Reykjavík 1. mars 2007

 

Umsögn um Samgönguáætlun 2007-2018


Landssamtök hjólreiðamanna fagna því, að “hjóla- og göngustígar” eru nefndir í samgönguáætlun 2007-2018 (SGÁ), eða eins og þar segir: “Stefnt skal að því að breyta vegalögum í þá átt að ríkinu verði heimilað að taka þátt í gerð hjóla- og göngustíga meðfram stofnbrautum í þéttbýli og meðfram umferðarmestu þjóðvegunum í dreifbýli til jafns við reiðvegi”.

Þetta er gott og gilt svo langt sem það nær, en leysir ekki þann mikla vanda, sem nú ríkir á gangstéttum. Það er umhugunarefni, hvers vegna umsagnir Landssamtaka hjólreiðamann um drög að umhverfismati SGÁ hafa ekki skýrt betur orðalag Samgönguáætlunarinnar sjálfrar. Bendir það ekki til þess að umhverfismatið hafi verið sýndarmennska?

Vísað er í umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um Samgönguáætlun 2007-2010 um fjögur mikilvæg atriði, sem rík áhersla er lögð á að nái nú þegar fram að ganga. Því verður ekki farið frekar út í öll atriði í Samgönguáætlun 2007-2018, sem þó væru þess virði að fjallað yrði um.

Í Samgönguáætlun 2007-2018 vantar alla framtíðarsýn, sem varðar sjálfbærar samgöngur. Orðalagið “hjóla- og göngustígar” getur allt eins bent til óbreytts ástands í gerð göngustíga, sem eru gersamlega óásættanleg lausn fyrir hjólandi umferð. Hjólreiðafólk á ekki samleið með gangandi vegfarendum, ekki frekar en umferð vélknúinna ökutækja og hestamanna. Hönnunarforsendur hjólreiðabrauta og göngustíga eru ólíkar, því verður að skilgreina hjólreiðabrautir sérstaklega.

Hjólreiðabrautir verður einnig að flokka í stofn- og tengibrautir o.s.frv.
Vegna óskýrs orðalags í SGÁ er ekki að undra, þó að gerð þessara “hjóla- og göngustíga” sé ekki frekar tíunduð í áætlunini. Því vilja Landssamtök hjólreiðamanna benda á nokkra staði, þar sem leggja verður hjólreiðabrautir meðfram umferðarþyngstu vegum landsins. Mikilvægt er, að þessir staðir verði taldir upp í Samgönguáætlun 2007-2018, og það haft að leiðarljósi, að lokið verði lagningu hjólreiðabrautanna á gildistíma áætlunarinnar. Ljóst er þó, að vegna byggðaþróunar á gildistímanum gætu áherslur breyst, en á því verður þá að taka jafnhliða breyttum aðstæðum.


Höfuðborgarsvæðið og suðvesturland
Forgangsverkefni er að leggja aðgreindar hjólreiðabrautir meðfram öllum stofnbrautum höfuðborgarsvæðisns og þeim umferðarþungu akvegum, sem þar eru í umsjá Vegagerðarinnar.

Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut frá Reykjanesbæ meðfram allri Reykjanesbraut (vegnr. 41)

Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut meðfram Suðurlandsvegi (vegnr. 1) að Selfossi og frá Suðurlandsvegi skammt frá Selfossi í og um sumarhúsabyggð í Þrastaskógi (vegnr. 35 og 36 Sogsvegur )

Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut meðfram Vesturlandsvegi (vegnr. 1) að vegamótum við Hvalfjarðarveg (vegnr. 47).

Vesturland og norðvesturland
Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut meðfram hringvegi nr. 1 frá vegamótum við Hvalfjarðarveg að Bifröst.

Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut meðfram vegi nr. 61 frá Hnífsdal að flugvellinum í Skutulsfirði.

Mikilvægt er, að hjólreiðar verið ekki bannaðar í þeim veggöngum sem þegar er að finna á Vestfjörðum og búast má við að gerð verða á gildistíma Samgönguáætlunar

Norðurland.
Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut meðfram vegi nr. 1 frá Ólafsfjarðarvegi (vegnr. 82) um Akureyri að Svalbarðseyri. Þá verði einnig lögð aðgreind hjólreiðabraut frá Akureyri (vegi nr. 1) eftir vegi nr. 821 að Hrafnagili.

Miðað við núverandi umferðarþunga og umhverfisáhrifa er aðeins talið nauðsynlegt að breikka vegaxlir með sléttu slitlagi á veginum umhverfis Mývatn svo að auka megi umferðaröryggi allra vegfarenda. (vegnr. 1 og 848 og 87)

Mikilvægt er, að hjólreiðar verði ekki bannaðar í þeim veggöngum, sem þegar er að finna á Norðurlandi og búast má við, að lögð verði á gildistíma Samgönguáætlunar.

Austurland
Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut meðfram vegi nr. 1 frá Fellabæ að gatnamótum Norðfjarðarvegar (vegnr. 92)

Lögð verði aðgreind hjólreiðabraut meðfram Norðfjarðarvegi (vegnr. 92) milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.

Miðað við núverandi umferðarþunga er aðeins talið nauðsynlegt að breikka vegaxlir með sléttu slitlagi á eftirtöldum stöðum:

Á hringvegi nr. 1 frá gatnamótum vegar nr. 92 á Egilsstöðum að gatnamótum Upphéraðsvegar (vegnr. 931).

Eftir Norðfjarðarvegi nr. 92 frá Egilsstöðum að Reyðarfirði.

Mikilvægt er, að hjólreiðar verði ekki bannaðar í þeim veggöngum, sem þegar er að finna á Austurlandi og búast má við, að lögð verði á gildistíma Samgönguáætlunar.

Nú þegar, við gildistöku SGÁ, er mkilvægt, að Vegagerðin leggi hjólreiðabrautir samtímis almennri viðhaldsvinnu við fyrrgreinda vegi. Þannig má komast hjá óþarfa kostnaði og töfum við lagningu hjólreiðabrauta. Mikilvægt er, að hjólreiðabrautir taki mið af íslenskum aðstæðum, en að öðru leyti sé horft til erlendra staðla. Þess ber svo að geta, að því betur sem hjólreiðabrautir eru úr garði gerðar, þeim mun meiri arðsemi verður af framkvæmdinni.
 


--  Fylgiskjöl  --
 

Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um Samgönguáætlun 2007-2010 er á vefslóðinni:
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2007/010307.htm

Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um umhverfismat Samgönguáætlunar er að finna á vefslóðum:
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2006/191106.htm
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2006/201106.htm

Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um Vegalög er á vefslóðinni:
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2007/150207.htm

Athugasemd Landssamtaka hjólreiðamanna við Umferðaröryggisáætlun 2002-2010 er á vefslóð:
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2004/athumferd.htm



Umsögn þessa er hægt að nálgst með virkum tenglum á vefslóðini
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2007/020307.htm




Fyrir hönd Landssamtök hjólreiðamanna



________________________________________
Magnús Bergsson

Landssamtök hjólreiðamanna
Pósthólf 5193
125 Reykjavík

www.hjol.org