ÍSLENSKI FLUGVEFURINN

- Pétur P. Johnson

Ekki bara flugsaga
og myndir
heldur einnig
ýmis önnur áhugamál.......
HEIM
FLUG
BÍLAR
SKIP & BÁTAR
ÍSLENSKT LANDSLAG
ÖNNUR TÆKI & DÓT
Í ÚTLÖNDUM
UM MIG
- kemur síðar
English version.
ICELANDIC AERO WEB
IN ENGLISH
 
 
 
FLUGSAFN ÍSLANDS - THE ICELANDIC AVIATION MUSEUM - AKUREYRI
Flugsafn Íslands lógó.

FLUGSAFN ÍSLANDS,

AKUREYRARFLUGVELLI

Handbók Flugsafnsins.


Flugsafn Íslands var stofnað þann 1. maí 1999 og hét þá Flugsafnið á Akureyri. Flugsafnið er sjálfseignarstofnun og er hlutverk þess að safna, varðveita, og sýna muni sem tengjast  flugi á Íslandi, sögu þess og þróun. Einnig er það markmið safnsins að safna myndum sem tengjast flugsögunni og skrá þær. Aðalhvatamaður að stofnun safnsins var Svanbjörn Sigurðsson og var hann framkvæmdastjóri þess fyrstu tíu árin. Núverandi framkvæmdastjóri Flugsafns Íslands er Gestur Einar Jónasson. Með Svanbirni unnu ýmsir áhugamenn um íslenska flugsögu og varðveislu gamalla flugvéla, en stofnaðilar safnsins voru Vélflugfélag Akureyrar, Svifflugfélag Akureyrar, Flugmódelfélag Akureyrar, Flugfélag Íslands, Flugfélagið Atlanta, Flugleiðir, Íslandsflug og Íslenska flugsögufélagið. Á aðalfundi Flugsafnsins á Akureyri sem haldinn var 26. febrúar 2005 var samþykkt að breyta nafni safnsins í Flugsafn Íslands, enda endurspeglar það betur markmið safnsins.Flugsafn Íslands 2009. Foto © Pétur P. Johnson.
MYNDASYRPA ÚR
FLUGSAFNI ÍSLANDS,
31.OKT. 2009
Flughelgi Flugsafnsins 2002. Foto © Pétur P. Johnson.
MYNDASYRPA FRÁ
FLUGHELGI FLUGSAFNSINS
Á AKUREYRI 2002
 
 
Safnið var opnað með formlegum hætti þann 24. júní árið 2000 og var þá haldin í fyrsta sinn svokölluð flughelgi Flugsafnsins í samvinnu við Flugmálafélag Íslands. Þar var margt á dagskránni m.a. Íslandsmót í listflugi, listflugsýningar, fallhlífastökk, módelflug, útsýnisflug með þyrlu og fleira. Þessi flughelgi safnsins og Flugmálafélagsins hafa síðan verið árlegur viðburður.
 

Frá árinu 2004 hefur það verið siður að heiðra einhvern frumherja úr íslenskri flugsögu á flughelgi Flugsafnsins. Árið 2008 heiðraði Flugsafnið Ernu Hjaltalín, fyrstu konu til að taka atvinnuflugmannspróf á Íslandi, en hún fékk ekki að starfa sem flugmaður vegna kynferðis. Erna, sem var einnig lærður loftsiglingafræðingur, starfaði sem flugfreyja hjá Loftleiðum um margra ára bil. Árið 2009 voru þrír  flugstjórar heiðraðir; Magnús Guðmundsson, Smári Karlsson og Viktor Aðalsteinsson, en þeir komu allir við sögu á bernskudögum atvinnuflugs á Íslandi.

Fyrstu árin var Flugsafnið til húsa í 450 fermetra flugskýli sem leigt var af Íslandsbanka. Þetta húsnæði var síðar keypt. En það liðu ekki mörg ár áður en það flugskýli var orðið of lítið. Haustið 2006 var hafist handa við að byggja núverandi húsnæði Flugsafns Íslands. Nýja húsið er rúmlega 2200 fermetrar að grunnfleti og er þetta fimmföld stækkun á húsnæði. Fyrsti viðburðurinn sem fram fór í þessu nýja húsi var 70 ára afmælishátíð Icelandair þann 3. júní 2007. Þann sama dag voru sjötíu ár liðin frá stofnun Flugfélags Akureyrar.


Flugsafn Íslands er lifandi flugsafn. Þar er að finna heimasmíðaðar flugvélar, flugvélahreyflar, fis, svifflugur, gamlar farþegaflugvélar, flugmódel, listflugvélar og hreyflar af ýmsum gerðum, auk fjölda ljósmynda, flugvélalíkanna og annara sýningargripa. Elsta flugvélin sem er til sýnis á safninu er Klemm L.25e TF-SUX. Þessi flugvél, sem er smíðuð árið 1934, kom til landsins með þýskum svifflugleiðangri árið 1938. Hún var m.a. notuð til að kanna lendingarstaði víða um land og var fyrsta landflugvélin til að lenda í Vestmannaeyjum árið 1939. Einnig er á Flugsafninu Grunau IX rennifluga sem smíðuð var á Akureyri veturinn 1937 til 1938. Þetta var fyrsta flugtæki Svifflugfélags Akureyrar og var síðast flogið árið 2004. Af öðrum sýningargripum má nefna stjórnklefa fyrstu þotu íslensks flugfélags, Boeing 727 “Gullfaxa”, Aerospatiale Dauphin björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SIF, Stinson SR6 Reliant af samskonar gerð og fyrsta flugvél Loftleiða, Auster V sjúkraflugvél og Fokker F.27-200 flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN. Einnig hefur Douglas DC-3 flugvélin TF-NPK haft aðsetur í skýlinu síðustu tvo vetur. Í einu horni safnsins er sýning tileinkuð Fairey Battle flugvél breska flughersins sem fórst á Tröllaskaga á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Safnið er einnig ríkulega skreytt ljósmyndum og munum sem segja frá starfsemi flugfélaga og áhugamannasamtaka, auk þess sem í máli og myndum er stuttlega gerð grein fyrir störfum þeirra sem safnið hefur heiðrað sérstaklega.


Flugsafn Íslands er opið alla daga vikunar frá 1. júní til 31.ágúst frá kl. 11:00 til kl. 17:00. Yfir vetrarmánuðina er opið alla laugardaga frá kl. 13:00 til kl. 17:00. Safnið er svo opið á öðrum tímum eftir samkomulagi. Hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar um safnið og sýningargripi þess á vefsíðu þess,
Netfang safnsins er flugsafn@flugsafn.is
og símanúmerið er 461 4400.
Framkvæmdastjóri Flugsafns Íslands er Gestur Einar Jónasson.
© 2009 - PÉTUR P. JOHNSON, REYKJAVÍK, ÍSLAND
NETFANG: aviasaga(hjá)hotmail.com