Up Æviágrip Bækur Books Curriculum Vitae Fréttir/News

 

 

Iðunn Steinsdóttir er meðal þekktustu barnabókahöfunda þjóðarinnar. Gefinn hefur verið út á fimmta tug bóka eftir hana, þar á meðal ein sem hefur verið þýdd á ensku og önnur á þýsku. 

Gegnum Þyrnigerðið

Gegnum þyrnigerðið er nýstárlegt ævintýri sem gerist fyrir langa löngu en á sér þó hliðstæðu í atburðum sem gerðust í Evrópu seint á 20. öld. Sögusviðið er dalur þar sem íbúarnir hafa búið í sátt og samlyndi um aldaraðir. Einn vorbjartan dag kemur illmennið Óþyrmir til sögunnar. Með kynngimögnuðu þyrnigerði skiptir hann dalnum í Austdal og Vestdal. Fólkið þráir að sameinast á ný - og dag nokkurn fara óvæntir atburðir að gerast.

Iðunn var stödd í Ungverjalandi sumarið 1990 en þá var "járntjaldið" nýfallið. Hún ræddi við heimamenn og kynntist vonum þeirra og vonbrigðum. Munurinn á lífskjörum þessa fólks  og fólksins í Vestur-Evrópu blasti við og spurningin "kemur okkur þetta við?" gerðist áleitin. Upp úr þeim vangaveltum er þessi bók sprottin. Hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 1991.

Umfjöllun: Morgunbl. 17. maí 1991, Jenna Jensdóttir; Vera 1.tbl. 1992, síða 321, Fanney Finnsdóttir.

Ævar á grænni grein

Ævar litli er íslenskur drengur sem býr í útlöndum með pabba sínum og mömmu, afa og ömmu. Og það er ekki eintóm sæla! Ævar lendir í ýmsum ævintýrum og gerir ótal skammarstrik - sum alveg óvart - enda er hann bara venjulegur polli og dálítið kenjóttur eins og gengur. Ævar á grænni grein er bók sem fullorðnir geta lesið fyrir yngri börnin og skemmt sér jafn vel yfir og þau. Iðunn bjó í Belgíu þegar hún skrifaði bókina og ýmsir atburðir í henni eru sóttir í daglega lífið þar. Gunnar Karlsson myndskreytti bókina.

Umfjöllun: DV 13. 12. 1995, Silja Aðalsteinsdóttir; Morgunbl. 20. 12.1995, Sigrún Klara Hannesdóttir

Fúfú og fjallakrílin

Fúfú og fjallakrílin er ævintýraleg bók sem hentar vel börnum á aldrinum 6 - 10 ára og foreldrum á öllum aldri. Fjallakrílin búa í skrítnu húsi á háu fjalli og lenda þar í ýmsum háska og ævintýrum. Hvert einstakt kríli hefur sitt sérstaka svipmót og á ýmsu gengur í krílasamfélaginu. Þau eru ákaflega ólík okkur - og þó stundum svo undarlega lík. Fúfú og fjallakrílin er prýdd 30 myndum sem Búi Kristjánsson teiknaði.

Umfjöllun: Morgunblaðið 17. 12. 1983, Jenna Jensdóttir; DV 20. 12. 1983, Hildur Hermóðsdóttir.

Fjallakrílin - óvænt heimsókn

Bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar Fúfu og fjallakrílin. Gestir frá fjarlægum slóðum bætast í hópinn á fjallinu og sambúðin við þá er hin sögulegasta. Á þeim tíma sem bókin er skrifuð höfðu flóttamenn frá framandi menningarsamfélögum sest að á Íslandi. Höfundur komst í kynni við þá og þaðan er kveikjan að sögunni sprottinn.

Umfjöllun: Morgunblaðið 13. 12. 1984, Jenna Jensdóttir; DV 13. 12. 1984, Hildur Hermóðsdóttir.

