7. hluti.   Leiðin að kökuhlaðborðinu...

...og heim aftur eftir Magnús Bergsson

Um nóttina vaknaði ég nokkrum sinnum við að helli dembur buldu á þakinu með hléum. Stuttu síðar tóku vatnsdropar að falla úr hverri báru af þakinu í blautan jarðveginn umhverfis kofann. Tvisvar um nóttina komu bílar á ofsa hraða eftir gegnblautum veginu með drunum og látum svo grjótið buldi á bárujárninu. Ég hafði tilefni til að bölva þeim í hljóði. Kvöldið áður hafði ég sett alla mína potta og brúsa undir bunurnar sem komu af þaki skúrsins til að safna hreinu regnvatni. Það var svolítið langt í næstu læki og votlendisflóinn norðan við kofann hafði alltaf verið þakinn rolluskít og vatnið því vont.
    Klukkan var rétt rúmlega níu þegar ég svo vaknaði við að sauðfé og lömb jörmuðu ámátlega út í þögnina utan við kofann.  Í gegnum veggina mátti heyra dempuð hljóð hvers fótataks kindanna og skruðninga þegar einhver þeirra klóraði sér á horni kofans. Um mig fór sæluvíma. Enn einn dagur þar sem hamingjan hríslaðist um skrokkinn eins og gæsahúð. Ég hafði hvílst mjög vel um nóttina og innra með mér var ég þurr og heitur þó svo bæði væri þungbúið og allt vatnssósa utandyra. Öll ílát voru full af vatni utan við kofan svo ég hafði vatn fyrir nærri tvo daga.
    Ég hugleiddi að gista aðra nótt. Framundan var verslunarmannahelgi og ég hafði ekki nokkurn áhuga á því að dvelja í fjölmenni, hvað þá meðal Íslendinga sem gátu ekki notið svona helgar nema kófdrukknir. Ég var því líklega á besta stað á landinu til að njóta samvistar með móður náttúru og láta tímann líða meðal mófugla og kinda í notalegri þögn. Eftir að hafa hlustað á veðurfréttir kl. 10 var ákveðið að hér yrði ég aðra nótt. Veðrið bauð ekki upp á notalega vist í tjaldi og ég var með lesefni úr safnabæklingum auk þess sem Hólaheiði og Melrakkaslétta norður af  freistuðu mín. Ég ætlaði því að leggjast yfir landakortið og spá aðeins í framhaldið.
    Dagurinn leið í rólegheitum. Af og til rigndi. Milli þess sem ég sötraði kaffi og las bæklinga dormaði ég með langbylgjuna eða þögn í eyrunum. Um fjögurleytið stöðvaði bíll framan við kofann. Friðurinn var á enda, út streymdi glás af gólandi börnum og foreldrar sem ruddust inn í kofann. Eftir stutt samtal kvaddi fólkið og stuttu síðar lagðist þögnin aftur yfir svæðið.
    En ég var vaknaður og fór nú á stjá. Anddyrið lyktaði illþyrmilega af úldnum matarleyfum, reyndar svo illþyrmilega að það minnti á hálffullan ruslagám framan við veitingastað. Þarna hafði fólk skilið eftir alls kyns sorp, allt frá matarleifum og vínflöskum yfir í b
leyjur og dömubindi. Það var alveg með eindæmum að þetta sóðapakk sem dratthalaðist á bílum upp um fjöll og firnindi gat ekki tekið með sér draslið til baka. Það hlaut eiginlega allt að vera kófdrukkið. Hjólreiðamenn sluppu reyndar ekki undan hörðum dómi því í gluggasilluni mátti sjá brot úr tannhjóli og brotinn tein. Í ruslinu máti svo sjá bréf utna af súputeningum sem gat líklega ekki tilheyrt neinum nema hjólreiðamanni, líklega austantjaldsmanni. Kom ég nú illa þefjandi matarleyfum í plastpoka sem hægt var að loka og flöskum og dósum í pappakassa.
    Að þessu loknu dittaði ég að hjólinu. Klukkan var að verða sex þegar þessu var lokið. Ákvað ég þá að ganga aðeins niður í mýrina norðan við kofann og kanna vatnsból. Þó ég ætti nægar vatnsbyrgðir þá þótti mér rétt að kanna svæðið og rifja upp gamla þekkingu. Mýrin er víðáttumikil og ákaflega grösug. Það kom því ekki á óvart þó þarna hafi verið alla vega fimm bæir fyrr á öldum. Ég þurfti ekki að ganga langa leið. Rolluskíturinn lá mjög þétt og það var óbragð af vatninu. Það var því ekki hægt að nota það nema að sjóða það.
