Ljósdíóður hafa tekið miklum framförum á allra seinustu árum. Lengi vel voru aðeins fáanlegar rauðar ljósdíóður, en síðar komu gular og grænar. Það var þó ekki fyrr en ofurbjartar ljósdíóður komu á markaðinn að notagildi þeirra fór að aukast. Ofurbjartar rauðar ljósdíóður voru sem himnasending fyrir hjólreiðafólk. Þær hafa eflaust bjargað fjölda mannslífa. Gallinn var hins vegar sá, að ekki hafa fengist hvítar ljósdíóður fyrr en nú. Hvort sem þið viljið trúa því eða ekki, er þetta bara upphafið að nýjum tíma. Þessu má líkja við byltinguna í stafrænni tækni í myndavélum, þar sem filman mun á endanum aðeins verða notuð í sérstök verkefni. Ljósdíóður eiga eftir að verða æ algengari í vasaljósum, lömpum og farartækjum, s.s. bílum, en ekki síst reiðhjólum - og um það verður fjallað hér.
Við byrjum á fyrsta framljósinu, sem Cateye framleiddi með hvítum ljósdíóðum EL 100 og Hjólhesturinn fékk í hendur fyrir u.þ.b. ári síðan. Það var nokkuð spennandi að fá svona ljós og sjá muninn frá Halogen ljósunum, sem gengu á sömu spennu, því að í fljótu bragði sýndist díóðu-ljósið afskaplega öflugt. Fljótlega kom þó í ljós, að hér var ekki sú bylting á ferð, sem vonast hafði verið til. Í raun var það álíka öflugt og smáljós frá 4,8 volta perum. Við hér í Hjólhestinum höfum svo sem ekki hvatt til að kaupa þess háttar ljós, ef efni eru til að kaupa betri ljós. Lífið er einfaldlega dýrmætara en nokkrir þúsund-kallar. Ljósið gat ekki lýst fram á veginn með greinilegum hætti auk þess sem það var afskaplega stefnuvirkt. Spennan var felld úr 6 voltum í 3,5 volt yfir ljósdíóðurnar með 10 ohm, 1Watta viðnámi, sem er afskaplega heimskulegt þegar FET-stýring getur stjórnað spennunni inn á ljósdíóðurnar með mun meiri orkusparnaði. Þannig hefði sú stýring geta séð um að fæða ljósdíóðurnar á 3,5 voltum allt þar til heildarspenna rafhlaðanna væri fallin úr 6 voltum í 3,5 volt, auk þess sem boðið er upp á “blikk” sem er afar mikilvægt í litlum ljósum. Það var því ekki laust við að maður bölvaði Cateye að setja svona hlut á markað, sem ekki hafði kostað þá mikla hugsun eða vinnu.
En eitthvað gerði þetta ljós nógu gott til að bílstjórar tækju eftir því. Það var blái litur þess, sem minnti á “blacklight” í “diskóteki”. Ljósið virkaði líka afskaplega vel í snjó og snjókomu. Það skar sig úr öllum öðrum ljósum og manni fannst það ómissandi með halógen-ljósinu. Auk þess var það mun sparneytnara en halógen-ljósið. Frá ljósinu á stýrinu barst engin óþægileg birta í augu hjólreiðamannsins, og þó að ljósdíóður séu ákaflega stefnuvirkar, berst viðunandi ljós til hliðanna, en það er afskaplega mikilvægt. Það má líka segja Cateye til hróss, að þeir voru ekki að pranga inn á mann nýjum ljósafestingum á stýri. Enn er sama festingin á stýri og algengast hefur verið hjá Cateye undanfarin ár. Fljótlegt er að taka ljósið af og setja það aftur á. Hið sama er að segja um festinguna sjálfa. Þar sem þessi frumgerð af EL100 ljósinu virtist fremur vanhugsuð og einum-um-of einföld, þótti undirrituðum vænlegast að bíða og sjá hvað kæmi frá Cateye nú í haust.
EL-200
Nú á haustmánuðum birtust svo nýju ljósin frá Cateye Öll hvítu díóðuljósin frá Cateye kallast nú “OptiCube” Nú má finna endurbætta útgáfu af EL100 sem heitir EL200. Hún býr yfir öllum góðum kostum EL100, en búið að bæta við “blikki”, sem er gríðarleg bót. Það sparar rafhlöður auk þess sem það dregur að sér meiri athygli. Ljósið er líka með nýrri linsu með stækkunarglerjum fyrir hverja ljósdíóðu sem dreifir ljósinu betur en á EL100 . Ljósið hefur 3 ljósdíóður sem hver um sig notar 50mA við 6 volt eða samtals 150mA, þ.e.a.s.0.9Wött Þetta ljós má nota eitt sér eða, sem betra væri, með halógen-ljósum. Þannig ykist öryggi hjólreiðamanna til mikilla muna.