Út í víða veröld

Það er undarleg hersing sem heldur út í heim til að leita svars við brennandi spurningu; úrillur karl, þrír úrræðagóðir krakkar og hann Jarpur gamli með kerruna í eftirdragi. Leiðin er löng - og hvorki viðburðasnauð né hættulaus. Á vegi þeirra verða flakkarar og svikahrappar, eldfjöll og jökulsprungur, álfar og tröll. En allt veltur á því að þau fái svar við spurningunni og komist aftur heim til að bjarga bænum sínum og fólkinu frá sulti og seyru. Í bókinni er leitast við að svara þeirri spurningu hvernig við eigum að umgangast náttúruna.Bókin er prýdd fimmtán myndum eftir Brian Pilkinton. 

Umfjöllun: Morgunbl. 28. 11. 1997, Kristín Ólafsdóttir; DV 17. 12. 1997 Margrét Tryggvadóttir.

 

Jólasveinar

Það gerist margt sögulegt þegar jólasveinarnir leggja af stað til byggða með pokana úttroðna af gjöfum í skóna. Þeir eru fínir í nýju rauðu fötunum sínum, fínni en í gamla daga þegar þeir gengu í mórauðum ullarflíkum. En innst inni eru þeir sjálfum sér sér líkir. Kjötkrók dreymir um hangikjöt, Skyrgám um skyr, Bjúgnakræki um bjúgu og þannig mætti lengi telja. Þeir eru hættir að hrekkja - en stundum gleyma þeir sér... Bí Kristjánsson myndskreytti bókina.

Umfjöllun:Morgunblaðið 14. 12. 1988, Jenna Jensdóttir; DV 15. 12. 1988, Hildur Hermóðsdóttir; Helgarpósturinn 18. 12. 1988, Sölvi Sveinsson.

Drekasaga

Drekasaga er ævintýri. Sögusviðið er lítið sjávarþorp undir háu fjalli. Sagan segir frá einmana dreka sem býr í helli í fjallinu og langar að kynnast fóllkinu í bænum. Það gengur illa því að allir eru hræddir við hann vegna þess að hann er svo ljótur. Anna litla uppgötvar þó að hann er ekki hættulegur og tekur hann að sér. Hann hjálpar börnunum að glíma við vanda sem steðjar að bæjarbúum og þegar upp er staðið er öllum ljóst að ekki er rétt að dæma menn og skepnur eftir ytra útliti. Bókin er prýdd litmyndum eftir Búa Kristjánsson.

Umfjöllun: Morgunblaðið 31.10. 1989, Jenna Jensdóttir; DV 9. 11. 1989, Anna Hildur Hildibrandsdóttir; Þjóðviljinn 8. 11. 1989, Árni Bergmann; Tíminn 9. 11. 1989, Sigríður Thorlacius.

 

Knáir krakkar

Knáir krakkar er viðburðarík og spennandi bók ætluð börnum á aldrinum 8 - 12 ára. Hún gerist að vorlagi uppi í sveit. Söguhetjurnar þrjár, þau Lóa, Búi og Hrói taka þátt í sauðburði og fylgjast af áhuga með hreiðurgerð og varpi fuglanna. En ævintýrið bíður. Þau leggja upp í útilegu og dularfullir atburðir fara að gerast. Þetta er fyrsta bók höfundar sem starfaði þá við kennslu í grunnskóla. Bókin er skrifuð á auðlesnu máli, kaflar eru stuttir og atburðarás hröð. Ætlun höfundar var að hún gæti nýst þeim lesendum sem enn ráða ekki við löng og flókin orð.  Auður Eysteinsdóttir myndskreytti bókina.

Umfjöllun: Morgunbl. 18. 12. 1982, Jenna Jensdóttir.

Víst er ég fullorðin

Bókin gerist í smábæ úti á landi upp úr 1950. Á þeim tíma sátu stúlkur og vermdu bekki heilu böllin, allir bílstjórar með ábyrgðartilfinningu flautuðu fyrir horn og hver einasti kennari hljóp yfir "dónalega kaflann" í heilsufræðinni þó það væri eini kaflinn sem nemendur töldu sig einhverju varða. Þetta rifjar ýmislegt upp fyrir pabba og mömmu, jafnvel afa og ömmu. En hvað skyldi unglingur á slíku sögusviði eiga sameiginlegt með unglingnum í dag? 