    Á meðan ég át kvöldmatinn sem voru bjúgu og núðlur með rótsterku chili, hugsaði ég um framhaldið. Veðurspáin var fín svo það var aftur kominn ferðahugur í mig. Kvöldið áður hafði ég rekið augun í nýleg hjólför sem lágu út af veginum inn á sandmela í átt að Arnarstaðavatni. Þó ég hafði ekki tekið eftir því þá, þá var þetta líklega slóðin sem fylgdi gömlu símalínunni sem nú var fallin. Ég var því miður ekki með neitt nema MM-kortabókina. Hún sýndi bara fullt af slóðum sem líklega voru mun fleiri þegar á svæðið var komið. Auk þess vantaði inn á kortið mörg mikilvæg kennileiti sem kostað gæti heilan dag ef ég tæki vitlausa beygju.. Ég gat líka klifið Þverfellið og farið þar á slóð sem lág niður í Djúpárbotna og þaðan vestur um að Gilhaga.
    Ég komst ekki að niðurstöðu en hugurinn hvíldi á Hólaheiði. Veðurspáin var góð næstu daga. Það átti að létta til strax um nóttina svo slóðar áttu eftir að þorna áður en ég legði í hann. Um kvöldið kveikti ég upp í kabyssuni með brennanlegu rusli sem ég fann í andyrinu. Síðar lognaðist ég út af og steinsofnaði. Ég rumskað við þrjá bíla um nóttina og heyrði þá að vegurinn var að þorna. Næsti dagur gat því orðið skemmtilegur.
    Klukkan sjö vaknaði ég við flugnasuð  frá gluggasilluni. Út um gluggann mátti sjá í bláan himin milli skýjaflóka. Ég rauk á fætur og hitaði mér kaffi. Hitamælirinn á hjólinu sýndi 14 gráður svo það átti eftir að verða heitt þennan dag.  Sauðfé var á beit við kofann og tók ekkert eftir mér þegar ég stóð við gluggann. Það var létt yfir Hólaheiði og var ég nú ákveðinn í að fara þar um.           Tveimur tímum síðar eftir að hafa eldað pottrétt með bjúgum og drukkið rótsterkt kaffi var ég sestur á hjólið. Ég þurfti að fara u.þ.b. 2  km til baka til að fara in á slóðann. Ef bíll hafði farið eftir honum þá gæti ég það líka á mínu hjóli. Það mundi svo ráðst hvar ég endaði daginn. En bílförin tóku skyndilega aðra stefnu til austurs inn á Seljaheiði án þess að fylgja nokkrum slóða. Alveg var þetta dæmigerð uppákoma. Þetta jeppastóð ekur stefnulaust út um allt, brýtur land og villir mönnum sýn. Áfram inn á Hólaheiði lágu óljós, líklega veturgömul för eftir traktor og undir þeim önnur enn eldri bílför. Það var því spurning hvort ég ætti að fylgja þeim eða snúa við. Það var ekki að sjá að traktorinn hefði farið í báðar áttir. Stefnan var sú sama og hjá mér inn á Hólaheiði svo ég ákvað að halda áfram, alla vega að hraunkanti Kerlingarhrauns sem sjá mátti í fjarska. Þar tæki ég framhaldið til athugunar.
    Fór ég nú um sandmela og þurran, breiðan árfarveg sem líklega er farvegur leyisingavatns á vorin. Við hraunkantinn tók við gróðursæll lyngmói þar til skyndilega komið var að vatnsmikilli á. Beggja vegna árinnar voru bakkar bæði krappir og háir og botninn allnokkuð grýttur. Traktorinn hafði greinilega brotið bakkann á leið niður í ána en hinum megin var ekki að sjá að hann hafi rifið upp nokkurn skapaðan hlut. Hann hlaut því að hafa fundið uppgöngu á öðrum stað. Óljósa gamla gróna slóð mátti sjá handan árinnar og greinilegt að þar hafði ekkert vélknúið farartæki farið líklega í mörg ár. Nú voru góð ráð dýr. Flugurnar voru farnar að ergja mig svo ég mátti ekki stoppa. Ég gekk því meðfram ánni í báðar áttir og fann staðinn þar sem traktorinn hafði farið upp úr ánni. Hann stefndi greinilega inn á gamla slóðann svo ég klöngraðist yfir ána. Gekk það nokkuð brösuglega því botninn var háll og ég nærri dottinn með hjólið og búnaðinn á öxlunum. Var nú hjólað eftir kindaslóð sem fundið hafði sér leið um gömlu hjólförin. Öðru hverju mátti sjá brotið postulín og fúna símastaura sem voru hægt og sígandi að hverfa ofan í mólendið.