EL-300
Hér er komið að alvöru framljósi, sem mjög vel má nota eitt sér án viðbótar annara ljósa. Ljósið er með 5 ljósdíóður, sömu 5mm ljósdíóðurnar og finna má í öllum ljósum Cateye. Gengur það fyrir 4x1,5 volta AA rafhlöðum eða 6 voltum eins og EL-200 ljósið. Það notar samtals 250 mA eða 1,5 Watt. Stór framlinsa hefur að geyma mikið linsuverk til að dreifa ljósinu sem best. Hér er komið ljós sem gefur ekki minna ljósmagn en 6-volta 2,4-watta halógen-ljós. Það eina sem finna má að, er að bláleitt ljósið endurspeglast lítið frá blautu malbiki og brennipunktur ljóssins er frekar lítill eins og almennt frá díóðuljósum. Á móti kemur að í snjó er ljósið ákaflega gott. Því miður láðist Cateye að hafa “blikk” í þessu ljósi. Það er einnig fremur stórt og rúmast því ekki vel í vasa. Það er reyndar svo stórt að Cateye hefði vel getað komið fyrir FET-spennustýringu með “blikki” án þess að nýta sér SMD-tæknina. Með FET-stýringu hefði jafnvel verið hægt að láta ljósdíóðurnar 5 blikka innbyrðis, svo að það hefði litið svo út sem ljósið glitraði úr fjarlægð. En eins og á öðrum sviðum er það líklega markaðslögmálið sem veldur því að Cateye sendir ekki frá sér vel úthugsaða hluti. Þeir ætla líklega að selja okkur endurbætt ljós á næsta ári! Fyrir þá sem þurfa nýtt og gott ljós á góðu verði er samt hiklaust hægt að mæla með þessu ljósi. Eins og fyrr segir er linsan sjálf stór svo að ljósið sést líka nokkuð vel frá hlið. Ekkert ljós frá stýri pirrar hjólreiðamanninn auk þess sem stýrisfestingin er sú sama og á EL-100 ljósinu. Söluaðilinn Örninn var ekki komin með verð á ljósin þegar þessi grein er skrifuð en búast má við u.þ.b. 3000.- fyrir EL-200 og 5000.- fyrir EL-300
Endurbætur
Á heimasíðu Cateye www.cateye.com er sagt að rafhlöður fyrrnefndra ljósa eigi að endast í rúmlega 100 klst. Það eru klár ósannindi. Það þarf ekki mikinn sérfræðing til að reikna út að það er miklu styttri tími. Venjulega eru alkaline-rafhlöður af AA stærð 2,5 amperstundir (Ah). Það þýðir, að rafhlaðan getur gefið 1 amper í tvær og hálfa klukkustund. Það segir því, að EL-300 ljósið endist aðeins í 10 klst. miðað við 250 mA. Það er því óskiljanlegt að Cateye skuli fullyrða þetta á heimasíðu sinni. Ég hvet því alla til að skrifa þeim og fá Cateye til að leiðrétta bullið. Í dag þegar öflugar Ni-MH (Nickel Metal Hydride) hleðslurafhlöður hafa tekið við af almennri notkun á Ni-Cd (Nickel Cadmium) hleðslurafhlöðum er um að gera að hætta notkun einnota rafhlaðna eins og Alkaline hvað þá annarra einnota rafhlaðna. Spenna þeirra fellur línulega á meðan hleðslurafhlöður geta betur haldið jafnri spennu þar til hleðslan er búin. Ni-MH rafhlöður hafa ekki minni, og því þarf ekki að hugsa um að afhlaða rafhlöðurnar áður en þær fara í hleðslu. Í dag er hægt að fá allt að 1,8 Ah Ni-MH rafhlöður í stærð AA. En þar sem hleðslurafhlöður gefa aðeins frá sér 1,2 volt verður að breyta Cateye ljósunum svo að þau gefi fullt ljósmagn á 3,5 voltum við 4,8 volta heildarspennu. Í báðum Cateye ljósunum er spennan felld úr 6 voltum í 3,5 volt með 10 ohma viðnámi. Til að fá rétta spennu með hleðslurafhlöðum þarf því að hliðtengja annað 10 ohm viðnám í EL-300 ljósinu og 39 ohm viðnám í EL-200 ljósinu. Eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar á ljósunum, má ekki setja alkaline rafhlöður í ljósin. Þá er líklegt að ljósdíóðurnar eyðileggist. Mikilvægt er að hjólreiðafólk spari ekki peninga þegar kemur að ljósum. Skiptið hiklaust um eða hlaðið rafhlöður um leið og vart verður að ljósið dofnar. Það er allt of algengt að hjólreiðafólk sé meira og minna ljóslaust eða með lélega lýsingu. Við verðum að taka okkur tak á þessu sviði, því að við erum í stöðugri hættu þar sem bílar eru alls ráðandi í umhverfi okkar.
Magnús Bergsson
|