Umfjöllun: Morgunbl. 8. 12. 1988, Jenna Jensdóttir; Þjóðviljinn 17. 12. 1988, Ólöf Pétursdóttir; Víkurblaðið 20. 12 1988, Jóhannes Sigurjónsson; DV 9. 1. 1989, Sigurður Helgason.

Skuggarnir í fjallinu

Sjórekið góss, kamarseta, bakteríudrepandi snúss, hættuleg hrekkjusvín og dularfullur tréfótur er meðal þess sem kemur við sögu í þessari bók. Sögusviðið er lítið þorp úti á landi á fimmta áratugnum og aðalpersónurnar eru Una og Sara og tvíburarnir Binni og Þórir. Bókin er lituð af bernskuminningum höfundar.

Umfjöllun: Morgunbl. 18. 12. 1990, Súsanna Svavarsdóttir; Þjóðviljinn 12. 12. 1990, Ólöf Pétursdóttir; Víkurblaðið 19. 12 1990 (höf. ekki getið); DV 13. 12. 1990, Anna Hildur Hildibrandsdóttir; Tíminn 18. 12. 1990 Sigríður Thorlacius; Heima er best, síðu 375; Bolli Gústavsson

Með bómull í skónum

Bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar Skuggarnir í fjallinu og bregður upp mynd af litríku lífi í litlu þorpi úti á landi um miðbik aldarinnar. Stundum þarf ekki mikið til að ímyndunaraflið fari á flug hjá krökkunum. Hrekkjusvín, draugar og ýmsar skrítnar skrúfur eru á stjái og svo kveður alvaran sér hljóðs þegar skriðan fellur á hesthúsið hans afa. 

Umfjöllun: Morgunbl. 8. 12. 1994, Sigrún Klara Hannesdóttir: DV 15. 12. 1994, Oddný Árnadóttir

Fjársjóðurinn í Útsölum

Spennandi ævintýrasaga fyrir börn og unglinga. Huldar og Björt eru vinir þótt þau séu ólík. En þegar breytingar verða í landinu þeirra felur skuggi á vináttuna. Aðeins eitt getur orðið til bjargar: þau verða að finna fjársjóðinn...  Þegar bókin var skrifuð stóð stríðið í fyrrum Júgóslavíu yfir. Fréttir af þeim atburðum urðu höfundi hvatning til að skrifa hana. Myndir í bókinni eru eftir Hlín Gunnarsdóttur.

Umfjöllun: DV 17. 12. 1992, Silja Aðalsteinsdóttir; Morgunbl. 23. 12. 1992 ,Sigrún Klara Hannesdóttir

Olla og Pési

Olla og Pési er saga með ævintýralegu ívafi. Hún gerist í Reykjavík. Olla elst upp hjá þremur sérvitrungum sem búa á síðasta bændabýlinu innan borgarmarkanna. Vandamál kemur upp sem fullorðna fólkið á erfitt með að ráða við.  Þau standa ekki ein því að Skáldi, Málfríður og hesturinn Rauður leggja sitt af mörkum. Myndir eru eftir Búa Kristjánsson. Bókin hlaut verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur árið 1988.

Umfjöllun: Morgunbl. 28. 11. 1987, Jenna Jensdóttir; DV 2.12. 1987, Hildur Hermóðsdóttir; Þjóðviljinn 19. 12. 1987, Helga K. Einarsdóttir

 

Þokugaldur

Valný er 16 ára og nýflutt til Íslands eftir langa dvöl í Svíþjóð. Hún saknar gömlu vinanna og henni líður illa á nýja staðnum. Það er ekki fyrr en hún villist í þoku uppi í fjalli og hittir Friðrik sem hlutirnir fara að breytast ... Tæpum tveimur öldum fyrr villtist önnur stúlka á sama stað og á undarlegan hátt kynnist Valný sögu hennar og uppgötvar að ýmislegt tengir þær. Báðar eru þær sjálfstæðar og þrjóskar og báðar þurfa að taka stórar ákvarðanir um framtíð sína. Þjóðsaga sem Þorsteinn Erlingsson skráði varð höfundi kveikja að bókinni. Þokugaldur er skrifuð fyrir unglinga og ungt fólk.