    Skyndilega kom ég á slóð sem lá þvert á þá slóð sem ég fór um. Var hún mun greinilegri enda mátti greina hjólför bíla sem farið höfðu þarna um. Undir síðast hjólfarinu voru hófaför hesta sem fóru í austurátt. Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að halda áfram inn á heiðina eða átti ég að stefna til suðurs? Sumarfríðið tæki því miður enda, ég þurfti að stefna heim til Reykjavíkur. Það væri líka skynsamlegra að hafa nægan tíma á heimleiðini svo ekki þyrfti að spilla náttúruupplifun og fara eftir malbikuðum þjóðvegum á endasprettinum.
    Stefnan var tekin til vesturs því þá myndi ég örugglega ekki enda þessa óvissuferð á Raufarhöfn. Tók nú við þeisireið um mjúkan moldarveg. Kálfafjöll risu upp úr sjóndeildarhringnum og fyrr en varði var ég kominn í skemmtilegar hraunmyndanir og gíghrúgöld sem risu upp úr grónu Kerlingarhrauninu. Var ég nú kominn að Rauðhólum sem er nyrsti endi lengstu gossprungu sem um er vitað á Íslandi. Er um að ræða 70 km langa gossprungu sem talið er að yngstu hraun hafi runnið úr fyrir um 6000 árum. Nær gossprungan frá Rauðhólum og alveg suður að Rauðuborgum á Mývatnsöræfum. Er þessi sprunga kölluð Sveinagossprunga og kennd við gíghóla sem sjá má beggja vegna við Dettifoss. Kerlingarhraun sem ég nú fór um hafði runnið úr Rauðhólum fyrir um 8000 árum
    Í Rauðhólum mátti sjá að menn höfuð hlaðið veggi og girt af hella og skúta utan í hraunklettum sprungunnar til að halda aftur af fé og hrossum. Staldraði ég nú við og fékk mér kaffi. Hér gat ég aftur valið um leiðir, til suður inn á Öxarfjarðarheiðarveg eða eitthvert til norðurs. Samkvæmt korti þá lá sú leið til norðurs og vesturs niður á bæi í Núpssveit. Klukkan var rétt rúmlega þrjú eftir hádegi, hitinn um 15 stig og skýjum óðfluga að fækka á himni. Það var því ákveðið að halda til norðurs. Ég ætti því að geta náð í Ásbyrgi hæfilega seint fyrir nóttina.
    Lá nú leiðin í hraunjaðri Kerlingahrauns uns komið var að Kálfaborgum. Þar gat ég ekki annað en staldrað við og sest í grasbala, fengið mér enn meira kaffi og leyft sólini að sleikja mig um stund. Hálftíma síðar var ferðinni haldið áfram. Lá nú slóðin upp á hrygg norðan við Kálfafjöll. Þaðan er mikið útsýni  yfir Hólaheiði og norður um Sléttu. Það var því ekki annað hægt en að leggja land undir fót og ganga örlítið hærra upp undir Grjótstapa til að sjá enn betur yfir heiðarnar því ég hafði hug á því að skoða þetta svæði betur að ári. Það var svo mikið af skemmtilegum slóðum og náttúrulegum tjalstæðum að það var vel þess virði að eyða hér nokkrum dögum.