Umfjöllun: Morgunbl. 10. 12. 1996 Sigrún Klara Hannesdóttir; DV 17. 12. 1996 Margrét Tryggvadóttir

Er allt að verða vitlaust?

Flóki, Hilda, Arnar og Olga eru í 7. H. og eru ýmsu vön. Þeim stendur þó ekki á sama um yfirganginn  í töffaraliðinu í 9. bekk. Einn daginn halda þau að nú sé öllum hremmingum lokið og líður eins og stórstjörnum en það reynist skammgóður vermir. Fólk á sambýli fyrir aldraða kemur töluvert við sögu og brugðið er upp mynd af lífi drengs sem var ungur seint á 19. öld. Þetta er fyndin og raunsæ saga úr umhverfi sem flestir unglingar þekkja.

Umfjöllun: Morgunbl 26. 11. 1993, Sigrún Klara Hannesdóttir; DV 30. 11. 1993 Silja Aðalsteinsdóttir

Snuðra og Tuðra

Bókunum um systurnar Snuðru og Tuðru fjölgar sífellt. Snuðra og Tuðra eru óþekktarangar sem læra eingöngu af reynslunni. Í hverri bók læra þær eitthvað nýtt. Bækurnar eru feykivinsælar hjá yngstu kynslóðinni enda fá allir góðan samanburð þegar tiltæki þeirra systra eru annars vegar. Sjónvarpsþættir hafa verið gerðir um flestar bókanna og leikrit samið upp úr nokkrum þeirra. Gunnar Karlsson myndskreytti tíu fyrstu bækurnar en Anna Cynthia Leplar þá elleftu og tólftu.

Umfjöllun: Morgunbl. 12. 12. 1991, Sigrún Klara Hannesdóttir; DV 23. 12. 1991, Sigurður Helgason. Morgunblaðið 20. 12. 2002, Hildur Loftsdóttir

Snuðra og Tuðra verða vinir        Iðunn, Reykjavík 1991

Snuðra og Tuðra í búðarferð        Iðunn, Reykjavík 1991

Snuðra og Tuðra fara í strætó       Iðunn, Reykjavík 1991

Snuðra og Tuðra í miðbænum        Iðunn, Reykjavík 1991

Snuðra og Tuðra missa af matnum        Iðunn, Reykjavík 1991

Snuðra og Tuðra halda jól                          Iðunn, Reykjavík 1992

Snuðra og Tuðra eiga afmæli                      Iðunn, Reykjavík 1992

Snuðra og Tuðra laga til í skápnum              Iðunn, Reykjavík 1992

Snuðra og Tuðra og fjóshaugurinn               Iðunn, Reykjavík 1992

Snuðra og Tuðra láta gabba sig                  Iðunn, Reykjavík 1992

Snuðra og Tuðra í jólabakstri                     Salka, Reykjavík 2002  

Snuðra og Tuðra fara til tannlæknis             Salka, Reykjavík 2003   

Snuðra og Tuðra laga til í herberginu sínu     Salka, Reykjavík 2004    

Nýtt 2004
Hljóðsnælda með Snuðru og Tuðru, 12 sögur 

Útgáfufyrirtækið Dimma hefur gefið út tólf Snuðru og Tuðru sögur á hljóðsnældu. Þarna eru bæði gamlar og nýjar sögur og ein óbirt. Þetta er kjörin gjöf fyrir aðdáendur þeirra systra sem ekki hafa náð hraða í lestri ennþá. Fæst í bókabúðum og á vef Dimmu.

Haustgríma

Fyrsta bók höfundar skrifuð fyrir fullorðna. Bókin gerist á landnámsöld og er að nokkru leyti byggð á atburðum sem getið er um í Landnámu og Droplaugarsona sögu. 

Iðunn, Reykjavík 2000

Umfjöllun: Morgunbl. 22. 11. 2000, Soffía Auður Birgisdóttir; DV 21. 11. 2000 Steinunn Inga Óttarsdóttir

Kynjaverur í Kverkfjöllum 

Lítil eyja úti í Atlantshafi verður til. Loftandar og sæbúar hafa fylgst spenntir með tilurð landsins, og með hverju fjalli, fossi, kletti og jökli verða til kraftmiklar og allsérstakar landvættir. Sumar eru brennheitar og aðrar ískaldar, það er kannski þess vegna sem þær eiga í sífelldum erjum.
En einn góðan veðurdag birtist mannfólk á fiskfuglum og sest að á landinu með kræklótta hausinn. Margar aldir líða og mannfólkið er sífellt með ný uppátæki, eins og að þeytast um hálendið á fýlufákum og fljúga í gegnum skelkaða loftanda á ógnvænlegum dúndurdrekum.
Skelfilegir atburðir gerast síðan í Kverkfjöllum og loftandar, yltröll, hrímþursar, álfar, hafmeyjar og marbendlar ákveða loksins að taka málin í sínar hendur. – Nú reynir á baráttuvilja þeirra og samstöðu ... geta allar landvættirnar unnið saman og varið landið sitt?
Áhrifamikil og falleg saga um vináttu, traust og virðingu fyrir landinu okkar og öllum sem þar búa.

Salka, Reykjavík 2003

 

Galdur Vísdómsbókarinnar Nýtt 2004

Galdur Vísdómsbókarinnar er spennandi saga sem gerist fyrir 1000 árum eða svo. Í henni leitar kappinn Hrólfur Vísdómsbókarinnar til að geta kveðið niður forna afturgöngu sem ógnar Humlabyggð. Þetta er mikil háskaför meðal annars á slóðir sjóræningja en heima bíður unnustan, Silkisif. Bókin er skrifuð undir áhrifum frá hinum skemmtilega ævintýraheimi í Fornaldarsögum Norðurlanda.                                                          Umfjöllun: Þrúður Guðmundsdóttir, Kistan.is ; Úlfhildur Dagsdóttir á Bókmenntir.is

NÁMSBÆKUR

Iðunn og eplin

Endursögn úr Gylfaginningu á sögunni af því þegar gyðjunni Iðunni var rænt og goðin urðu gömul og grá. Skrifuð á mjög léttu máli fyrir börn sem eru ekki orðin fluglæs. Búi Kristjánsson myndskreytti.

Ormurinn í Lagarfljóti 

Endursögn á þjóðsögunni um orminn í Lagarfljóti. Á mjög léttu máli fyrir yngstu lesendur. Búi Kristjánsson myndskreytti. 

Bras og þras á Bunulæk

Bók með auðlesnum texta. Hún hlaut 1. - 3. verðlaun í samkeppni sem Námsgagnastofnun efndi til árið 1985. Ingvar Guðnason myndskreytti

Umfjöllun: Morgunblaðið 20.12. 1985, Sigurður Haukur Guðjónsson; Helgarpósturinn 20. 1. 1986, Sölvi Sveinsson

Lesum saman og Lesum meira saman

Blandað efni, Frumsamið, þjóðsögur vísur o.fl. Ætluð til lestrarþjálfunar.

Kennsluefni í kristnum fræðum

Iðunn hefur í samvinnu við sr Sigurð Pálsson unnið kennsluefni í kristnum fræðum fyrir 1. - 7. bekk grunnskóla. Í efninu eru nemendabækur og handbækur fyrir kennara.

Umferðarfræðsla

Sex bækur um umferðarfræðslu fyrir ung börn. Hlín Gunnarsdóttir myndskreytti.

Tvær bækur um forvarnir gegn vímuefnum

Ég er  húsið mitt, fyrsta og önnur bók. Hlín Gunnarsdóttir myndskreytti.