    Lá nú leiðin áfram að Valþjófstaðarfjalli. Stuttu áður en að því kom breyttist leiðin úr grýttri, hjólum troðinni slóð í fagurgræna grasivaxna slóð sem eiginlega mátti eins kalla veg. Þetta var ótrúlegt. Hér höfðu bændur rutt slóð um lyngmóann, sléttað úr leiðini og sáð grasfæi. Það markaði varla fyrir hjólförum farartækja sem benti til þess að hér þvældust ekki þung vélknúinn ökutæki á vorin á þeim tíma sem frost væri enn í jörð. Þessi teppalagða grasslóð stöðvaði greinilega allt gróðurrof í móþekjuni svo unun var á að horfa. Þetta var eitthvað sem aðrir bændur á landinu mættu taka sér til fyrirmyndar. Að hugsa sér ef Arnarvatnsheiði gæti státað af svona slóðum. En líklega væri það ekki hægt. Menn nauðguðu þeirri heiði með öflugum og þungum vélum allan ársins hring án tillits til veðurfars eða ástands jarðvegar. Hólaheiði var því nokkuð mátulega langt frá Reykjavík og skynlausu vélafólki til að svona nokkuð fengi að gróa upp án skemmdarverka
    Við rætur Valþjófsstaðarfjalls skiptist leiðin. Samkvæmt korti þá lágu leiðir nú að Valþjófstöðum í suðuri og Einarsstöðum í norðri. Það var því ákveðið að fara að Einasrstöðum enda voru þessir bæir svo sem hlið við hlið vestan við fjallið. Rann nú hjólið eftir græna dreglinum utan í hlíðum fjallsins og niður á við þar til komið var að Einarsstöðum. Þá var aðeins spölkorn eftir niður á veg 85. Frá hafi heyrðist þungur niður öldunar sem skall eftir endilangri fjörunni í Magnavík. Ég varð því að ganga niður í fjöruna og finna kraft öldunar og draga að mér sterkan sjávarilminn. Nokkar kríur gerðu sér far um að þeyta vængjum rétt ofan við höfuðið á mér. Á meðan á því stóð rifjaðist það upp fyrir mér sem ég hafði alltaf ætlað að gera eftir að ég lenti í harkalegri kríuárás á Vestfjörðum. Þá datt mér í hug að næst myndi ég mála tvö arnaraugu á hjálminn sem góndu til himins.  Þá hefðu kríurnar líklega ekki þorað að koma nærri þessari ófreskju sem fylgdist með hverju vængjablaki fyrir ofan.
    Eftir stutt stopp í fjörunni þá þótti mér réttast að halda áfram. Klukkan var orðin sjö að kvöldi og ég ætlaði að reyna ná í verslunina í Ásbyrgi fyrir lokun. Fáir bílar voru á ferli þó Verslunarmannahelgi stæði sem hæst og sunnudagur ekki liðinn. Það benti því til þess að ég væri á réttum stað á landinu og fáir væru á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi eftir rigningar síðustu daga.
    Vegurinn var ákaflega góður þó hann væri ekki malbikaður á köflum. Var notalegt að þeytast eftir hörðum malarveginum á rúmlega 30 km hraða. Öll kaffidrikkja um daginn hafði greinilega örfandi áhrif á mig svo að með köflum jók ég hraðan upp í 40 km. Hitinn fór líka lækkandi svo aðstæður til hjólreiða urðu stöðugt betri. Kom ég nú að fiskeldisstöðini Silfurstjörnunni í Núpsmýri. Öll hlið voru opin svo ég gat ekki annað en skoðað mig örlítið um í þessa frægu stöð. Lagði ég hjólið í vegkantinn og gekk inn fyrir af einskærri forvitni. Ekki vantaði fiskinn sem var í öllum kerjum . Það sem vakti þó einna helst  athygli mína var mikill fjöldi seiða í polli eða lækjarsprænu rétt við veginn.  Mýrin norðan við fiskeldið gat því verið morandi af seiðum ef  fuglinn sæi þá ekki um að éta hann.
    En ferðin hélt áfram. Kvöldbirtan frá var farin að gefa djúpa liti sem maður sóttist svo ákaflag eftir við myndatökur. Ég átti því til að stöðva hjólið af og til og litast um eftir myndefni. Fyrr en varir var ég komin að skólahúsunum að Lundi og við tók malbikaður vegur. Var þá gamanið búið. Við tók nýmóðins vegur sem lítið fjör var að hjóla eftir. Það gerðist því ekkert markvert fyrr en komið var að kaupfélaginu við Ásbyrgi. Klukkan var að verða tíu þegar ég komst þar inn. Keypti ég mér nú ýmsar kræsingar til að halda sjálfum mér veislu á tjaldstæðinu.
    Tjaldsvæðið hafa tekið miklum breytingum frá því ég kom þar síðast. Ég mundi eftir því sem mikilli víðáttu með grisjóttum og lágreistum víðirunnum. Nú var hér mikill og hár Alaskavíðir sem girti af skjólgóða reiti sem gátu tekið við fjölmörgum tjöldum. Tjaldsvæðið var vissulega ekki fullt eins og ég vonasðist til, en tjaldvagnar, fellihýsi og mikill bílafloti fylltu nú svæðið, þó aðallega skjólbestu tjaldstæðin. Utan við skjólveggina voru greinilega flestir erlendu ferðamennirnir. Talsverðan skarkala mátti heyra innan úr runnaþykkninu og nokkuð greinilegt að á tveimur stöðum stóðu bílahljómtæki fyrir stuðinu.  Ég ákvað að tjalda sem lengst frá hávaðanum og fann mér stað nyrst á tjaldsvæðinu undir víðitré í skjóli undan morgunsólini. Fór ég nú í bað sem ég hafði í raun ekki gert í nærri viku. Í leiðini þvoði ég fötin sem voru orðin stíf af svita. Eftir baðið var haldin mikil átveisla. Ég hafði enga þolinmæði til að elda einhvern mat. Fyrir valinu var því brauð með fjalli af smjöri og enn meiri kæfu. Þessu var skolað niður með uxahalasúpu með góðri klípu af smjöri. Heitt kakó og vínarbrauð varð svo fyrir valinu í desert.
    Ég var lítið annað en eitt stórt bros eftir átið. Nú leið mér vel. Skrokkurinn var hreinn í hreinum fötum og maginn þaninn eftir ofátið. Ég var í engu stuði til að leggjast niður og fara að sofa. Satt best að segja var ég til í partý og fyllirí….eða kannski hrjáði mig kvenmaður sem ég hafði fest augun á við símklefann þegar ég fór í bað. Mér sýndist að hún gæti allt eins hafa verið á hjólreiðaferðalagi. Ég ætlði alla vega að hafa upp á henni til að spjalla. Það hafði reynslan kennt mér að það er alltaf gaman að hitta kvennfólk á ferðalagi, ekki síst ef það var á reiðhjóli.
    Eftir ráp um svæði gafst ég upp á því að finna hana. Hún var hvergi sjáanaleg. Annað hvort var hún ekki á hjóli eða þá farin. Ég hitti aðeins fjóra hjólreiðamenn og gegnum muldrið úr tjöldum þeirra voru þeir karlkyns. Á þeim hluta tjaldsvæðisins þar sem ríkti “Verslunarmannahelgi” var mikið um að vera þótt komið væri miðnætti. Rigning síðustu dag hafði sett mark sitt á grasflatirnar og suma tjaldbúa innan skjólveggjanna. En flestir nutu greinilega þessarar þurru stundar. Landvörðum hafði teksit að þagga niður í partýdýrunum svo nú glumdu aðeins við einstaka öskur og hlátrasköll. Á leið í tjaldið flaug mér það í hug að hjóla út á þjóðveg, því ofan við hamarinn var himinninn rauður sem benti á blóðrautt sólarlag sem ekki sást frá tjaldsvæðinu. Á leið í tjaldið urðu skórnir rennblautir. Döggin hafði nú lagst yfir allt svo hnakkurinn var rannblautur. Ég ákvað því að leggjast fyrir og fara að sofa.
    Í svefnrofunum hugsaði ég um framhaldið. Nú varð ég að ákveða hvaða leið ég ætti að fara heim. Ég gat farið suður um Herðubreiðarlindir og Gæsavatnaleið og suður um Sprengisandsveg. Þá þyrfti ég að teyma hjólið aftur um þurran sandinn suður af Dyngjufjöllum. Þar hafði rigning síðustu daga líklega ekki haft nein bætandi áhrif á færðina, en það var svo sem ekki vandamál heldur verkefni til að takast á við. En Jökulfallið undan Tungnafellsjökli sett að mér beyg. Ána hafði ekki verið auðvelt að vaða vegna strumþunga síðustu tvö skiptin sem ég hafði farið þar um. Tveimur árum áður hefði ég átt í miklu basli og nærri fallið í ána með allan búnað á öxlunum. Það versta við þessa leið var svo að suður af Hrauneyjum var var búið að eyðileggja hálendisstemmninguna með malbikuðum bílvegi og seinasti spölurinn á Suðurlandi myndi ég svo enda í lífsháska með bílahelvítinu á Suðurlandsveginum.
    Ég gat líka farið að Mývatni, suður um Grænavatn í paradísina í Ódáðahrauni og Dyngjufjalladal. Svo norður eftir slóð sem lá meðfram Sjálfandafljóti niður í Bárðardal. Þaðan gæti ég svo farið aftur upp á Sprengisand og sömu leið og ég hafði komið, Laugarfell, Eyvindarstaðaheiði , Arnarvatnsheiði , Kaldadal og þaðan heim. “Brilljant”, ég ætlaði að spá  í þetta yfir kaffibolla næsta dag.

Næsti kafli


 

Til baka í yfirlit ferðasagna